Nú ÞEGAR greinaflokkur þessi um tíðaranda í aldarlok er hálfnaður er ekki úr vegi að skyggnast um öxl og spyrja hvort póstmódernisminn (pm-isminn) marki í raun þau þáttaskil í hugmyndasögunni sem boðberar hans vilja vera láta.
TÍÐARANDI Í ALDARLOK, 6. HLUTIPÓSTMÓDERNISMINN: STRAUMHVÖRF EÐA STRAUMIÐA? EFTIR KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
Lýsing John Roberts á pm-ismanum er einföld en skýr: gamli heimurinn sé í dauðateygjunum en sá nýi óborinn og á meðan ríki alls kyns úrkynjun og andstyggð. Nú ÞEGAR greinaflokkur þessi um tíðaranda í aldarlok er hálfnaður er ekki úr vegi að skyggnast um öxl og spyrja hvort póstmódernisminn (pm-isminn) marki í raun þau þátta skil í hugmyndasögunni sem boðberar hans vilja vera láta. Ég hef hingað til að mestu fylgt viðtekinni túlkun þeirra á Ginnungagapinu milli módernisma og pm-isma og hinum síðari sem "nýrri vídd" í menningu, listsköpun og fræðum. En hafa þeir endilega lög að mæla? Ég beini hér á eftir fyrst sjónum að pm-ískri list og hreyfi efasemdum um nýbreytni hennar. Síðan vík ég að innbyrðis þrætum marxista um pm-íska heimspeki sem eðlis- eða stigsbreytingu á ásýnd heimskapítalismans. Greining marxista á félagslegu samhengi pm-ismans er raunar öll hin merkilegasta fyrir áhugafólk um aldaranda samtímans, hvar í flokki sem það stendur. Samkvæmt pm-ismanum verður hverjum að trú sinni og því erfitt að sannfæra pm- ista um að þar sem þeir sjái þáttaskil séu ekki í raun þáttaskil. En þó ber þess að geta að sumir pm-istar vefengja listrænan frumleik eigin stefnu - sem raunar virðist samræmast betur afneitun þeirra á frumleik listar yfirleitt! Hal Foster bendir þannig réttilega á að launsagnastef (sjá fimmtu grein) sé engin nýjung í listum. Hann leyfir sér jafnvel að efast um að Derrida hafi fundið upp afbygginguna og að enginn listamaður hafi beitt þeirri aðferð skipulega fyrir daga pm- ismans. Hvað um Picasso: Afbyggði hann ekki innanfrá þá hefð sem hann fékk í arf? Það er heldur engin ný bóla að listamenn taki sér til handargagns hluti úr nánasta umhverfi og felli inn í myndverk sín. Var það ekki höfuðaðferð Duchamps og annarra dadaista? Foster dregur því þá ályktun að pm-ísk list ríði ekki á þrotavað módernismans heldur endurnýi fremur og endurskapi það straumþyngsta úr honum. Mörg svipuð dæmi mætti nefna um óglögg skil milli módernískra og pm-ískra aðferða í listum: Súrrealistar notuðu ljós(klippi)myndir óspart í listsköpun sinni á fyrri hluta aldarinnar; Nam June Paik, hinn kóreanski faðir myndbandalistarinnar (sem oft er litið á sem pm-ískt listform), er yfirlýstur módernisti sem stefnir ekki að afbyggingu húmanisma heldur afbyggingu frábrigða og einingu mannkyns. Umhverfislist er heldur engin róttæk nýjung - og þannig mætti lengi telja. Kjarni málsins virðist sá að pm-istar hafa kokgleypt túlkun síð-módernískra listfræðinga á "módernisma" sem samheiti "formhyggju" í anda Greenbergs. En módernistar voru aldrei svo einslit hjörð: Hvunndagsskúlptúrar dadaista áttu lítið skylt við ofurraunsæi súrrealistans Magrittes, sem aftur átti enn minna skylt við rúmfræðifleti Mondrians. Fyrir seinna stríð var skreytilist, í austrænum anda, eitt höfuðeinkenni módernismans (samanber listmálarann Matisse og tískuhönnuðinn Poiret); en sú list liggur nú í þagnargildi eftir að Greenberg fordæmdi hana. Konur létu meira að sér kveða á þessum tíma en pm-istar gera sér grein fyrir. Þær gerðust atkvæðamiklar í listsköpun og menningarlífi stórborganna er auðvelduðu þeim að hverfa í fjöldann og léðu þannig svigrúm fyrir breytta lífshætti og hegðun; nægir þar að minna á breska Bloomsbury-hópinn sem nýlega hefur verið dreginn fram í dagsljósið á ný í bókum og bíómynd. Módernisminn kann sem heild að hafa verið þrotabú þegar kom fram á sjöunda áratuginn, en pm-istar slógu vissulega eign sinni á marga innanstokksmuni þaðan þegar búið var gert upp. Síst mega þeir og gleyma því að Nietzsche, sem oft er nefndur faðir módernismans, var einnig afi þeirra; án sifjafræði hans og valdskenninga hefði Foucault naumast samið fræði sín. Hverfum þá frá listinni og að pm-ismanum sem menningarheimspeki í víðtækari skilningi. Þar hafa marxistar verið einna iðnastir við að draga pm-ista í dilka og afskrifa þá, á endanum, sem vanmetagemlinga. Hinum fyrrnefndu sárnar enda mjög að pm-istar skuli hafa stolið glæpnum frá þeim; á málfundum róttæklinga beri nöfn Foucaults og Derridas nú oftar á góma en Marx og Engels! Marxistar þurfa einnig að bera hönd fyrir höfuð sér því að pm-istar taka kreddur þeirra oftar en ekki sem höfuðdæmi um hrunda "allsherjarkenningu". Jameson, sem manna gleggst hefur lýst pm-ismanum (sjá fjórðu grein), er einnig skeleggur gagnrýnandi hans. Jameson setur heimspeki þessa í sögulegt samhengi, eins og marxista er siður, og fylgir þá hagspeki skoðanabróður síns, E. Mandels. Greina má þrjú stig í þróun kapítalismans, að sögn Jamesons: markaðskapítalisma, einokunar-/nýlendukapítalisma og nú síðast alþjóðakapítalisma . Pm-isminn sé afurð þriðja stigsins, "þriðju vélaaldar", og þar með eðlisólíkur módernismanum sem hafi verið úthverfa nýlendukapítalismans. Merkilegt er að Jameson svarar óbeint rökum Fosters um skyldleika listrænna aðferða módernista og pm- ista. Handargagnslist dadaistanna sé þannig aðeins yfirborðsskyld traustataki pm-ista á hversdagshlutum; enda hafi hin fyrri þótt ögrandi og ljót á sínum tíma en nú yppti menn aðeins öxlum yfir því síðarnefnda! Jameson er, eins og marxistar yfirleitt, fremur tvístígandi í siðlegu mati sínu á heimspeki pm-ista sem endurspeglun ríkjandi framleiðsluhátta. Annars vegar sé hún söguleg nauðsyn, og þar með handan alls siðferðishjals, en hins vegar standi hún vitaskuld siðlega langt að baki þeirri sem koma skal þegar sósíalisminn tekur völdin. David Harvey er sammála Jameson um að pm-isminn sé einkenni síð-kapítalisma en andmælir því að hann sé eðlisólíkur módernismanum: breytingin sé fremur megindarleg ("quantitative") en eigindarleg ("qualitative"), svo að notast sé við orðalag hinnar marxísku þrætubókar. Skoðanamunur Jamesons og Harveys helgast sumpart af því að sá síðarnefndi hefur sótt í smiðju til annars marxísks hagfræðings, M. Agliettas; sumpart af því að Jameson er prófessor í bókmenntafræði og sér ofsjónum yfir innrás pm-ismans í listheima. Harvey er hins vegar landfræðingur og túlkar pm-ismann umfram allt sem "Geo-politik", eins og nasistarnir kölluðu það: sem markaðsvæðingu menningarinnar og samþjöppun tíma- og rúmsskyns í sí-smækkandi heimi. Það verður ekki af bók Harveys um pm- ismann skafið að þótt hún sé fullþung fyrir byrjendur í fræðunum þá er hún besti leiðarvísir sem völ er á um rangala og þverganga heimspeki þessarar ekki síst um tengsl pm-ismans við ýmsa aðra miðþyngdarpunkta í samtíðarmenningu okkar. Liggur við að svarnir fjandmenn marxismans sjái sig um hönd þegar þeir fylgjast dolfallnir með Harvey raða saman púsluspili sínu. En hér kann að gilda það sama og ég sagði áður um Habermas: Samanburðurinn hlýtur að verða andstæðingum pm-ismans hagstæður því það þarf ekki svo skírt gull til að bera af eiri. Harvey fer á kostum þegar hann ber annars vegar saman heimspeki módernismans við hugmyndir eldri "ósveigjanlegs" kapítalisma (Fordisma í framleiðslu, Taylorisma í stjórnun) og hins vegar pm-ismann við nýrri, "sveigjanlegri" póst-Fordískan kapítalisma. Einkenni eldri kapítalismans, sem dagaði uppi á sjöunda áratugnum eins og módernisminn, voru meðal annars a) útþensla og iðnvæðing stórvelda, b) miðstýring og vöxtur stórborga, áhersla á c) framleiðslu og d) magn, e) lóðréttur stjórnunarstíll og f) gæðaeftirlit með enda framleiðsluferla. Nýi kapítalisminn, sem Harvey skilur sem innhverfu pm-ismans, einkennist hins vegar af a) iðnhjöðnun stórvelda, b) valddreifingu og hrörnun miðborga, áherslu á c) þjónustu og d) gæði (það er fullnægingu þarfa viðskiptavinanna), e) láréttum stjórnunarstíl og f) gæðaeftirliti sem fellt er inn í framleiðsluferlana (samanber "altæka gæðastjórnun"). Harvey túlkar pm-ismann sem heimspeki einnota- samfélags þar sem öllu sé tjaldað til einnar nætur, hvort sem það eru lífshættir, neysluvenjur eða ástarsambönd. Hann efast ekki, frekar en Jameson eða aðrir sanntrúaðir marxistar, um að pm-isminn muni fyrr eða síðar missa flugið, samhliða falli kapítalismans, en neitar því að unnt sé að sjá fyrir hvenær það gerist; nýi kapítalisminn sé svo sveigjanlegur að eitt fiðrildi sem blaki vængjunum geti breytt stefnu hans og hægt eða hraðað þróuninni. Meðal annarra marxista sem fjallað hefur ítarlega um pm-isma er listfræðingurinn John Roberts. Hann er af eldri skóla en bæði Jameson og Harvey og reiðubúnari að lesa yfir hausamótunum á hinum vegvilltu pm-istum! Heimspeki þeirra sé ekki annað en gamalt vín á nýjum belgjum: sjálfhverf hughyggja, eins og Marx kallaði slíkan mjöð. Kórvillan er sú, að dómi Roberts, að hafna tvíhyggju efnis og anda (hugsunar) og þar með tilvist sjálfstæðs hlutveruleika sem sé óháður hugtakakerfum okkar. Lýsing hans á pm-ismanum er einföld en skýr: gamli heimurinn sé í dauðateygjunum en sá nýi óborinn og á meðan ríki alls kyns úrkynjun og andstyggð. Pm-istar hafa að sjálfsögðu svarað fyrir sig; bera reyndar hrollkennda lotningu fyrir Jameson og vitna í hann út og suður þótt þeim falli ekki í geð lokaniðurstaða hans. Craig Owens ávítar hann fyrir draumóra um framtíðarríki frelsis, óra sem í raun lýsi eftirsjá eftir módernismanum. Af einhverjum ástæðum er pm-istum mun verr við Harvey; væmir einkum við þeim valdsmannsbrag sem er á greiningu hans og hinni skýru "allsherjarkenningu" sem hann fylgir. Meaghan Morris sér hann fyrir sér sem persónugerving hreppstjóravitsins: vindbelgsins er skilji sveitina sína og þykist þar með skilja heiminn allan. Með greiningarlíkani sínu skapi hann fyrirbærin sem hann þykist fanga; hví sé það líkan enda merkilegri en önnur? Mest hrýs Morris þó hugur við þeirri draumsýn Harveys, sem og annarra marxista, að sá dagur muni rísa að allur ágreiningur hafi verið jafnaður og andstæður máðar út. Því, eins og Morris fullyrðir hiklaust: Ágreiningur verður aldrei jafnaður án kúgunar. Fátt lýsir heimspeki pm-ismans betur í hnotskurn en þessi sakleysislega fullyrðing sem, þegar að er gáð, er ótrúlega beinskeytt alhæfing. Hún hrín ekki aðeins á staðleysu- draumum marxista, um bræðralag framtíðarríkisins, heldur á sérhverri tilraun, smárri sem stórri, til sátta og samkomulags. Engin málamiðlun er til þegar tveir deila og sá vægir ekki sem vitið hefur meira heldur hinn sem stendur hallari fæti í valdataflinu. Getur vonarsnauðari visku um mannleg samskipti? Tilvísanir: 1 Foster, H., "Re: Post", í Art After Modernism: Rethinking Representation, ritstj. Wallis, B. (New York/Boston: The New Museum of Contemporary Art/David R. Godine, 1984). 2 Ástráður Eysteinsson kemst að hliðstæðri niðurstöðu um pm-ískar bókmenntir í "Hvað er póstmódernismi?", Tímarit Máls og menningar , 49 (1988). 3 Sjá Wollen, P., "Fashion/Orientalism/The Body", New Formations , 1 (1987).
4 Bridget Elliott og Jo-Ann Wallace lýsa vel stöðu kvenna í módernismanum í Women Artists and Writers: Modernist (im)positionings (London/New York: Routledge, 1994). 5 David Harvey kvartar sáran undan þessu í The Condition of Postmodernity: An Enquiry into the Origins of Cultural Change (Oxford: Blackwell, 1990), bls. 354! 6 Jameson, F., "The Cultural Logic of Late Capitalism", í Postmodernism, or, The Cultural Logic of Late Capitalism (London/New York: Verso, 1991). 7 Þetta er eitt höfuðþemað í bók Harveys, The Condition of Postmodernity .
8 Roberts, J., Postmodernism, Politics and Art (Manchester/New York: Manchester University Press, 1990). 9 Owens, C.,"The Discourse of Others: Feminists and Postmodernism", í Postmodern Culture , ritstj. Foster, H. (London/Sidney: Pluto Press, 1985). 10 Morris, M., "Future Fear" í Mapping the Futures: Local Cultures, Global Change , ritstj. Bird, J. (London: Routledge, 1993). Höfundur er doktor í heimspeki og dósent við Háskólann á Akureyri.
HARVEY túlkar pm-ismann sem heimspeki einnota-samfélags þar sem öllu sé tjaldað til einnar nætur, hvort sem það eru lífshættir, neysluvenjur eða ástarsambönd.
Bandaríski myndlistarmaðurinn Robert Rauschenberg túlkar sama viðhorf sem svo að Mona Lisa sé orðin mynd á einnota umbúðir í neyzlusamfélaginu.