SILFURSMÍÐAR og málverk eiga kannski ekki annað sameiginlegt en að vera tvær listgreinar. En báðar hafa líka undanfarið heldur verið hornrekur í listaheiminum. Það er sjaldgæft að sjá stóra silfurhluti á sýningu. Málverkið hefur marglega verið lýst dautt og nú síðast þegar málverk voru ekki einu sinni tekin með á fimmæringnum í Kassel.
SILFUR OG LITIR
Silfur og málverk hafa lengi verið þungamiðja vestrænna lista. Tvær sýningar með íslenskum þátttakendum gefa hugmynd um hvað er á seyði í kringum þessi efni sem stendur, eins og Sigrún Davíðsdóttir rekur hér á eftir. SILFURSMÍÐAR og málverk eiga kannski ekki annað sameiginlegt en að vera tvær listgreinar. En báðar hafa líka undanfarið heldur verið hornrekur í listaheiminum. Það er sjaldgæft að sjá stóra silfurhluti á sýningu. Málverkið hefur marglega verið lýst dautt og nú síðast þegar málverk voru ekki einu sinni tekin með á fimmæringnum í Kassel. En á tveimur sýningum í Kaupmannahöfn má þó sjá að þessar listgreinar lifa góðu og gróskumiklu lífi og í báðum þeirra taka íslenskir listamenn þátt. Danska málmiðnaðarsambandið bauð virtum hópi danskra silfursmíða að sýna í Brunnsalnum úti á Friðriksbergi og í þeim hópi var Pétur Tryggvi. Þarna eru líka í fyrsta skipti sýndir silfurmunir úr einkasafni Margrétar Þórhildar Danadrottningar, sem einnig opnaði sýninguna. Sýningin stendur til 5. október og aðsóknin hefur verið gríðarleg. Í Charlottenborg við Kóngsins nýja torg stendur til 19. október yfir sýningin "Display", þar sem ætlunin er að sýna það áhugaverðasta í málverkinu um þessar mundir og Tumi Magnússon er í hópi þeirra 24 listamanna, sem þar eiga verk. Dönsk silfursmíð í eina öld með íslensku ívafi Danskir silfursmiðir hafa löngum vakið athygli fyrir framlag sitt. Sá þekktasti þeirra var Georg Jensen, 18661935 og hlutir hans eru enn framleiddir. Þegar dönsk hönnun varð þekkt um miðbik aldarinnar og næstu áratugi var silfursmíðin einnig með. Auk hinna eldri tilheyra þeir sem sýna virtum samtökum er kallast því hógværa nafni "Danske sølvsmede", er stofnuð voru 1976. Í henni eru þeir silfursmiðir, sem fást við smíði stórra hluta, svokallaða corpussmíði. Í opnunarorðum sínum nefndi Max Bæhring, formaður danska málmiðnaðarsambandsins, að heillandi væri að hugsa til þeirrar handlagni og fimi, sem þyrfti til að skapa hluti úr silfurplötum, að móta plöturnar til án þess að nokkurs staðar komi rifa á. Pétur Tryggvi kemst svo að orði að silfrið lifni við í höndum silfursmiðsins, sem þurfi að temja það. Þessi orð er fróðlegt að hafa í huga þegar hlutirnir eru skoðaðir, því um leið og sjálf hönnunin, teikning hlutanna, krefst hugmyndaflugs, þarf ótrúlega tæknikunnáttu til að ná að fá fram þá hluti, sem hugurinn hefur séð fyrir sér. Það gefur sýningunni áhugaverða vídd að sjá eldri hönnun allt frá því um aldamótin, meðal annars eftir arkitektinn Thorvald Bindesbøll, son M.B. Bindesbøll, sem teiknaði Thorvaldsensafnið. Síðan taka við stílhreinir hlutir funksjónalismans og þar við tekur tímabilið frá því um miðja öldina, þegar dönsk hönnun varð hugtak sem tekið var eftir. Línan frá þeim tíma liggur enn í nýjustu hlutunum, en nútíminn er engin eftiröpun þess fyrra. Pétur Tryggvi varð meðlimur silfursmiðahópsins danska í fyrra. Hann sýnir nú tafl og taflborð og kirkjusilfur, sem hann hefur smíðað í íslenskar kirkjur. Taflið á sér nokkra sögu, því hann vann að því á árunum 1982 1993 og endurbætti það í ár, þegar sýningin var í augsýn. Skýringin er sú að taflið var á sýningu 1989 í nýju galleríi í Kaupmannahöfn. Eftir að sýningunni lauk dróst að Pétur Tryggvi sækti settið, sem þá var geymt í peningaskáp í þrjár vikur. Þegar Pétur Tryggvi sótti settið kom íljós að peningaskápurinn var svo nýr að steypan var enn rök. Brettið var ónýtt og viðartoppar á taflmönnunum líka. Nú hefur Pétur Tryggvi útbúið afar sérstakt taflborð úr svörtum lökkuðum viði, þar sem hann leggur emalerað gler yfir. Útkoman er að svörtu fletirnir sjást eins og í daufu ljósi. Svörtu topparnir eru úr íbenviði, en þeir hvítu nú úr políester. Þegar drottningin staldraði við hjá Pétri Tryggva var henni forvitni á að heyra úr hverju hvítu topparnir væru. Þegar hann fræddi hana á því svaraði hún að bragði að það hefði þann kost að það hvorki gulnaði né springi eins og fílabein, en slíkt má einmitt sjá í nokkrum munum sem koma úr eigu hennar. Af öðrum munum er kaleikur, kross, patína og stjakar úr Vídalínskirkju, kaleikur úr silfri og gleri úr Áskirkju og oblátubuðkur úr Reynivallakirkju í Kjós, sem var fyrsta corpuspöntun Péturs Tryggva, en buðkurinn er frá 1984. Verkstæði og verslun Péturs Tryggva er á Gentoftegade 68 úti í Gentofte, útborg Kaupmannahafnar. Af öðrum áhugaverðum silfursmiðum má nefna Per Sax Møller, eina danska silfursmiðinn, sem ekki smíðar neitt annað en corpus. Hann hefur verið með í silfursmiðahópnum frá stofnun hans. Hlutir hans eru kröftugir, skarpir og einfaldir, þar sem keilur, kúlur og sívöl form spila gjarnan saman. Verkstæði hans er í Bredgade 47, steinsnar frá Kóngsins nýja torgi og hlutir hans til sýnis í búðinni við hliðina á, þar sem verk silfursmiðsins og hönnuðarins Kay Bojesen, 18871958 og fleiri silfursmiða eru til sýnis. Allan Scharff er annar og mjög ólíkur silfursmiður, sem reyndar fæst ekki aðeins við silfursmíði, heldur hannar meðal annars gler. Hann er með verkstæði í Sølvgade 22, en hannar fyrir Royal Copenhagen og hlutir hans eru til dæmis seldir í búð fyrirtækisins á Strikinu við Amagertorg. Scharff-línan er öll önnur en hinna tveggja, meira fljótandi og streymandi. Hann sýnir meðal annars silfurkönnu með bláum glerfugli og skálar, sem eru lágar og eins og fljótandi út. Bæði blátt gler og fuglar ganga í gegnum verk hans, hann hefur gert fugla bæði í silfur og gler og bláar glerskálar í sama formi og silfurskálarnar. Hreinræktuð málverk og takmörk þess Þegar konceptlistin var upp á sitt öflugasta á áttunda áratugnum fengu nemendur í listaskólum iðulega að heyra að málverkið væri ekkert til að dunda sér við. Framtíðin lægi annars staðar. Þótt önnur listform eins og vídeó og innsetningar njóti kannski meiri athygli fjölmiðla lifir málverkið góðu lífi eins og það hefur gert um aldir og framtíðin liggur enn þar. Þetta kemur vel fram á sýningunni í Charlottenborg, "Display", sem galleríeigandinn Mikael Andersen hefur sett saman. Andersen rekur gallerí í Bredgade, skáhallt á móti Kunstindustrimuseet og þar er venjulega hægt að ganga að nýjum straumum og stefnum vísum. Nú hefur hann veitt þeim niður á Kóngsins nýja torg og í þeim flaumi er Tumi Magnússon þátttakandi. Í samtali við Morgunblaðið segist Mikael Andersen hafa valið verk listamanna sem hann hafi séð á sýningum í Evrópu og Bandaríkjunum. Það sé engin sérstök stefna að baki, heldur einungis gleðin við að velja saman verk, þar sem málverkið sé aðalatriðið. Hann hafi bæði valið verk þeirra sem að jafnaði vinna í önnur form og þeirra, sem eingöngu mála til að beina athyglinni að því hvar mörk málverksins liggja. Verk Tuma segist hann þekkja af sýningum og þótt þau falla vel að, enda hafi hann lagt undir sig anddyrið á áhugaverðan hátt. En þótt engin nákvæm stefna sé í vali verkanna og 24 listamenn geti bent til að úr verði nokkur óreiða, hefur Andersen notað húsakynnin til að skapa hverjum listamanni rými, sem hann nýtir einn. Sýningin er því meira eins og 24 einkasýningar, en ein risastór samsýning í hefðbundnum skilningi. Þarna hanga því bæði málverk, sem aðeins eru hengd upp á vegginn, en í langflestum tilfellum eru verkin í einhverju samspili við rýmið, þannig að þau leika á mörkum hreins málverks, skúlptúrs og innsetninga. Um leið verður líka mun meira að rýna og spá í fyrir þann sem skoðar. Verk Tuma er það fyrsta sem sýningargesturinn gengur fram á, því í því er anddyrið lagt undir. Það felst í drykkjarkrúsum, sem hann hefur málað í mismunandi gulum litum og síðan eru veggirnir málaðir í gulum litum. Við nánari aðgæslu eru veggirnir þó ekki aðeins í mismunandi gulum litum, heldur eru liturinn ljósastur efst og neðst svo liturinn skapar þá blekkingu að veggurinn teygi sig út til skoðandans. Litirnir eru fundnir út frá gulum litum ýmissa efna, svo sem hákarlalýsis, eyrnamergs, flugnaeiturs, blóðvökva, lýsis og saumavélaolíu, svo eitthvað sé nefnt. Gulu litina segist Tumi hafa valið án nokkurrar sterkrar táknrænnar þýðingar, heldur einfaldlega af því gulur sé skemmtilegur og bjartur litur og falli vel að staðnum. Verkin eru sama þráðar og fyrri verk, þar sem litir hafa verið viðfangsefnið. Bollarnir eru af sýningu í Hafnarfirði, þar sem verkefnið var postulín og í framhaldi af þeim spann Tumi litahugsunina yfir á veggina. Tumi segist ánægður með sýninguna. Eins og sett sé fram á sýningunni sé málverkið ein aðferð sem listamönnum sé tiltæk, hvorki betri né verri en aðrar aðferðir og sem hægt sé að nota með öðrum aðferðum, þegar það eigi við. Það standi fyrir sínu, þegar það sé notað á ferskan hátt og ef það sé nógu breitt skilgreint og ekki of akademískt. Nálgun listamannanna er vægast sagt ólík. Í stigaganginum er hátt og langt málverk eftir Svíann Lars Forslund, þar sem ýmsum sögum fer fram í umhverfi, sem er eins og háhýsi. Uppi á stigapallinum er ný-expressjónismi Þjóðverjans Alberts Oehlens. Hann tilheyrir kynslóð ungu villinganna, sem einnig sá stað í íslenskum verkum og þar er litagleði og sprikl á ferðinni. Annar málari er Daninn Jesper Christiansen sem heldur sig í jurtaríkinu í skýrum myndum. Til að hverfa frá hinu hefðbundna málverki má líta á verk Bandaríkjamannanna Mike Kelley og Paul McCarthy. Þeir hafa byggt nokkurs konar völundarhús, þar sem er eftirmálun verka eftir franska módernistann Francis Picabia og vísindaskáldsagnateiknarann Richard Powers. Á fjólubláa veggi hefur bandaríska listakonan Karen Kiliminik hengt lítil blómamálverk, þar sem liturinn og efnið dansar á brún hins ósmekklega. Það er af mörgu að taka og listunnendur hafa þarna að mörgu að huga.
SILFUR í eigu Þórhildar Danadrottningar sem kemur í fyrsta skipti fyrir augu almennings.
VERK Tuma Magnússonar á sýningunni sést hér að hluta en að baki þess liggja hugmyndir um úrvinnslu lita og skírskotanir þeirra.