Átök ölvaðra
einstaklinga
MIÐAÐ við þann mikla mannfjölda, sem safnast saman í miðbænum að kvöld- og næturlagi um
helgar, teljast t.d. alvarlegar líkamsárásir ekki margar þar.
Á fyrstu níu mánuði ársins var tilkynnt um 28 alvarlegar líkamsárásir á landinu öllu. 21 var úti á landi, en sjö voru í Reykjavík. Þar af voru þrjár í miðborginni.
Það sem af er árinu hefur verið tilkynnt um 430 líkamsmeiðingar af ýmsum toga í Reykjavík og urðu um 150 þeirra á miðborgarsvæðinu.
"Þegar þessar tölur eru skoðaðar verða menn að hafa í huga þann fjölda sem þarna er og ástand fólksins. Flest tilvikanna eru átök milli ölvaðra einstaklinga," segir Karl Steinar Valsson. "Ölvuninni í miðbænum fylgir líka virðingarleysi gagnvart eigum annarra. Umfjöllun um miðbæinn hefur einnig mikil áhrif. Fyrir nokkrum árum var mikið rætt um að hættulegir, vopnaðir menn væru á ferli í miðbænum. Þetta hafði það í för með sér að margt yngra fólk ákvað að ganga með hníf og hélt því fram að það væri nauðsynlegt til að verjast. Slík varnarvopn geta auðveldlega breyst í árásarvopn. Núna hefur aftur dregið úr þessum vopnaburði."