Draumar góðs gengis
Í LANDI draumsins er eitt reisulegt hús, skreytt fögrum höggmyndum gæfu og gjörvileika
þeirra ímynda sem fylgja hverjum manni á lífsleiðinni, þær eru markaðar almennum táknum hagsældar og persónulegum gróðamörkum svo sem Marilyn Monroe og Elvis Presley. Velferð birtist dreymendum í mörgu líki, það getur verið draummynd af hlut sem þú "finnur upp" og hagnast á, eða lag sem þú heyrir í draumi þínum og sem verður þér gullnáma í vöku, samanber lagið "Yesterday" sem bítilinn Paul McCartney dreymdi. Og alla dreymir um gæfu sér til handa, þá gæfu má finna í fyrrnefndu húsi því gangar þess eru klæddir hvítum og gulum marmara virks innsæis og stofurnar eru gríðarstórar hvítmálaðar eða þiljaðar sálrænum eiginleikum og næmni á góða hluti. Þetta hús draumsins er vettvangur gæfta og gjöfulla þátta sem sendir eru til vökunnar um net draumsins. En þær dofna, molna, ryðga og eyðast þeim er næra ekki drauma sína. Hinir sem sífellt dytta að draumunum, fægja þá og pússa, dreypa af gnægtahorni draumsins aukinn kraft, stærra sjálf og virkt innsæi á gæftir vökulífsins. Þekktar eru sögur af skipstjórum sem afla með draumum sínum. Þeir fara ekki á sjó ef slæmar eru draumfarir, en drífa sig í róður hvernig sem viðrar ef vel hefur veiðst í draumum þeirra og reynast afla vel. Aðra dreymir skít fyrir góðu gengi og eru þessi tvö tákn, fiskur og saur, almenn tákn ágóða í einhverju formi. Í nýlegu viðtali sagði sjómaðurinn og lagasmiðurinn Gylfi Ægisson að sig dreymdi fisk og skít fyrir ágóða. "Þegar ég seldi metsöluplötuna "Litið til baka" í 12 þúsund eintökum þá dreymdi mig stuttu áður að ég var á Siglufirði og fjörðurinn var fullur af skít, báturinn sem ég var á, var einnig fullur af skít og munnurinn á mér líka, því ætlaði ég að draumurinn væri fyrir velgengni plötunnar, sem og varð."
Áttu fleiri góð draumtákn?
"Já, Bubba Mortens og Gunna Þórðar, þegar mig dreymir þá koma peningar í kjölfarið."
Draumar "Dúllu"
1. "Ég var stödd fyrir framan stórar dyr á lítilli og góðri íbúð í fjölbýlishúsi. Með mér var vinkona mín og svertingi. Við opnuðum dyrnar og sáum hyldýpi sem klettadrangar (allt svart) stóðu uppúr. Þegar við skoðuðum þetta betur sáum við að gler var yfir og við gátum gengið yfir hyldýpið (okkur fannst við þurfa að ganga yfir). Allt í einu var ég orðin svertinginn og gekk út á glerið, ég fór að sökkva í gegnum glerið og mikil gufa myndaðist. "Mér" fannst "ég" þ.e.a.s. svertinginn reyna að bjarga "mér" með því að grípa í rauðar steyptar súlur sem lágu þarna út um allt, en "ég" sökk með þeim og dó. Þegar "ég" var dáin fannst "mér" "ég" vera létt og glær og gekk í burtu. Svo breyttist "ég" í rétta mig aftur. Þá stóð ég aftur við stóru dyrnar með vinkonu minni, ég var hrædd og vildi flýja frá öllu saman. Við hlupum þar til við komum að fallegum stað með grænum brekkum og það var sólskin. Við hittum þar karl (líklega götusópara) í svörtum fötum og mjög skrýtna veru sem var ljós-appelsínugul. Við urðum samferða þeim þar til mér datt í hug að þetta væri sá sem vildi drepa mig (gufan, súlurnar og appelsínuguli maðurinn væri allt það sama). Ég kallaði "bróðir, bróðir" (til að gá hvort þetta væri rétt hjá mér) og veran brjálaðist og við flúðum með veruna á hælunum. Við hlupum og komum að fjölbýlishúsinu og hlupum upp margar hæðir, fórum inn í íbúð á efstu hæð til að villa um fyrir verunni, þar bjuggu þrjár gamlar góðar konur sem vildu hjálpa okkur, þær voru litlar og í gömlum kjólum. Ein þeirra rétti mér gullkross og í miðju hans var rauður rúbín. Ég setti þumalfingurinn fyrir skráargatið og fann heita gufu þrýstast í gegn. Verunni tókst að komast og að krossinum og með orðinu "bróðir" hvarf veran og dó, ég hafði sigrað.
2. Ég var í snjóhvítu fjölbýlishúsi sem verið var að klára að byggja og önnur vinkona með, hún ætlaði að flytja inn í eina íbúðina. Ég vildi flytja inn í húsið en mamma og pabbi bönnuðu mér það. Allt var hvítt nema ég og vinkona mín.
Ráðning
1-2. Draumarnir báðir fjalla um þig og framtíð þína sem er þér óljós (hugmyndir þínar) og ókunn (raunvera) en þinn innri maður (svertinginn) sem þú ert ómeðvituð um (svartur) knýr á framkvæmdir af þinni hálfu til virkrar þátttöku í framtíðinni. Þótt þú sért smeyk við að sækja í óöryggi óvissunnar (glerið yfir djúpinu) þá hefur þú bein í nefinu og hræðist ekki hið óþekkta. Með þeirri ákvörðun breytist þú (rauðu súlurnar sem tákna nýjar undirstöður) og þroskast ("ég" sökk og dó", hamur eldri gilda hverfur og nýr myndast, "létt og glær"). Húsið í draumunum ert þú og þitt innra líf, þar birtist þér grænar brekkur (þroski) og götusóparinn sem er þinn Animus. Veran appelsínugula er þáttur (gæska, góðmennska, bræðralag) í eðli þínu sem þú þekkir ekki réttilega og misskilur því sem eitthvað slæmt, líklega vegna ákafa þess að ná fram í þér (gufan). Þessi misskilningur og þrákelkni þín að meðtaka eigið sjálf reynir á þolrifin, þú ert mikið með hugann við fortíðina (gömlu konurnar tákna fortíð, nútíð og framtíð) þó hjartað sé þegar á framtíðarvegi (gullkrossinn og rúbíninn trú og von). Þessi þráhyggja hamlar þér og skemmir möguleika þína sem eru miklir. Nafn seinni vinkonunnar Irenu merkir göfgi.
Í seinni drauminum virðist þú orðin laus undan ímynduðum böggum og tilbúin í ferðina til framtíðar, þó eru hömlur á (foreldrar sem ráð gefa af reynslu) og best að fara gætilega, hlusta vel og ákveða síðan.
"Dúlla" spyr svo í lokin af hverju ég krefjist fæðingardags og árs viðkomandi með bréfunum. Því er til að svara að ég vil vita aldur viðkomandi og í hvaða stjörnumerki hann er til glöggvunar á dreymandanum og draumtáknum hans. Þá spyr "Dúlla" hversu langt líði frá komu bréfa til birtingar. Því get ég ekki svarað á annan veg en þann að frá því Draumstafir byrjuðu í Morgunblaðinu fjölgar bréfum jafnt og þétt en hver pistill rúmar eitt til þrjú bréf í senn og bréf "Dúllu" barst mér í byrjun júlí, það fór í draumaröðina og birtist nú.
Þeir lesendur sem vilja fá drauma sína birta og ráðna sendi þá með fullu nafni, fæðingardegi og ári ásamt heimilisfangi og dulnefni til birtingar til:
Draumstafir
Morgunblaðið
Kringlunni 1
103 Reykjavík
Mynd/Kristján Kristjánsson DRAUMUR rís að daglátum.