MIÐBÆRINN Ofbeldið felst í ónæðinu Fjöldi veitingahúsa í miðbæ Reykjavíkur hefur í för með sér mikinn mannsöfnuð þar á nóttunni um helgar. Í umfjöllun Ragnhildar Sverrisdóttur kemur fram að miðað við þennan mikla fjölda eru ofbeldisverk á borð við líkamsárásir ekki mörg í miðbænum.
MIÐBÆRINN

Ofbeldið felst

í ónæðinu

Fjöldi veitingahúsa í miðbæ Reykjavíkur hefur í för með sér mikinn mannsöfnuð þar á nóttunni um helgar. Í umfjöllun Ragnhildar Sverrisdóttur kemur fram að miðað við þennan mikla fjölda eru ofbeldisverk á borð við líkamsárásir ekki mörg í miðbænum. Ofbeldið felst fyrst og fremst í því ónæði og skemmdarverkum sem íbúar svæðisins þurfa að þola. Öryggismyndavélar, sem nú stendur til að setja upp á nokkrum stöðum, gætu dregið þar verulega úr, miðað við reynslu af slíkum vélum í Bretlandi.

VEITINGAHÚSUM í mið borginni fjölgaði mjög hratt á skömmum tíma og nú er svo komið að á níunda tug vínveitingastaða eru á svæðinu frá Rauðarárstíg að Garðastræti. Leyfilegur gestafjöldi þessara staða er tíu þúsund manns. Séu allir veitingastaðir í borginni taldir eru þeir um tvö hundruð og þar geta 30 þúsund gestir komið saman, eða tíundi hluti þjóðarinnar.

Fjöldi fólks býr innan um veitingastaðina. Þar sem þeir standa þéttast, í Kvosinni, eru götur og torg full af ölvuðu fólk langt fram eftir nóttu. Íbúarnir hafa ekki mestar áhyggjur af ofbeldisverkum, heldur kvarta til lögreglu þar sem ekki er svefnfriður um helgar, eigur þeirra eru skemmdar eða sóðaskapurinn, sem fylgir drukknum mannfjöldanum, gengur fram af þeim. Það er ekki óalgengt að morgunverk íbúanna á laugardögum og sunnudögum felist í að spúla burt þvag við útidyrnar, eða fjarlægja saur úr görðum.

Innbrot, slagsmál og skemmdarverk

Viðskiptavinir veitingastaðanna eru misjafnir. Í miðbænum er að finna krár, þar sem fíkniefnaneytendur og dagdrykkjufólk heldur til. Kvartanir vegna þessara staða eru fyrirferðarmiklar í skjölum lögreglu, enda gera viðskiptavinir af þessum toga lítinn greinarmun á nóttu og degi. Íbúar í fjölbýlishúsi við Pósthússtræti, sem stendur við hlið Ölkjallarans við Skólabrú, sendu borgarráði bréf í síðasta mánuði, þar sem þeir kvörtuðu undan ónæði. Þeir hafa fengið sig fullsadda af innbrotum í stigaganginn, ópum og slagsmálum jafnt að nóttu sem degi og að finna sprautunálar fíkniefnaneytenda í blómabeðum. Þá hafa bílar verið skemmdir og rúður brotnar.

Íbúar eru ekki þeir einu sem kvarta, því sambýli við veitingastaði gerir forsvarsmönnum fyrirtækja einnig gramt í geði. Eimskipafélag Íslands sendi borgarráði bréf í síðasta mánuði og kvartaði undan Hafnarkránni við Hafnarstræti. Borgarráð samþykkti að leita ítarlegra upplýsinga frá lögreglu um rekstur þessara staða og rekstraraðilum verður gerð grein fyrir málinu. Lögreglan er nú að afla þessara upplýsinga.

Borgaryfirvöld hafa fyrir nokkru gert sér grein fyrir að eitthvað verði að gera. Hins vegar hefur ekki gengið eins vel að koma góðum áformum í framkvæmd. Í maí í fyrra samþykkti borgarráð að "á næstunni" yrði tímabundið hætt að mæla með útgáfu nýrra vínveitingaleyfa fyrir veitingastaði í miðborginni. í Morgunblaðinu var haft eftir Guðrúnu Ágústsdóttur, forseta borgarstjórnar, að ekki væri hægt að setja á tímabundna stöðvun nema að undangenginni auglýsingu. Hún vísaði til fordæmis borgarstjórnar Kaupmannahafnar, sem greip til þessa ráðs þegar henni fannst komið mikið ójafnvægi milli þjónustufyrirtækja í miðborginni. Guðrún benti einnig á, að borgaryfirvöld hefðu stuðlað að fjölgun íbúða í miðborginni og að ekki færi saman íbúðabyggð og fjöldi skemmtistaða.

Kristín A. Árnadóttir, aðstoðarkona borgarstjóra, segir að frá og með næstu áramótum ætli borgarráð ekki að mæla með að veitt verði ný leyfi til áfengisveitinga.

Ekki ströng skilyrði

Í nágrannalöndunum, til dæmis í Danmörku, eru sett ströng skilyrði fyrir leyfum til áfengisveitinga. Í sumum bæjum er m.a. gengið hart eftir því að veitingamaður ábyrgist að fólk safnist ekki saman fyrir utan staðinn eftir lokun. Hér á landi eru skilyrði fyrir veitingaleyfi þau, að umsækjandinn sé fjárráða og að bú hans hafi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta og leyfi til áfengisveitinga fær hann því aðeins að veitingastaður hans teljist "fyrsta flokks að því er snertir húsakynni, veitingar og þjónustu".

Þessi skilyrði geta vart talist ströng. Reykjavíkurborg hefur reynt að skilja sauðina frá höfrunum með því að setja skilyrði fyrir jákvæðri umsögn sinni. Veitingamenn eiga að leggja fram vottorð um að þeir hafi staðið skil á opinberum gjöldum. Þessi skilyrði er hins vegar ekki að finna í lögum og líklegt að Reykjavíkurborg geti ekki staðið fast á þessu þegar á reynir.

Borgaryfirvöld skoruðu nú í vikunni á dómsmálaráðuneytið að þegar verði lagt fram á Alþingi lagafrumvarp um breytingu á útgáfu veitinga- og vínveitingaleyfa sem og afgreiðslutíma veitingahúsa. Í frumvarpinu verði gert ráð fyrir að ákvarðanir um afgreiðslutíma verði í höndum sveitarstjórna, enda hefur Reykjavík hug á að hann verði breytilegur. Um leið ítrekaði borgarráð nær tveggja ára samþykkt sína þess efnis að heimildir lögreglustjóra til tímabundinnar eða varanlegrar leyfissviptingar vínveitingaleyfa, ef leyfishafi fylgir ekki settum reglum, verði skýrar og ótvíræðar. Loks áréttar borgarráð þá stefnu að rétt sé að leggja mat á umsækjanda um veitingaleyfi, m.a. fjárhagsstöðu hans og viðskiptaferil.

Þennan laga- og reglugrunn, sem borgaryfirvöld fara fram á, þarf að setja til að koma böndum á þá veitingastaði, sem ítrekað brjóta t.d. gegn ákvæðum um aldur og fjölda gesta. Skýrt dæmi um þau veiku úrræði, sem lögreglan hefur, er afgreiðsla á máli veitingastaðarins Tetris í Fischersundi. Lögreglan taldi veitingamanninn ítrekað hafa brotið gegn áfengislögum og barnaverndarlögum og neitaði að endurnýja leyfi hans. Dómsmálaráðuneytið sneri þeirri ákvörðun hins vegar við. Þar var um að kenna að borgarráð hafði verið meðmælt því að leyfið yrði framlengt í sex mánuði, með þeim skilyrðum að hljóðeinangrun yrði bætt, dyravarsla aukin og reglum um fjölda gesta og aldurstakmark fylgt, nokkuð sem lögreglan mun hafa verið vantrúuð á að bæri árangur fremur en fyrri daginn. Ráðuneytið taldi það ekki í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga að synja um leyfi í stað þess að binda það skilyrðum.

Öryggismyndavélar vakti miðbæinn

Þótt borgin geti ekki strax farið að framfylgja þeirri stefnu sinni að samþykkja ekki ný vínveitingaleyfi og enn vanti lög sem marka skýra stefnu og hafa að geyma heimildir til aðgerða víki veitingamenn út af beinu brautinni, þá sitja menn ekki auðum höndum. Nú er verið að leggja lokahönd á samning Reykjavíkurborgar, Pósts og síma, dómsmálaráðuneytisins og lögreglustjórans í Reykjavík um uppsetningu og rekstur öryggismyndavélakerfis í miðbænum. Í áfangaskýrslu framkvæmdanefndar um miðborgarmál, sem kom út fyrir tveimur árum, var lagt til að myndavélum yrði komið fyrir á Dómhúsinu við Lækjartorg, á húsinu við Aðalstræti 6 (Morgunblaðshúsið gamla) og á Hótel Borg. Frá Dómhúsinu yrði hægt að fylgjast með Bankastræti, umhverfi stjórnarráðsins, Lækjartorgi og Austurstræti að Pósthússtræti. Frá Aðalstræti 6 yrði fylgst með Aðalstræti, Ingólfstorgi og Austurstræti að Pósthússtræti. Frá Hótel Borg yrði hægt að fylgjast með Austurvelli, Alþingishúsinu, Landssímahúsi og Pósthússtræti að Reykjavíkurhöfn.

67% fækkun innbrota og þjófnaða

Framkvæmdanefndin taldi öryggismyndavélarnar forgangsmál. Hún vísaði til reynslunnar í Bretlandi, þar sem öryggismyndavélar hafa verið settar upp í fjölmörgum borgum. Afbrotum fækkaði verulega, til dæmis fækkaði innbrotum og þjófnuðum um 67% í borginni Hexham og skemmdarverkum og líkamsárásum um 39%. Í miðborg Newcastle fækkaði glæpum um 20%. Fækkun afbrota hefur hvergi verið undir 18%.

Nú fer að líða að því að vélar verði settar upp hér. Hver aðili að samningnum tilnefnir fulltrúa í verkefnisstjórn og funda þeir í Ráðhúsinu á mánudag. Hugsanlegt er að samningurinn verði undirritaður við það tækifæri, en ekki er ljóst hvenær rekstur vélanna gæti hafist.

Samkvæmt upplýsingum Símons Sigvaldasonar, deildarstjóra í dómsmálaráðuneytinu, hefur ekki verið tekin ákvörðun um fjölda myndavéla eða staðsetningu þeirra, en stjórnstöðin verður hjá lögreglunni.

Kristín A. Árnadóttir segir að Reykjavíkurborg ætli að leggja þrjár milljónir króna til verkefnisins og Póstur og sími hf. láni búnað og heimili endurgjaldslaus afnot af ljósleiðarakerfi. Það framlag sé metið til 2 til 3 milljóna króna. "Við viljum prófa myndavélarnar í eitt ár hið minnsta. Þær hafa reynst vel annars staðar og við getum ekki látið þetta óreynt."

EKKI er ljóst hvar öryggismyndavélum verður komið fyrir í miðbæ Reykjavíkur, en framkvæmdanefnd um miðborgarmál lagði til að þær yrðu á Dómhúsinu við Lækjartorg, á Hótel Borg og á Aðalstræti 6.