KODÁLY-KVARTETTINN frá Ungverjalandi verður gestur Kammermúsíkklúbbsins á tónleikum í Bústaðakirkju annað kvöld, sunnudag, kl. 20.30. Á efnisskrá verða Strengjakvartettar eftir Joseph Haydn, Zoltán Kodály og Johannes Brahms. Kodály-kvartettinn skipa tónlistarmennirnir Attila Falvay, Tamás Szabo, Gábor Fias og János Devich.
Kodály-kvartettinn í

Kammermúsíkklúbbnum

KODÁLY-KVARTETTINN frá Ungverjalandi verður gestur Kammermúsíkklúbbsins á tónleikum í Bústaðakirkju annað kvöld, sunnudag, kl. 20.30. Á efnisskrá verða Strengjakvartettar eftir Joseph Haydn, Zoltán Kodály og Johannes Brahms.

Kodály-kvartettinn skipa tónlistarmennirnir Attila Falvay, Tamás Szabo, Gábor Fias og János Devich. Á kvartettinn sér langa sögu en félagarnir lögðu allir stund á nám í Ferenc Liszt-akademíunni í Búdapest. Kvartettinn var stofnaður árið 1970 og hefur komið fram í helstu tónlistarsölum Evrópu, Ameríku, Ástralíu og Japans og á tónlistarhátíðum víða um lönd. Auk þess er Kodály-kvartettinn kunnur fyrir hljóðritanir sínar fyrir NAXOS-útgáfuna, þ.á m. á heildarútgáfum á strengjakvartettum Haydns, Schuberts og Beethovens.

Mikið af kammertónlist Haydns varð til meðan hann var búsettur í Ungverjalandi en hann er sagður hafa gert strengjakvartetta að einu mikilvægasta, en um leið einu vandasamasta, sviði hljóðfæratónlistar. Síðustu verkin sem hann samdi í Ungverjalandi eru tveir kvartettar op. 77.1 og 77.2. Verður sá síðarnefndi fluttur í Bústaðakirkju.

Framan af ævi samdi Kodály einkum einleiks- og kammertónverk en síðar hljómsveitarverk og söngverk. Hann samdi tvo strengjakvartetta og verður annar þeirra, op. 10, fluttur annað kvöld.

Brahms gaf ekki út nema þrjá af þeim tuttugu strengjakvartettum sem hann er talinn hafa samið. Hinum fargaði hann enda var enginn hægðarleikur að taka upp þráðinn þar sem Beethoven hafði hætt. Kodály-kvartettinn mun flytja strengjakvartett nr. 2 í a-moll.

KODÁLY-KVARTETTINN frá Ungverjalandi.