ENN einu sinni hefur lífleg umræða farið fram í fjölmiðlum og í þjóðfélaginu um málefni Seðlabanka Íslands. Síst væri nokkuð við það að athuga ef umræðan væri málefnaleg og ef fréttamenn sem um málin fjalla sýndu þann metnað og þá fagmennsku sem krefjast verður af þeim.

Fréttaflutningur af Seðlabanka Íslands

Seðlabankinn gegnir þýðingarmiklu hlutverki í íslensku efnahagslífi. Ingimundur Friðriksson telur upphlaup fjölmiðla gegn Seðlabankanum í þriðja sinn í ár beinlínis varasamt.

ENN einu sinni hefur lífleg umræða farið fram í fjölmiðlum og í þjóðfélaginu um málefni Seðlabanka Íslands. Síst væri nokkuð við það að athuga ef umræðan væri málefnaleg og ef fréttamenn sem um málin fjalla sýndu þann metnað og þá fagmennsku sem krefjast verður af þeim. Í fjölmiðlum hljóma upphrópanir um flakk bankamanna, að Seðlabankinn sé helsta spillingarbæli landsins og, svo sérstakt dæmi sé tekið, að fulltrúar bankans hafi tæpast átt erindi á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans í síðasta mánuði. Blaðamaður sem um það fjallaði hlustaði ekki á skýringar á þátttöku fulltrúa bankans né að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn greiddi kostnað af þátttöku formanns bankastjórnar. Enn síður kannaðist hann við að bankinn hefði sent frá sér frétt um fundinn. Eitt dagblaðanna birti forsíðufrétt af því að lögfræðideild Seðlabankans væri að rannsaka ferðamál Steingríms Hermannssonar (og vék raunar að hinu sama í leiðara). Fyrir þeirri frétt var ekki flugufótur.

Hneykslunin beinist mjög að utanferðum bankastjóra Seðlabankans án þess að þær séu settar í samhengi við miklar alþjóðlegar skyldur og skuldbindingar bankans (sjá grein formanns bankaráðs í Morgunblaðinu 8. október sl.). Aldrei er sýnd viðleitni til þess að meta árangur af starfsemi bankans á alþjóðavettvangi. Fjölmargar opinberar stofnanir sinna mikilvægum alþjóðlegum erlendum samskiptum með þeim kostnaði sem því er samfara en þykir ekki fréttnæmt eða aðfinnsluvert. Er það kannski orðið þjóðarsport að eltast við Seðlabankann eða er kannski staðreyndin sú að Seðlabankinnn hefur jafnan látið upplýsingar greiðlega af hendi þegar eftir hefur verið leitað og því auðvelt um að fjalla.

Upphlaup fjölmiðla gegn Seðlabankanum í þriðja sinn í ár er beinlínis varasamt. Seðlabankinn gegnir þýðingarmiklu hlutverki í íslensku efnahagslífi. Hann mótar og framfylgir peningastefnu sem hefur verðstöðugleika að markmiði og gætir þess að stofnanir á fjármagnsmarkaði fari eftir þeim reglum sem um starfsemi þeirra gilda, þ.e. að fyllsta öryggis sé gætt í rekstri þeirra. Ómaklegar og ómálefnalegar árásir á stofnunina geta skaðað möguleika hennar til þess að sinna því hlutverki sem lög kveða á um að hún skuli sinna. Auk þess skaða þær stórlega og að ósekju starfsmenn bankans því fjölmiðlar og síðan almenningur hafa tilhneigingu til þess að marka alla sem þar starfa spillingarmarki. Í Seðlabanka Íslands starfa 140 manns sem hafa starfsheiður að verja. Hann hafa þeir tæpast getað varið nema með verkum sínum sem lítill gaumur er gefinn í opinberri umræðu. Þetta er fólk sem vinnur störf sín af samviskusemi og fagmennsku en má sæta því, ásamt fjölskyldum sínum, að vera nítt niður hvar sem það kemur fyrir það eitt að vera tengt Seðlabankanum. Verk starfsmanna tala sínu máli og tæpast verður um það deilt að bankinn hafi sinnt margþættu hlutverki sínu með góðum árangri.

Skilningur virðist almennt ríkja á að Seðlabankinn hafi undanfarin misseri fylgt peningastefnu sem tryggt hefur framhald stöðugleika í verðlagi og efnahagslífi. Umræður sem sköpuðust síðla sumars um stefnu bankans í vaxta- og gengismálum voru málefnalegar og gagnlegar jafnt Seðlabankanum sem öðrum, enda skýrðu þær ýmsa mikilvæga þætti í mati á ríkjandi efnahagsaðstæðum og á forsendum stefnunnar í peningamálum, a.m.k. fyrir þeim sem áhuga höfðu. Það háir hins vegar opinberri umræðu hve mikillar vanþekkingar gætir á fjölmiðlunum um hlutverk Seðlabankans í íslensku efnahagslífi, eins og umræða liðinna daga hefur borið með sér. Athyglisverð er yfirlýsing ritstjóra dagblaðs í blaði sínu 9. október sl. að á hagstjórn, peningamálum og raunverulegri seðlabankastarfsemi hafi "örfáir núlifandi Íslendingar vit og enginn á fjölmiðlum"! Hvar er metnaðurinn?

Varðandi þá holskeflu vandlætingar sem nú ríður yfir Seðlabankann er rétt að minna á að allar reglur sem gilda um bankastjóra Seðlabankans höfðu verið birtar í svörum til Alþingis sl. vetur. Engum þurfti að koma á óvart hverjar þær eru. Allar upplýsingar um kjör bankastjóra Seðlabankans hafa verið uppi á borðinu. Bankaráð er kosið af Alþingi og þar sitja fulltrúar stjórnmálaflokkanna, Alþýðuflokks, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samtaka um kvennalista. Bankaráð hefur yfirumsjón með starfsemi bankans og setur reglur m.a. um bifreiðakostnað og ferðalög bankastjóra. Þessar reglur eru settar með hliðsjón af reglum sem gilda annars staðar, svo sem um ráðherra og í öðrum bönkum og opinberum stofnunum. Bankaráð Seðlabankans hefur síður en svo höfundarrétt á þeim. Línur eru lagðar annars staðar en lítil viðleitni er sýnd til þess að grafast fyrir um þá hluti. Ef eitthvað er þá hafa reglur sem gilda um starfsemi Seðlabankans verið strangari en í öðrum stofnunum.

Í Seðlabankanum starfar innri endurskoðun sem heyrir beint undir bankaráð. Hún fylgist m.a. með því að eftir reglum sé farið. Ráðherraskipaður löggiltur endurskoðandi endurskoðar einnig allar hliðar á starfsemi bankans, þar með talda háttsemi bankastjóra, og gerir athugasemdir eftir því sem hann telur ástæðu til. Í þriðja lagi endurskoðar Ríkisendurskoðun starfsemi bankans og ríkisendurskoðandi gerir sínar athugasemdir eftir því sem hann telur efni til. Nýlega upplýstist opinberlega um tiltekna aðfinnslu endurskoðenda sem sýnir að innra eftirlitið er virkt.

Er of djarft að fara fram á sanngjarna og málefnalega umfjöllun og að frammistaða bankastjórnar og starfsmanna verði metin eins og hún endurspeglast í verkum bankans?

Höfundur er aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands.

Ingimundur Friðriksson