Greiðum hugsanlega
3,5 milljörðum
of mikið í verðbætur
Íslendingar greiða hugsanlega 3,5 milljörðum króna of mikið í verðbætur til bankakerfisins á ári vegna innbyggðrar villu í neysluverðsvísitölugrunninum. Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, dregur þessa ályktun á grunni rannsókna bandarískra hagfræðinga sem unnu skýrslu fyrir Bandaríkjaþing.
Tryggvi Þór segir að við gerð neysluvísitölu sé framkvæmd neyslukönnun. Hérlendis sé fjöldi manns fenginn til að skrá niður nákvæmlega hve mikið af vöru og hvers konar vöru hann kaupir. Meðaltalið þýðir að kjarnafjölskyldan eyði tilteknum hluta tekna sinna í matvöru, samgöngur, tryggingar og fleira. Kostnaðarsamt er að gera slíkar kannanir og er grunninum því sjaldan breytt af þeim sökum.
Verðbólga ofmetin um 1,1%
"Neysluverðsvísitala er reiknuð einu sinni í mánuði og út frá þessum magngrunni, segir Tryggvi Þór. "Það sem gerist er að nýtt verð á vörunni er skoðað. Verðið breytist og verðlagið hækkar eða lækkar. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að magnið breytist. Hækki verð á einni vörutegund skipta menn yfir í aðra tegund. Vísitalan er byggð þannig upp að gengið er út frá því að menn kaupi alltaf sama magn af sömu vörunni. Afleiðingin af þessu er sú að svo virðist sem verðbólgan sé ofmetin.
Í Bandaríkjunum telja hagfræðingar að verðbólgan sé ofmetin um 1,1%. Sé þetta heimfært upp á Ísland, sem ég tel að tvímælalaust sé hægt að gera, má áætla að skuldir íslenskra heimila séu ofmetnar um 3,5 milljarða, eða 1,1% af 350 milljörðum. Ef verðbólgan er ofmetin í vísitölunni greiðum við of háar verðbætur inn í bankakerfið," sagði Tryggvi Þór.