NÚ ERU liðnir u.þ.b. 3 mánuðir síðan Guðjón Þórðarson tók til starfa sem landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu eftir að Loga Ólafssyni hafði verið vikið frá störfum. Margir höfðu trú á því að með Guðjóni myndu blása ferskir vindar um landslið okkar og að hann myndi ná að lyfta því upp á hærra plan. Ég var ekki einn af þeim sem hafði þá trú.

Landsliðsmál í lamasessi

Ekki hefur verið hægt hingað til, segir Hafþór Birgisson, að hrópa húrra fyrir leikjum undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar. NÚ ERU liðnir u.þ.b. 3 mánuðir síðan Guðjón Þórðarson tók til starfa sem landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu eftir að Loga Ólafssyni hafði verið vikið frá störfum.

Margir höfðu trú á því að með Guðjóni myndu blása ferskir vindar um landslið okkar og að hann myndi ná að lyfta því upp á hærra plan. Ég var ekki einn af þeim sem hafði þá trú. Reyndar var ég sannfærður um að hann myndi ekki valda því hlutverki að stjórna landsliði Íslands.

Búist var við því frá upphafi að Guðjón myndi gera breytingar og það hefur hann svo sannarlega gert. Hann hefur kastað hverri sprengjunni á fætur annarri. Fyrir leikinn á móti Norðmönnum tók hann Arnar Grétarsson út úr liðinu en Arnar hafði einmitt verið að spila mjög vel það sem af var Íslandsmóti. Þá tók hann einnig úr liðinu Arnar Gunnlaugsson, sem er löngu búinn að sýna það og sanna að enginn íslenskur leikmaður kemst í skóna hans hvað knattleikni varðar, nema þá helst tvíburabróðir hans, Bjarki, en Guðjón hefur ekki heldur séð ástæðu til þess að hafa Bjarka í liði sínu, þrátt fyrir að hann hafi verið einn besti maður liðsins í síðustu landsleikjunum undir stjórn Loga. Er mönnum enn í fersku minni er þeir bræður komu hingað til lands sumarið 1995 og spiluðu með liði Skagamanna síðustu sjö leiki Íslandsmótsins. Þá gerði Arnar einmitt fimmtán mörk í þessum sjö leikjum og fullyrði ég það hér og nú að það er afrek sem verður seint eða aldrei slegið.

Þar sem þeir bræður höfðu átt við meiðsli að stríða taldi ég mér trú um að Guðjón vildi gefa þeim tíma til að komast í betra form. Síðan þá eru tæpir 4 mánuðir liðnir og eins og komið hefur fram í fjölmiðlum er Arnar í toppformi og nú þegar búinn að opna markareikning sinn í Englandi, þar sem hann spilar með úrvalsdeildarliði Bolton. Einnig hefur Bjarki verið að spila glimrandi vel í síðustu umferðum norsku úrvalsdeildarinnar.

Það sér það hver heilvita maður að íslenska landsliðið hefur ekki efni á því að vera án þessara leikmanna. Því hlýtur sú spurning að vakna hvort Guðjón sé virkilega að skapa þarna pláss fyrir Bjarna son sinn? Mér er til efs að Guðjón geti litið framan í íslenska knattspyrnuunnendur og haldið því fram að Bjarni sé betri knattspyrnumaður en þeir bræður, þótt ágætur sé.

Það myndi einhverjum þykja nóg komið að taka þarna tvo af bestu knattspyrnumönnum landsins úr liðinu, en ekki Guðjóni Þórðarsyni. Hann var rétt að byrja. Næsta skref var að gefa það út að Arnór Guðjónssen væri orðinn of gamall til að leika með landsliðinu, þrátt fyrir að Arnór sé búinn að vera yfirburðamaður í sænsku deildinni og spilað mjög vel í síðustu landsleikjum. Af einstakri manngæsku og hugulsemi Guðjóns og KSÍ var ákveðið að Arnór fengi kveðjuleik sem virðingarvott fyrir það að vera búinn að þjóna landsliðinu vel og dyggilega í hartnær 20 ár. Og hvaða leik fær hann? Jú, viti menn hann fær að enda feril sinn á móti einu allra lélegasta landsliði heims; liði Lichtenstein, sem fróðir menn segja að sé álíka sterkt og meðal þriðju deildar lið hér á landi. Það sem meira er, leikdagurinn er 11. október þegar allra veðra er von á Íslandi og því tæplega fleiri en 2­3 þús. manns á vellinum til að kveðja Arnór. Hefði ekki verið nær að Arnór fengi að enda sinn farsæla feril með landsliðinu með glæsibrag eins og hann á svo fyllilega skilið og hafa kveðjuleikinn á móti "alvöru" liðum eins og Norðmönnum eða Írum?

Það sem endanlega fyllti mælinn hjá mér og fékk mig til að setjast við skriftir var þó sú ákvörðun Guðjóns að Guðni Bergsson yrði ekki í landliðshópnum gegn Lichtenstein í dag. Þarna er Guðjón, að mínu mati, að skjóta langt yfir markið og er allt þetta mál honum og KSÍ til mikillar skammar. Það er ekki verið að tala um einhvern fjórðudeildar spilara, heldur fyrirliða Bolton Wanderers í ensku úrvalsdeildinni, fyrirliða íslenska landsliðsins til margra ára og leikjahæsta leikmanns Íslands frá upphafi.

Á þessari upptalningu er hægt að sjá það að Guðjón er búinn að gera tómar gloríur síðan hann tók við landsliðinu og það á þremur mánuðum, og eins og menn vita hefur árangurinn úr þessum fyrstu leikjum undir hans stjórn ekki verið neitt til þess að hrópa húrra fyrir.

Höfundur er áhugamaður um íslenska knattspyrnu og býr í Garði á Suðurnesjum.