FYRSTU afskipti François Truffaut af kvikmyndagerð enduðu með ósköpum. Átján vetra gekk hann í herinn. Nýliðinn bað um að fá að ganga til liðs við kvikmyndadeild franska hersins. Foringjarnir höfðu aftur á móti lítinn áhuga á sérþörfum ungliðans og Truffaut var sendur til Norður-Þýskalands. Dátinn gegndi herþjónustu í nokkra mánuði stórslysalaust.
HVUNN-

DAGSSKÁLDIÐ FRANÇOIS TRUFFAUT

Leikstjórinn François Truffaut fæddist í París sjötta febrúar árið 1932. Bernskuár hans voru fremur gleðisnauð og snáðinn leitaði huggunar í listum, fyrst í skáldsögum síðan bíómyndum. Ekki þótti Truffaut nýtur skólaþegn og hann var rekinn úr hverjum skóla á fætur öðrum. JÓNAS KNÚTSSON segir frá listamanninum.

FYRSTU afskipti François Truff aut af kvikmyndagerð enduðu með ósköpum. Átján vetra gekk hann í herinn. Nýliðinn bað um að fá að ganga til liðs við kvikmyndadeild franska hersins. Foringjarnir höfðu aftur á móti lítinn áhuga á sérþörfum ungliðans og Truffaut var sendur til Norður-Þýskalands. Dátinn gegndi herþjónustu í nokkra mánuði stórslysalaust. Frakkar háðu stríð í Indókína um þessar mundir. Truffaut var tilkynnt að hans væri þörf á vígvellinum. Svo vel vildi til að Truffaut fékk að fara í leyfi til Parísar áður en hann sigldi. Þegar brottfarardagurinn rann upp átti hann enn eftir að sjá nokkrar bíómyndir í höfuðborginni. Hann fór því hvergi. Truffaut var handtekinn von bráðar og honum varpað í svartholið. Enn átti hann eftir að sjá myndirnar svo að hann strauk úr fangelsinu. Liðhlaupinn var færður aftur til Þýskalands í járnum. Kvikmyndaspekingurinn André Bazin talaði máli hins unga vinar síns og Truffaut var hlíft við þungri refsingu. Var hann sendur á geðsjúkrahús í Andernach. Loks var þessi vandræðamaður rekinn úr hernum fyrir "ístöðuleysi". Truffaut sárnaði vitnisburður þessi mjög þótt ummælin geti vart talist ómakleg.

Cahiers du Cinéma

Truffaut slíðraði sverðið og tók penna í hönd. Vakti hann mikla athygli sem gagnrýnandi hjá hinu fræga kvikmyndablaði Cahiers du Cinéma. Truffaut var ætíð mikið niðri fyrir í skrifum sínum. Áhugi hans á miðlinum var smitandi. Margir sem störfuðu fyrir blaðið (Claude Berri, Jean-Luc Godard, Alain Resnais og Louis Malle) urðu síðar meir atkvæðamestu kvikmyndagerðarmenn Frakka. Var þessi kynslóð leikstjóra nefnd einu nafni nýbylgjan (La Nouvelle Vague) þótt eftir á að hyggja hafi verið fráleitt að stinga svo ólíkum listamönnum undir sama hatt. Héldu Truffaut og aðrir nýbylgjumenn reiðilestur yfir eldri kvikmyndaleikstjórum á síðum Cahiers du Cinéma og sögðu myndir þeirra úreltar. Helstu átrúnaðargoð Truffaut voru Jean Vigo, Orson Welles, Jean Renoir og Alfred Hitchcock.

Truffaut gerist framsóknarmaður

Kvikmyndabrölt Truffaut var ekki ýkja farsælt á þessum árum. Kvikmyndavinurinn var hins vegar ekki af baki dottinn. Réðst hann að herþjónustu lokinni til starfa hjá kvikmyndadeild landbúnaðarráðuneytisins franska. Borgarbarnið Truffaut þekkti vart mun á kú og hrossi og var rekinn eftir nokkra mánuði. Var sú ráðstöfun báðum aðilum til mikilla hagsbóta.

Skrafað við Hitchcock

Truffaut var ekki einvörðungu leikstjóri og handritshöfundur heldur fékkst hann einnig við smásagnagerð. Er hann auk þess höfundur einnar bestu viðtalsbókar sem samin hefur verið um kvikmyndagerð. Truffaut gjörþekkti verk Hitchcocks. Reynsla spyrilsins og þekking kemur fram í hverri spurningu þótt Truffaut reyni aldrei að skyggja á meistarann. Hitchcock var mikill persónuleiki og leikarinn tók oft yfirhöndina af leikstjóranum í viðtölum. Bók Truffaut er því merkari heimild fyrir þá sök að höfundur einblínir á leikstjórann Hitchcock en ekki skemmtikraftinn.

Myndin Fjögurhundruð högg (Les Quatre Cents Coup) frá árinu 1959 lýsir bernskuárum Truffaut. Leikstjórinn fylgdi söguhetjunni Antoine Doinel fram á fullorðinsár í myndum sínum. Antoine er eins konar spegilmynd af Truffaut sjálfum. Túlkun Jean Pierre Léaud á Doinel var afar eftirminnileg. Aðrir nýbylgjumenn gerðu sjálfsævisögulegar myndir. Ber þar hæst frumraun hins ágæta leikstjóra og framleiðanda Claude Berri Gamli maðurinn og strákurinn (Le Viel Homme et l'Enfant). Sú er ein besta mynd sem Frakkar hafa gert.

Næsta mynd Truffaut Skjótið píanistann (Tirez sur le Pianiste) var eins konar franskt tilbrigði við bandarískar sakamálamyndir. Aðalhlutverk lék armenski söngvarinn og leikarinn Charles Aznavour. Ástarþríhyrningur

Myndin Jules et Jim segir frá mjög svo frönskum ástarþríhyrningi. Leikkonan Jeanne Moreau varð heimsfræg fyrir leik sinn í þessari mynd. Þýski leikarinn Oskar Werner vann mikinn leiksigur en fékk síðar meir ekki hlutverk við hæfi. Myndataka Raoul Coutard var frammúrskarandi, eðlileg en rómantísk. Áferð myndarinnar minnti um margt á ljósmyndir Henri Cartier-Bresson.

Fyrstu myndir Truffaut bera með sér að leikstjórinn kunni að laga handbragð sitt að inntaki hverrar myndar. Í lok sjötta áratugarins komu til sögunnar léttari myndavélar og ljósnæmari filma. Hljóðupptaka á tökustað víðs fjarri kvikmyndaverinu varð auðveldari. Kenningar Stanislavskis um leiklist voru á allra vörum og leikarar tömdu sér raunsæisleik í auknum mæli. Leikstjórar og handritshöfundar sneru sér að sálfræðilegum bollaleggingum og sá gamli refur Freud var í hávegum hafður. Sögur Truffaut af örlögum venjulegs fólks hæfðu tækninýjungum þessum og áherslubreytingum einkar vel. Kvikmyndatökumönnum á borð við Raoul Coutard og Nestor Almendros tókst að nýta dagsljósið til að taka myndir sem voru glæsilegar á að líta og raunverulegar í senn.

Bókabrennur

Fahrenheit 451 er vísindaskáldsaga eftir Ameríkumanninn Ray Bradbury. Myndina gerði Truffaut á Bretlandi. Kann það að vekja furðu að Truffaut skyldi aldrei hætta sér vestur yfir Atlantshaf. Myndir hans eru rammfranskar án þess að höfundur þeirra sé að rembast við að vera þjóðlegur. Maðurinn sem skrifaði um bandaríska kvikmyndagerð af svo miklum ákafa og innsæi gerði aldrei kvikmynd vestanhafs þótt honum stæði það til boða. Leikstjórinn bar við lélegri enskukunnáttu. Var það að sjálfsögðu yfirvarp. Líklega hefur hann gert sér grein fyrir því að myndir hans væru of ólíkar hefðbundnum Hollywood-myndum að efni og búningi til að slíkt verkefni gæti gefið góða raun. Má geta þess til gamans að Truffaut var boðið að leikstýra myndinni Bonnie og Clyde.

Áratuga hefð var fyrir því að evrópskir leikstjórar hleyptu heimdraganum og sigldu vestur um haf. Nýbylgjumaðurinn Louis Malle náði til að mynda góðum árangri í Bandaríkjunum. Skapgerð Truffaut var á skjön við öll höfuðeinkenni amerískra mynda. Hann var rólyndur og leiddist hávaði og læti. Myndir hans voru blessunarlega lausar við þá taugaveiklun sem setur svip á bandarískar myndir. Sögur hans voru hægar. Frásagnarstíll hans var persónulegur og einlægur. Því báru verk Truffaut stundum athyglisgáfu áhorfandans ofurliði þegar hann fékkst við hefðbundin yrkisefni og fór út fyrir eigin reynsluheim. Þá var sem ekkert púður væri í myndum hans.

Drengurinn sem var villidýr

Myndin Villti drengurinn (L'Enfant Sauvage) er sannsöguleg og fjallar um dreng sem vex úr grasi fjarri mannabyggðum. Leikstjórinn lýsir árekstri hins villta drengs við siðmenninguna af alúð og skilningi, enda átti Truffaut erfitt uppdráttar á bernskuárum sínum. Truffaut stóð sig með mikilli prýði í öðru aðalhlutverki myndarinnar. Lék hann sjálfur lækninn sem temur villidýrið í drengnum og hjálpar honum að semja sig að siðum mannfélagsins.

Truffaut lék oft hlutverk í eigin myndum og fórst það vel. Margir muna eflaust eftir honum í mynd Stevens Spielbergs Návígi (Close Encounters of the Third Kind). Truffaut hélt sig ætíð innan túlkunarsviðs síns svo að þessi hlutverkaskipan dró aldrei dám af framhleypni eða sjálfsdýrkun.

Höfundur bókarinnar Jules og Jim, Henri- Pierre Roche, hóf rithöfundarferil sinn sjötíu og fjögurra ára að aldri. Truffaut réðst í að kvikmynda aðra skáldsögu hans Ensku stúlkurnar og meginlandið (Les Deux Anglaises et le Continent). Myndin var tilfinningaþrungin ástarsaga þótt verkið sé aldrei yfirdrifið í höndum meistarans. Truffaut sótti ósjaldan yrkisefni sitt til aldarinnar sem leið. Mikið ber á fortíðardýrkun í myndum Truffaut hvort sem hann fjallar um eigin fortíð eða sögu lands og þjóðar. Ef til vill hefur sakleysi og bjartsýni nítjándu aldar heillað hann. Myndir hans voru ljúfar án þess að vera væmnar eða viðkvæmnislegar. Nítjánda öldin var því kjörið sögusvið fyrir Truffaut.

Myndin Nótt að degi (La Nuit Americaine) lýsir raunum kvikmyndaleikstjóra. Sú mynd vann til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin árið 1973. Nafn myndarinnar vísar til þess er atriði sem á að gerast að nóttu er tekið um hábjartan dag. Er myndin að hluta til sjálfsævisöguleg líkt og Átta og hálfur (Otto e mezzo) eftir Federico Fellini. Þó er sá meginmunur á þessum tveimur myndum að leikstjórinn sjálfur er ekki þungamiðja sögunnar í verki Truffaut, heldur allir þeir sem starfa við gerð myndarinnar. Hann einblínir á hina eiginlegu kvikmyndagerð en Fellini á sálarlíf og æskuminningar leikstjórans.

Leikstjórum á borð við Fellini, Bergman, Truffaut, Louis Malle, Woody Allen, Helma Sanders-Brahms og John Boorman var í lófa lagið að greina frá eigin lífshlaupi í myndum sínum. Sjálfsævisöguformið varð aftur á móti brátt hálfgerð plága. Paul Mazursky, Régis Wargnier, Terence Davies, Spike Lee og fjöldi minni spámanna gerðu margir hverjir fleiri en eina mynd sem átti ekkert erindi fyrir utan þeirra vinahóp. Einhver frægur kvikmyndaleikstjóri sagði eitt sinn að leikstjórar ættu að gera eina sjálfsævisögulega mynd og ljúka því af sem fyrst. Því miður tóku margir hann á orðinu.

Dóttir rithöfundarins

Myndin Sagan af Ad`ele H. (L'Histoire d'Ad`ele H.) er sannsöguleg. Greinir þar frá dóttur eins ástsælasta rithöfundar Frakka, Victor Hugo. Sú fékk ofurást á breskum liðsforingja og steypti sér í glötun fyrir sakir lautinantsins. Aðalleikonan Isabelle Adjani varð heimsfræg fyrir túlkun sína á Ad`ele. Adjani er nú ein skærasta kvikmyndastjarna Frakklands.

Truffaut kunni að velja sterka leikara í hlutverk og magna fram það besta í þeim. Einvalalið leikara prýðir myndir hans, Gérard Depardieu, Isabelle Adjani, Jeanne Moreau, Oskar Werner, Jean-Pierre Léaud, Charles Aznavour, Julie Christie og Jean-Louis Tritignant. Leikur í myndum hans var ætíð fágaður og áreynslulaus, að því er virðist við fyrstu sýn.

Truffaut segir frá tilhugalífi ástríðufulls Frakka í Manninum sem elskaði konur (L'Homme qui Aimait les Femmes). Bandaríski leikstjórinn Blake Edwards endurgerði myndina fyrir Ameríkumarkað árið 1983. Lék Burt Reynolds aðalhlutverk. Truffaut varð ekki tíðrætt um þessa endugerð.

Ástin á flótta (L'amour en fuit) er lokakafli myndanna um Antoine Doinel. Antoine verður ástfanginn af konu er hann sér ljósmynd af henni. Segja má að þessi skemmtilega rómantíska gamanmynd sé síðasta nýbylgjumynd Truffaut.

Sjálfævisögulegar myndir Truffaut (Fjögur hundruð högg, Antoine og Colette, Stolnir kossar, Hjónasæng og Ástin á flótta) mynda eina heild. Þessi sagnabálkur gerði François Truffaut að einum vinsælasta leikstjóra Frakka á ofanverðri öldinni. Myndirnar hafa sömu lipurð og þokka og hversdagsljóð Hórasar og annarra öndvegisskálda. Truffaut naut sín best þegar hann gat stuðst við eigin reynslu. Hann var einn af fáum leikstjórum sem getur orðið vinur áhorfandans.

Síðasta hraðlestin

Síðasta hraðlestin (Le Dernier Metro) gerist í leikhúsi á stríðsárunum. Aðalhlutverk léku Catherine Deneuve og Gérard Depardieu. Myndin hlaut góða aðsókn enda segir þar frá frönsku andspyrnuhreyfingunni.

Tvær síðustu myndir Truffaut, Nágrannakonan (La Femme d'Â C^oté) og Komi sunnudagur (Vivement Dimanche) eru spennumyndir. Lék Fanny Ardant aðalhlutverk í báðum myndum, annars vegar á móti Gérard Depardieu, hins vegar Jean-Louis Tritignant.

Eftir því sem á leið líktust myndir Truffaut æ meira kvikmyndum eldri kynslóðarinnar sem hann veittist að á síðum Cahiers du Cinéma. Efniviðurinn varð hefðbundnari. Tók að bera á því að Truffaut skorti kraft og tækni eldri leikstjóra sem voru þaulvanir að segja slíkar sögur. Spennusögur voru ekki hans sterka hlið (Brúður í blökkum klæðum, Hafgúan frá Mississippi, Græna herbergið). Truffaut var ólíkur Alfred Hitchcock að því leyti að hann hafði lítið vald á þeim stílbrögðum sem spennumyndir krefjast. Auk þess féll skapgerð hans illa að slíkum myndum.

Truffaut lést langt fyrir aldur fram. Banamein hans var krabbamein í heila. Myndum hans hefur ekki verið haldið á loft sem skyldi þótt þær hafi staðist tímans tönn. Ógæfa Truffaut var sú að hann var í nokkurri lægð er hann lést. Ekki fer á milli mála að leikstjórinn átti mörg meistaverk ógerð er hann hvarf á fund feðra sinna. Þótt myndir Truffaut séu misjafnar að gæðum er hver mynda hans gerð af alúð. Bera þær allar þess merki að leikstjórinn kastaði aldrei höndum til verks síns.

Myndir Truffaut voru lausar við pomp og prakt. Stundum var það galli en oftast kostur. Jean-Luc Godard leit á sig sem andófsmann og hugmyndafræðilegan æðstaprest. Louis Malle hafði gaman af því að bjóða borgaralegu siðgæði byrginn. Alain Resnais reyndi að gjörbreyta frásagnarforminu sjálfu. Sem sögumanni lá Truffaut lágt rómur en hann sagði frá á þann hátt að aðrir hlustuðu.

Helsti kostur við myndir Truffaut er sá að þær snúast einatt um persónur verkins; höfundur þorir að láta myndir sínar standa og falla með sögupersónum og treystir leikaranum fyllilega til að koma þeim til skila án of mikillar íhlutunar leikstjórans. Truffaut var gæddur þeirri náðargáfu að geta verið rómantískur en þó blátt áfram. Slíkt þarfnast listrænnar ögunar og mikillar smekkvísi. Hvunndagsskáldið François Truffaut hafði hvort tveggja til að bera. Hann var leikstjóri sem fór eigin leiðir og lét sig varða allt sem mannlegt er.



Kvikmyndir eftir François Truffaut:

1954 Heimsókn (Une Visite) Stuttmynd.

1957 Hrekkjalómarnir (Les Mistons) Stuttmynd.

1958 Saga af vatni (Histoire d'Eau) Stuttmynd.

1959 Fjögur hundruð högg (Les Quatre Cents Coups).

1960 Skjótið píanistann (Tirez sur le Pianiste)

1962 Jules og Jim (Jules et Jim).

1962 Antoine og Colette (Antoine et Colette). Þessi stuttmynd var framlag Trufautt til myndarinnar Ást um tvítugt.

1964 Mjúk húð (La Peau Douce).

1966 Fahrenheit 451

1967 Brúður í blökkum klæðum (La Mariée Etait en noir).

1968 Stolnir kossar (Baisers Volés)

1967 Hafgúan frá Mississippi (La Sir`ene du Mississippi)

1970 Villti drengurinn (L'Enfant Sauvage).

1970 Hjónasæng (Domicile Conjugal).

1971 Ensku stúlkurnar (Les Deux Anglaises et le Continent).

1972 Eins og ég er sæt (Une Belle Fille Comme Moi).

1973 Nótt að degi (La Nuit Américaine).

1975 Sagan af Ad`ele H. (L'Histoire d'Ad`ele H.)

1976 Vasapeningar (L'Argent de Poche)

1977 Maðurinn sem elskaði konur (L'Homme qui Aimait les Femmes)

1978 Græna herbergið (La Chambre Verte).

1979 Ástin á flótta (L'Amour en Fuite).

1980 Síðasta hraðlestin (Le Dernier Metro).

1981 Nágrannakonan (La Femme d'Â C^oté).

1983 Komi sunnudagur (Vivement Dimanche).



TRUFFAUT var gæddur þeirri náðargáfu að geta verið rómantískur en þó blátt áfram. Slíkt þarfnast listrænnar ögunar og mikillar smekkvísi. Trruffaut er hér við tökur á myndinni Shout the Piano Player.

TRUFFAUT í hlutverki Dr. Itard kennir Villta drengnum í samnefndri mynd að ganga.