Íslensk fegurð
í fyrirrúmi
GLÆSIKVÖLD fyrir konur
var haldið um síðustu helgi og stóðu No Name, Kaffi Akureyri og Betri líðan fyrir uppákomunni. "Færri komust að en vildu," segir Kristín Stefánsdóttir, snyrti- og förðunarmeistari, sem er með umboð fyrir No Name snyrtivörur á Íslandi.
Matreiðslumeistari var fenginn frá Hótel Holti, Hákon Már Örvarsson, og sá hann gestum fyrir þríréttaðri máltíð. Bróðir hans Grétar Örvarsson sá hins vegar um tónlistina ásamt Sigríði Beinteinsdóttur. Einnig tróð Rósa Kristín Baldursdóttir, sópransöngkona, upp með Helgu Bryndísi Magnúsdóttur, undirleikara.
Kristín Stefánsdóttir sýndi nýjustu liti sem No Name hefur upp á að bjóða í förðun og gaf góð ráð. Einnig voru Alexandro gervineglur kynntar, sem fyrirsæturnar skörtuðu, og Eurowave-grenningartæki. Hársnyrtistofan Undir kirkjutröppunum sá um hárgreiðsluna. "Fyrirsæturnar voru allt konur á besta aldri sem voru að spreyta sig í fyrsta skipti í fyrirsætustarfinu," segir Kristín.
Brúðarkjólaleiga Akureyrar sýndi samkvæmiskjóla og verslunin Ynja undirfatnað. "Þetta heppnaðist mjög vel og verður árlegur viðburður," segir Kristín að lokum. "Þetta var orðið þannig klukkan hálf eitt að karlmennirnir voru komnir með nefið á rúðuna, enda íslensk fegurð í fyrirrúmi."
KRISTÍN Stefánsdóttir, Sigríður Beinteinsdóttir og Helga Sæunn Árnadóttir.
ÁSTA Hrönn Björgvinsdóttir sýnir á sér neglurnar.
VINKONURNAR Karen Reynisdóttir, Silja Steinarsdóttir og Linda Ívarsdóttir virtust skemmta sér vel.
Morgunblaðið/Þórhallur Jónsson HAFRÚN María Zoldos vakir yfir Önnu Birnu Sæmundsdóttur, sem liggur á grenningarbekknum.
MEISTARAKOKKURINN Hákon Már Örvarsson var einbeittur á svip í eldhúsinu.