INGVI Hrafn Jónsson, fyrrum fréttastjóri Sjónvarps og Stöðvar 2, hefur verið ráðinn fréttastjóri nýrrar útvarpsstöðvar sem Íslenzka fjölmiðlafjelagið ráðgerir að hefji útsendingar í lok október. Jón Axel Ólafsson, stofnandi Íslenzka útvarpsfélagsins, vildi í samtali við Morgunblaðið ekki upplýsa væntanlega senditíðni útvarpsstöðvarinnar né hvaða heiti henni verður gefið.
Ingvi Hrafn
fréttastjóri nýrrar útvarpsstöðvarINGVI Hrafn Jónsson, fyrrum fréttastjóri Sjónvarps og Stöðvar 2, hefur verið ráðinn fréttastjóri nýrrar útvarpsstöðvar sem Íslenzka fjölmiðlafjelagið ráðgerir að hefji útsendingar í lok október.
Jón Axel Ólafsson, stofnandi Íslenzka útvarpsfélagsins, vildi í samtali við Morgunblaðið ekki upplýsa væntanlega senditíðni útvarpsstöðvarinnar né hvaða heiti henni verður gefið.
Í fréttatilkynningu segir að 230 umsóknir hafi borist þegar félagið auglýsti í Morgunblaðinu um síðustu helgi eftir sölu- og markaðsfólki, frétta- og dagskrárgerðarmönnum. Jón Axel segir að væntanlega verði alls um 15 starfsmenn hjá stöðinni í upphafi.
Í fréttatilkynningu segir að útvarpsstöð Íslenzka fjölmiðlafjelagsins muni senda út allan sólarhringinn og verði fréttir og tónlist aðaluppistaða dagskrárinnar. Verið sé að leggja lokahönd á uppsetningu alls búnaðar til útsendinga en fréttastofa og útsending verða til húsa á Hverfisgötu 46 í Reykjavík.
Víðtæk starfsemi
Jón Axel keypti nýlega eignir útgáfufélags Helgarpóstsins, sem voru skrifborð, tölvur og slíkt. Hann segir markmiðið með rekstri Íslenzka fjölmiðlafjelagsins verða að reka víðtæka fjölmiðlastarfsemi á hvaða sviði sem er. Jón Axel rekur alnesþjónustu og segir að verið sé að kanna möguleika á útgáfu vikublaðs eða dagblaðs.
Í fréttatilkynningunni kemur m.a. fram að Ágúst Héðinsson, fyrrum tónlistarstjóri Bylgjunnar, verði dagskrárstjóri og Rúnar Sigurbjartsson, fyrrum starfsmaður Bylgjunnar, Stöðvar 2 og FM verði útvarpsstjóri, en hann er einnig meðal eigenda Íslenzka fjölmiðlafjelagsins. Meðal dagskrárgerðarmanna verður Valdís Gunnarsdóttir, fyrrum starfsmaður nokkurra útvarpsstöðva.