HAFI einhver velkzt í vafa um að Efnahags- og myntbandalag Evrópu, EMU, yrði hleypt af stokkunum með breiðum hópi aðildarríkja um borð ætti sá hinn sami að hafa lært af atburðum vikunnar í Róm og Frankfurt að litlar forsendur væru fyrir slíkum vafa.
EMU-sérfræðingar Ítalía verður stofnaðili

London. Reuters.

HAFI einhver velkzt í vafa um að Efnahags- og myntbandalag Evrópu, EMU, yrði hleypt af stokkunum með breiðum hópi aðildarríkja um borð ætti sá hinn sami að hafa lært af atburðum vikunnar í Róm og Frankfurt að litlar forsendur væru fyrir slíkum vafa. Þetta er mat hagfræðinga og stjórnmálaskýrenda sem Reuters -fréttastofan fékk til að lýsa áliti sínu á því hvaða áhrif fall ítölsku stjórnarinnar og vaxtahækkun þýzka seðlabankans hefði á EMU-áformin. Vorið 1998 verður ákveðið hvaða ríki verða meðal stofnaðila að myntbandalaginu þegar það gengur í gildi 1. janúar1999.

Hin afslöppuðu viðbrögð fjármálamarkaða við afsögn ríkisstjórnar Romanos Prodis sýna að kauphallarhéðnar eru enn sannfærðir um að Ítalía verði meðal stofnaðildarlanda myntbandalagsins. Og samhæfð hækkun skammtímavaxta sem þýzki seðlabankinn Bundesbank var í forystu fyrir er vísbending um að sameiginleg stefna ESB-landa í peningamálum sé nú þegar komin í framkvæmd.

"Það er tiltölulega augljóst að víðtækt myntbandalag með 10 eða 11 aðildarríkjum er líklegasta útkoman, og þýzki seðlabankinn er að haga stefnunni í peningamálum í samræmi við það," sagði Werner Becker, hagfræðingur hjá Deutsche Bank í Frankfurt.

"Viðbrögðin við ítölsku stjórnmálakreppunni eru tvenns konar. Í fyrsta lagi sýnir sig að almennt ríkir vissa um að evróið komi og í öðru lagi trúir fólk enn á Ítalíu," sagði Dominique Moisi, sérfræðingur við frönsku Alþjóðamálastofnunina.

Yves Thibault de Silguy, sem fer með peningamál í framkvæmdastjórn ESB, sagði í gær að ekki væri unnt að ganga út frá EMU- aðild Ítalíu sem vísri. Stjórnvöld í Róm yrðu að leggja sig meira fram til að búa efnahag Ítalíu undir þátttöku í EMU. En sérfræðingar sögðu að stöðugleiki lírunnar og hinn litli munur sem nú sé á skammtímavöxtum í Þýzkalandi og á Ítalíu sýni að peningamarkaðirnir veðji á að Ítalía verði með í EMU frá upphafi.