Boðar umburðar-
lynda íhaldsstefnu
Blackpool. Reuters. Daily Telegraph.
WILLIAM Hague freistaði þess að
færa Íhaldsflokkinn breska út úr skugga fortíðarinnar er hann sleit velheppnuðu flokksþingi í Blackpool í gær. Lýsti hann þar framtíðarsýn sinni varðandi flokkinn og boðaði "milda íhaldsstefnu með umhyggjusemi að kjarna".
Hague boðaði nýja ímynd flokks sem yrði að vera í senn umburðarlyndur og opinn en samt sem áður byggjast á rótgrónum grundvallarreglum. Sagði hann stefnu sína ólíka stefnu Verkamannaflokksins sem hann hélt fram að hefði engin markmið né undirstöðureglur; hefði glatað siðferðisáttavita sínum og léti nú stjórnast af "nýrri og óaðlaðandi tortryggni". Gagnrýndi hann Verkamannaflokkinn fyrir "ráðríki" og forræðishyggju og sagði að þess væri að vænta að stjórn Tonys Blairs kæmi aftan að þjóðinni með "lævíslegum" skattahækkunum.
Hague sagði að framtíð Íhaldsflokksins myndi grundvallast á frelsi, framtakssemi, menntun, sjálfstrausti, skyldum gagnvart náunganum, samúð og þjóðinni. Flokkurinn yrði að komast á ný í snertingu við almenning, "uppgötva aftur hið fordómalausa og umhyggjusama" hjarta sitt og ganga í endurnýjun lífdaga. Hann yrði að höfða til sem flestra, vera öllum opinn, lýðræðislegur, hlusta á öll sjónarmið og draga lærdóma af þeim. Sagði hann Íhaldsflokkinn verða að vera skjól minnihlutahópa, einstæðra foreldra og homma, svo nokkuð væri nefnt en fyrr í vikunni hélt hann því fram að hroki, spilling, sjálfumgleði og tillitsleysi hefði leitt til ósigurs flokksins í kosningunum í maí.
Um leið og hann útskýrði hina nýju flokkslínu notaði hann tækifærið til að afneita Tebbit lávarði, fyrrverandi flokksformanni, sem mælt hafði gegn opnun gagnvart ólíkum menningarheimum í ræðu á þinginu. Nefndi hann lávarðinn reyndar ekki á nafn en gagnrýndi boðskap hans og bar lofsyrði á ólíka þjóðmenningu sem hann sagði að mætti blómstra í Bretlandi.
Jafnframt fólst leynd gagnrýni á John Major og Margaret Thatcher í framtíðarræðunni en þau voru fjármála- og forsætisráðherra er Bretar gerðust aðilar að gengissamstarfi Evrópu (ERM). "Þegar litið er yfir farinn veg voru það mikil mistök að ganga í ERM í 1990. Við hefðum átt að hafa hugrekki til að standa utan við samstarfið. Vera okkar þar og síðan brotthvarfið tveimur árum seinna skaðaði flokkinn okkar og trúverðuleika hans stórlega og við vorum látnir gjalda þess. Látum það ekki henda aftur að fara inn í eitthvert samstarf án þess að vera undir það búnir," sagði Hague.
Hague var talinn hafa storkað íhaldssömum þingfulltrúum er hann ákvað að deila hótelherbergi með unnustu sinni í Blackpool. Sömuleiðis eiga ekki allir flokksmenn jafn auðvelt með að kokgleypa afstöðu hans til samkynhneigðra. Í anda nýs umburðarlyndis sagðist hann út af fyrir sig geta umborið framhjáhald fulltrúa í skuggaráðuneytinu en sagði sjálfgert að refsa þeim fyrir fjármálaspillingu.
Verið getur að umbætur Hagues á Íhaldsflokknum eigi eftir að mæta fyrirstöðu, ekki síst hjá afturhaldssamari öflum í þingflokknum. Meðal mála sem orðið geta ásteytingarsteinn er aðild að sameiginlegum gjaldmiðli Evrópu sem hann hefur útilokað aðild að næstu 10 árin, Evrópusinnum í flokknum til armæðu.
Reuters WILLIAM Hague, leiðtogi breska Íhaldsflokksins, baðst við lok flokksþings flokksins í gær afsökunar á mistökum flokksins í Evrópumálum. Við hlið Hagues er unnusta hans, Fion Jenkins.