LIEN Chan, varaforseti Tævans hélt óformlegan blaðamannafund hér á landi í gærmorgun. Á fundinum upplýsti Lien Chan hann hefði boðið Davíð Oddssyni forsætisráðherra að koma til Tævans þegar hann átti með honum kvöldverðarfund á Þingvöllum á miðvikudag. Hann neitaði því að tilgangur komu sinnar hingað væri pólitískur og sagði að með sér í för væru aðeins góðir vinir.
Varaforseti Tævans bauð Davíð Oddssyni forsætisráðherra í heimsókn til Taipei

Ekki pólitískur til-

gangur með komunni LIEN Chan, varaforseti Tævans hélt óformlegan blaðamannafund hér á landi í gærmorgun. Á fundinum upplýsti Lien Chan hann hefði boðið Davíð Oddssyni forsætisráðherra að koma til Tævans þegar hann átti með honum kvöldverðarfund á Þingvöllum á miðvikudag. Hann neitaði því að tilgangur komu sinnar hingað væri pólitískur og sagði að með sér í för væru aðeins góðir vinir. Hermt hefur verið að Lien hafi verið neitað um að koma til Spánar en hann gaf í gær til kynna að það væri rangt.

"Með mér eru engir embættismenn stjórnarinnar og ég veit ekki hvers vegna ætti að telja för mína pólitíska. Með mér hér eru góðir vinir," sagði Lien um þau ummæli Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra í samtali við dagblaðið Dag á fimmtudag að vegna þess hversu fjölmennt fylgdarlið varaforsetans væri þætti honum ekki ólíklegt að tilgangur komu hans hingað væri pólitískur.

Lien sagði að víðast hvar í heiminum hefði fólk komið fram með sama hætti og gert hefði verið í heimsókn hans hingað, en viðtökur hér hefðu verið til fyrirmyndar. Þegar spurt var um mótmæli Kínverja vegna heimsóknar hans svaraði hann: "Spyrjið þá, ekki mig."

Engin frekari merki um viðskiptaþvinganir?

Kínversk yfirvöld hafa sagt að ekki yrði látið sitja við orðin tóm í þessu máli, en fyrir utan fund, sem fulltrúi fyrirtækisins Silfurtúns átti að eiga með fulltrúa utanríkisviðskiptaráðuneytisins í Peking í vikunni um uppsetningu eggjabakkaverksmiðju annars vegar og jarðhitaverkefni í Tíbet hins vegar, er ekki ljóst hvað verður. Nokkur íslensk fyrirtæki hyggjast taka þátt í stórri sjávarútvegssýningu, sem haldin verður í Peking í nóvember, og hefur verið leitt að því getum að reynt verði að koma í veg fyrir það. Vilhjálmur Guðmundsson, forstöðumaður iðnaðar og þjónustu hjá Útflutningsráði, sagði í gær að hann vissi meira að segja til þess að gögn, sem fyrirtæki þyrftu til að fá vegabréfsáritun til Kína, hefðu verið að berast frá kínverskum stjórnvöldum í þessari viku.

Mikið hefur verið rætt hvaða áhrif þessi heimsókn muni hafa á samskipti Íslands og Kína, en ljóst er að samskipti Tævans og Kína skipta hér einnig máli.

Viðskipti milli Tævans og Kína eru mikil. Hsu Li-teh, aðstoðarmaður Lees forseta, sem var með Lien í för hingað, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að væru óbein viðskipti gegnum Hong Kong tekin með í reikningin ættu Tævanar sennilega mest viðskipti við Kínverja. Að sama skapi fjárfestu Tævanar hvergi meira en í Kína.

Háþróað lýðræði

Lien sagði að sér þætti mikið til þess koma hvað lýðræði væri háþróað á Íslandi og að fólk virtist umgangast hvað annað af gagnkvæmri virðingu. Hér hefði verið tekið á móti honum af mikilli kurteisi. Hann sagði einnig að hér væri ekki of mikil mannþröng, í Asíu væri allt of margt fólk.

"Hvað náttúru Íslands og auðlindir snertir stenst Tævan ekki samanburð þótt við legðum hart að okkur," sagði Lien. "Hingað ættu að koma fleiri ferðamenn frá Tævan."

Hann sagði að á fundi sínum með Davíð Oddssyni hefði borið á góma þann möguleika að Tævanar opnuðu viðskiptaskrifstofu á Íslandi og bætti við að það væri góð hugmynd.

Ekki neitað um neitt

Lien hélt af landi brott skömmu eftir hádegi í gær og vildi hann ekki segja hvert förinni væri heitið. Hermt er að hann hafi í gær farið til Austurríkis, fyrst til Vínar og því næst til Innsbruck, en á morgun fari hann til Spánar. Orðrómur var á kreiki um að hann mundi hitta einhvern úr spænsku konungsfjölskyldunni. Þegar Morgunblaðið spurðist fyrir hjá spænska utanríkisráðuneytinu í fyrradag fékkst hins vegar ekki einu sinni staðfest að Lien kæmi til Spánar og samkvæmt áreiðanlegum heimildum Morgunblaðsins var spænski sendiherrann í Peking kallaður á fund aðstoðarutanríkisráðherra Kína og gáfu spænsk stjórnvöld Tævönum eftir það til kynna að varaforsetanum yrði neitað um vegabréfsáritun.

"Enginn hefur neitað mér um neitt," sagði varaforsetinn þegar þetta var borið undir hann í gær.

Tævanar héldu í gær upp á þjóðhátíðardag sinn. Skömmu fyrir brottför Liens í gær skálaði hann við tævanska blaðamenn og nokkra fylgdarmenn í tilefni af deginum. Á sama tíma kom óbreytt stefna stjórnvalda í Peking berlega í ljós í Hong Kong, sem fyrr á þessu ári fór undir kínverska stjórn. Þjóðernissinnar í Hong Kong höfðu hengt upp fána Tævans, sem Kínverjar viðurkenna ekki á þeirri forsendu að það sé tákn klofinnar þjóðar. Skömmu síðar fór lögreglan í Hong Kong fram á að fánarnir yrðu teknir niður.

Heimsókn Liens hefur vakið nokkra athygli erlendis og þá einkum í fjölmiðlum í Asíu. Mikið hefur verið um málið fjallað í Tævan og dagblaðið Hong Kong Standard sagði í leiðara að nú myndu samskipti Tævans og Kína versna að óþörfu. Breska dagblaðið The Times birti í gær frétt um málið þar sem Íslandi er líkt við "Músina sem öskraði" vegna þess að íslensk stjórnvöld hafi ákveðið að bjóða kínverjunum byrginn. Er til þess tekið að á Íslandi búi 270 þúsund manns en í Kína 1,2 milljarðar.

LIEN Fang Yui, varaforsetafrú og fyrrverandi fegurðardrottning Tævans, og Lien Chan, varaforseti Tævans, ræða við blaðamenn á óformlegum blaðamannafundi sem varaforsetinn hélt fyrir tævanska blaðamenn á Hótel Sögu í gær.