AÐ KANNAST VIÐ SJÁLFAN SIG
Draumsólir vekja mig er leikverk byggt á skáldskap
Gyrðis Elíassonar sem verður frumsýnt af Íslenska leikhúsinu í Hafnarfjarðarleikhúsinu í dag. ÞRÖSTUR HELGASON ræddi við Þórarin Eyfjörð, handritshöfund og leikstjóra sýningarinnar, sem segir skáldskap Gyrðis ekki lýsa neinum hvunndagsrealisma.
ÞAÐ er undarlegur heimur sem Þór arinn Eyfjörð leiðir okkur inn í með leiksýningunni Draumsólir vekja mig. Þetta er skáldskaparheimur Gyrðis Elíassonar. Kannski væri réttara að tala um marga heima eins og Þórarinn bendir á en hann er handritshöfundur og leikstjóri sýningarinnar: "Skáldskaparheimur Gyrðis er ekki bundinn neinum hvunndagsrealisma. Gyrðir flakkar um þennan heim og annan, úr mannheimi í dýraheim og handanheim. Úr þessu verður eins konar deigla eða pottur sem mér þykir mjög gjöfull, vekur margar hugmyndir og margar spurningar sem gaman er að fást við."
Draumsólir vekja mig vinnur Þórarinn aðallega upp úr þremur bókum Gyrðis; Svefnhjólinu, Gangandi íkorna og Bréfbátarigningunni. Auk þess hefur Þórarinn sótt efnivið í ljóð skáldsins sem og aðrar sögur og á þann hátt gert leikgerð sem spannar fjölbreyttan hugmyndaheim ritverkanna.
Minningin
Þórarinn segist vinna út frá nokkrum grunnþemum í skáldskap Gyrðis. "Það sem heillaði mig eru hugmyndir um minninguna, um það hver maður er, einnig ástand og uppákomur í skáldskap hans sem tengjast mjög kærleikanum, ástinni, óttanum og hvað það er að kannast við sjálfan sig. Og þarna er sögð saga af því hvernig maður skilur og þroskast í gegnum ástina, ástin kemur manni til sjálfs sín."
Þórarinn segir að hugtakið leikrit eigi ekki alveg við um þetta leikverk. "Frekar vil ég nota hugtakið leiksýning. Vissulega liggur ákveðið handrit til grundvallar en ég gætti þess að hver og einn þeirra listamanna sem taka þátt í sköpun þessarar sýningar bæði tónskáld, leikmyndahöfundur, búningahöfundur, leikarar og fleiri hafi rými til að koma sínum hugsunum og hlutum á framfæri. Ég lagði í raun einungis upp með ákveðin þemu sem við unnum áfram út frá því hvernig við upplifðum skáldskap Gyrðis."
Hljómfall sveitamennskunar
Tónlist skipar stóran þátt í verkinu og hefur Hjálmar H. Ragnarsson tónskáld samið hana. Finnski harmonikkuleikarinn Tatu Kantomaa flytur tónlistina. Hlutverk hljóðfæraleikarans er ekki síst að leiða áhorfendur í gegnum söguþráðinn með því að tengja saman hina ólíku heima sem mætast í leikverkinu. Við nána skoðun á verkum Gyrðis þótti Hjálmari harmonikkan það hljóðfæri sem best átti við, með hina mörgu og ólíku möguleika sem hún býður upp á.
Lesendur Gyrðis tengja skáldskap hans kannski ekki almennt við tónlist, þótt hún sé afar ljóðræn. Þórarinn segist hins vegar heyra gríðarlega mikla tónlist í skáldskap Gyrðis. "Hann er snillingur að leika á íslenska tungu og maður getur dvalið lengi við einstakar setningar og blaðsíðuhluta. Og svo vinnur hann mjög ákveðið með tónlist í þeirri bók sem við leggjum kannski helst til grundvallar hér, það er Svefnhjólinu. Þar er hann til dæmis stöðugt að hlusta á djass og harmonikkan og þetta hljómfall sveitamennskunnar, hinna dreifðu byggða, kemur mjög sterkt fram."
Leikarar í sýningunni eru Ása Hlín Svavarsdóttir, Harpa Arnardóttir, Þorsteinn Bachmann, Valgeir Skagfjörð, Hinrik Ólafsson, Þröstur Guðbjartsson, Skúli Gautason, Jón Stefán Kristjánsson og Alma Guðmundsdóttir, 12 ára gömul stúlka sem er að feta sína fyrstu spor á leiklistarbrautinni.
Höfundur búninga er Linda B. Árnadóttir sem er mörgum kunn eftir að hún sigraði í alþjóðlegri fatahönnunarkeppni á vegum Smirnoff. Höfundur leikmyndar og lýsingar er Egill Ingibergsson. Um hárgreiðslu og förðun sér Ásta Hafþórsdóttir.
Morgunblaðið/Ásdís OG þarna er sögð saga af því hvernig maður skilur og þroskast í gegnum ástina, ástin kemur manni til sjálfs sín.