STARFSHÓPUR um framtíðarstefnu í geðheilbrigðismálum skilaði í gær af sér bráðabirgðaniðurstöðu til heilbrigðisráðherra. Hópurinn leggur áherslu á að ekki verði skorið niður í þjónustu geðdeilda og er það í samræmi við leiðbeiningar Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar um þessi mál þar sem segir að ekki eigi að skera niður þjónustu á almennum sjúkrahúsum og þjónustumiðstöðvum.
Ekki má skeraniður þjónustu
STARFSHÓPUR um framtíðarstefnu í geðheilbrigðismálum skilaði í gær af sér bráðabirgðaniðurstöðu til heilbrigðisráðherra. Hópurinn leggur áherslu á að ekki verði skorið niður í þjónustu geðdeilda og er það í samræmi við leiðbeiningar Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar um þessi mál þar sem segir að ekki eigi að skera niður þjónustu á almennum sjúkrahúsum og þjónustumiðstöðvum.
Bent er á að fækka megi sjúkrahúsinnlögnum með því að styrkja göngu- og dagdeildir, iðþjuþjálfun fyrir útskrifaða sjúklinga, stuðningsþjónustu og verndaða búsetu og með því að koma á fót heimageðhjúkrun.
Í leiðbeiningum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar segir að draga eigi úr starfsemi sérhæfðra geðsjúkrahúsa, en starfshópurinn bendir á að það sé ekki mögulegt fyrr en þjónusta utan sjúkrahúsa hefur verið byggð upp.
"Með öll þessi atriði í huga lýsir starfshópurinn yfir algerri andstöðu við tillögur um að flytja deild geðsviðs SHR úr aðalbyggingu sjúkrahússins og fækka sjúkrarúmum."
Hópurinn telur að sparnaði megi ná fram með samræmingu þjónustunnar og samstarfi meðferðaraðila og með forvörnum.
Frávik má oft sjá snemma
"Geðheilbrigðisþjónusta skiptist í mismunandi stig, og hið fyrst þeirra er að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn verði til," segir Ólafur E. Guðmundsson, yfirlæknir barna- og unglingageðdeildar Landspítalans og fulltrúi Barnageðlæknafélags Íslands í starfshópnum.
Starfshópurinn leggur meðal annars til að vægi geðheilbrigðisþátta verði aukið í mæðra- og ungbarnaskoðun, í dagvist barna, í skólaheilsugæslu og nemendaráðum og í félagsþjónustu sveitarfélaga.
"Í mörgum tilfellum má sjá frávik í heilsufari barna mjög snemma," segir Ólafur. "Það skiptir líka miklu máli að fylgjast með mæðrum á meðgöngutímanum, sérstaklega þeim sem eiga við félagslega eða geðræna erfiðleika að stríða. Vímuefnaneysla móður getur til dæmis haft margvísleg áhrif á miðtaugakerfi barnsins."
Margar orsakir
Ólafur segir að sterk tengsl séu milli þroskaerfiðleika og félagslegra og geðrænna vandamála og oft séu fljótandi skil milli þessara þátta. Geðheilbrigðisþjónustan þurfi að fást við allt þetta og mikilvægt sé að fagfólk á öllum þessum sviðum vinni saman.
"Geðsjúkdómar koma sjaldnast upp af einni orsök og reyndar gildir það sama um svokallaða líkamlega sjúkdóma. Skapgerð, erfðir og sálræn áföll spila inn í geðheilsu barns. Viðbrögð foreldra, skóla og heilbrigðisþjónustu skipta miklu máli um það hvort röskun verður á geðrænni heilsu barnsins eða ekki."