ÞORSTEINN Pálsson sjávarútvegsráðherra ræddi í gær og fyrradag við Sam Nujorna, forseta Namibíu, og Hifikapunye Pohamba, sjávarútvegsráðherra landsins, og lauk opinberri heimsókn hans í Namibíu síðdegis í gær. Sjávarútvegsráðherrarnir voru sammála um nauðsyn áframhaldandi samvinnu á sviði sjávarútvegs.
Sjávarútvegsráðherra að lokinni heimsókn til Namibíu

Framhald á samstarfi í

sjávarútvegi mikilvægt

ÞORSTEINN Pálsson sjávarútvegsráðherra ræddi í gær og fyrradag við Sam Nujorna, forseta Namibíu, og Hifikapunye Pohamba, sjávarútvegsráðherra landsins, og lauk opinberri heimsókn hans í Namibíu síðdegis í gær. Sjávarútvegsráðherrarnir voru sammála um nauðsyn áframhaldandi samvinnu á sviði sjávarútvegs.

"Í viðræðum við forseta landsins fórum við yfir helstu samskiptamál okkar og Namibíumanna, þróunaraðstoðina, samskipti fyrirtækja og samvinnu á alþjóðavettvangi, bæði í alþjóðastofnunum varðandi fiskveiðar og þá hagsmuni okkar að berjast gegn styrkjum og tollum og fyrir frjálsri verslun með sjávarafurðir," sagði Þorsteinn Pálsson í samtali við Morgunblaðið í gær áður en hann hélt af stað heimleiðis. Sagði hann forsetann hafa lagt áherslu á að samskipti landanna héldu áfram á sem breiðustum grundvelli.

Þorsteinn heimsótti einnig Luteritz þar sem Íslenskar sjávarafurðir hafa verið í samstarfi við namibíska aðila í veiðum og vinnslu en verið er að endurskipuleggja fyrirtækið. Þorsteinn segir að ÍS muni væntanlega selja afurðir fyrirtækisins áfram þrátt fyrir að nýir erlendir fjárfestar gerist eignaraðilar.

Berjast fyrir fríverslun með sjávarafurðir

Þorsteinn sagði tilgang heimsóknarinnar hafa verið að styrkja samvinnu landanna, meðal annars á alþjóðlegum vettvangi. "Við þurfum að leggja áherslu á það á alþjóðavettvangi á næstu árum að berjast fyrir fríverslun og gegn styrkjum. Namibíumenn hafa mikla hagsmuni af því eins og aðrar þjóðir sem eru að hasla sér völl í sjávarútvegi. Við eigum líka ýmislegt sameiginlegt varðandi uppbyggingu þessara nýju svæðastofnana sem stjórna úthafsveiðum og ræddum t.d. nokkuð um túnfiskinn sem kemur inní lögsögu þeirra í nokkra mánuði með svipuðum hætti og gerist heima. Þeir eru að íhuga að gerast áheyrnaraðilar að túnfiskveiðiráðinu í Atlantshafi og eitt af þeim verkefnum sem við erum að skoða nú er hvernig við getum tryggt veiðihagsmuni okkar því ráðið hefur þegar úthlutað kvótum. Við þurfum hins vegar að tryggja okkur rétt sem strandríki og þar eigum við rétt með ríkjum eins og Namibíu."

Þorsteinn sagði fróðlegt að sjá hvernig Namibíumönnum hefði tekist að nýta sér aðstoð sem þeir hafi fengið í hafrannsóknum og skipstjórnarfræðslu sem Þróunarsamvinnustofnun hefði m.a. veitt og kvaðst stoltur af starfi Íslendinga. Samstarfssamningur rennur út á næsta ári og sagði sjávarútvegsráðherra að fljótlega yrði metið hver árangurinn hefði verið og hvernig áframhaldandi samstarfi yrði háttað.