BÆJARRÁÐ Akureyrar hefur falið Jakobi Björnssyni bæjarstjóra, Sigurði J. Sigurðssyni bæjarráðsmanni og Valgerði Magnúsdóttur félagsmálastjóra að eiga viðræður við fulltrúa Náttúrulækningafélags Íslands um hugsanlega leigu á húsnæði félagsins, Kjarnalundi í Kjarnaskógi til að flytja þangað starfsemi dvalarheimilisins Skjaldarvíkur, sem er dvalarheimili fyrir aldraða. Sigurður J.
Bæjarráð Akureyrar og NLFÍ

Rætt um að starf-

semi Skjaldarvíkur

flytji í Kjarnalund

BÆJARRÁÐ Akureyrar hefur falið Jakobi Björnssyni bæjarstjóra, Sigurði J. Sigurðssyni bæjarráðsmanni og Valgerði Magnúsdóttur félagsmálastjóra að eiga viðræður við fulltrúa Náttúrulækningafélags Íslands um hugsanlega leigu á húsnæði félagsins, Kjarnalundi í Kjarnaskógi til að flytja þangað starfsemi dvalarheimilisins Skjaldarvíkur, sem er dvalarheimili fyrir aldraða.

Sigurður J. Sigurðsson sagði að þessi hugmynd hefði komið fram fyrir allnokkru og viðræður farið fram, en þeim aldrei verið lokið. Hann lagði því til að málið yrði tekið upp að nýju.

Viðamiklar endurbætur liggja fyrir á Skjaldarvík

Fyrir liggur að gera þarf viðamiklar endurbætur á húsnæði Dvalarheimilisins í Skjaldarvík og eru þær mjög kostnaðarsamar. "Málefni Skjaldarvíkur hvíla á bæjarstjórn, þar eru knýjandi verkefni sem krefjast úrlausnar, varðandi viðhald, endurbætur og aðbúnað bæði heimilis- og starfsfólks. Það er óviðunandi að menn komi sér ekki til þess verks að taka afstöðu til þess hvernig leysa á úr þessu. Gangi þetta ekki með Kjarnalund, þarf að finna nýjar leiðir," sagði Sigurður.

Þróunin væri sú að rýmum fyrir langlegusjúklinga færi fækkandi á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, það stefndi æ meir í að það yrði rannsóknar- og aðgerðarsjúkrahús. "Hjúkrunarrýmum mun ekki fækka á næstu árum og mér sýnist að dvalarrýmum geti ekki fækkað mikið frá því sem nú er og því þurfa menn að finna lausn í málinu, hvort byggð verði fleiri sambýli fyrir aldraða eða með hvaða hætti við leysum þetta," sagði Sigurður.

Hann sagði að Kjarnalundur hefði verið skoðaður með það í huga hvort hann gæti nýst sem dvalarheimili fyrir aldraða, en þar hefur á síðustu árum verið rekið hótel. Eigendur Hótel Hörpu hafa Kjarnalund nú á leigu og eru með samning til nokkurra næstu ára.