LEIÐTOGAR Rússlands, Frakklands og Þýskalands mynduðu þríeyki á fundi forystumanna Evrópuráðsríkja í Strassborg í gær. Kært hefur verið með Borís Jeltsín Rússlandsforseta og Jacques Chirac Frakklandsforseta, en mörgum kom á óvart að Helmut Kohl, kanslari Þýskalands, lýsti því yfir að haldnir yrðu árlegir fundir Þjóðverja,
Kohl vill aukið samráðvið Frakka og Rússa
Leiðandi hlutverk Evrópuráðsins í mannréttindum og lýðræði og aðgerðir næstu ára voru umtalsefni leiðtoga í Strassborg í gær. Þórunn Þórsdóttir fylgdist með fundinum en þar kom helst á óvart þríeyki Rússa, Frakka og Þjóðverja. Fundinum lýkur í dag og á brott hverfa 44 þjóðarleiðtogar, 4.000 lögreglumenn og 1.300 fréttamenn.
LEIÐTOGAR Rússlands, Frakklands og Þýskalands mynduðu þríeyki á fundi forystumanna Evrópuráðsríkja í Strassborg í gær. Kært hefur verið með Borís Jeltsín Rússlandsforseta og Jacques Chirac Frakklandsforseta, en mörgum kom á óvart að Helmut Kohl, kanslari Þýskalands, lýsti því yfir að haldnir yrðu árlegir fundir Þjóðverja, Frakka og Rússa um sameiginleg hagsmunamál. Chirac sagði fréttamönnum að þetta væri nauðsynlegt skref í friðarþróun og afl sem yrði álfunni mikils virði.
Jeltsín kvaðst á sameiginlegum blaðamannafundi þeirra Chiracs ætla að beita sér í vanda Kákasuslýðvelda og jafnframt styðja jarðsprengjubann, sem kveðið er á um í Óslóarsáttmálanum, "jafnvel þótt valdamikið vestrænt ríki hefði ekki tekið slíka afstöðu." Þar átti Jeltsín við Bandaríkin.
Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði Morgunblaðinu að svo virtist sem Jeltsín vildi, eftir hálfs annars árs aðild Rússa að ráðinu, líta á það sem mótvægi við Bandaríkin og ef til vill þau fjölþjóðasamtök sem leiða saman Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Davíð sagði fundinn miðast mjög við Rússland og löndin í austri sem gengið hafa í ráðið undanfarin ár, fjallað væri um mál sem öllu skiptu fyrir afdrif lýðræðis þar.
Leiðandi afl í lýðræðisþróun sem leið til öryggis
Mannréttindi og lýðræði voru þau orð sem oftast heyrðust í ræðum þjóðarleiðtoganna. Rætt var um leiðandi hlutverk ráðsins hvað þessi grundvallaratriði þess snerti, sérstaklega eftir breytinguna úr tvískiptri heimsmynd kalda stríðsins í þá ríkjamósaík sem raðast hefur saman á þessum áratug. Davíð Oddsson sagði í ræðu sinni að ráðið stuðlaði að því að festa í sessi nýja tíma í samskiptum ríkja með "öryggi byggðu á lýðræði". Leikreglur lýðræðis væru öruggasta tryggingin gegn árásarhneigð og ófriðarstefnu.
Daniel Tarschys, aðalritari Evrópuráðsins, nefndi hið sama í sínu ávarpi og sagði atburði í Albaníu, Bosníu-Herzegóvínu og Tsjetsjníju í senn sýna mikilvægi þessa og hve erfitt væri að halda slíku jafnvægi. Helmut Kohl, kanslari Þýskalands, talaði á líkum nótum og sagði að eina leiðin væri samstarf Evrópuráðsins við Evrópusambandið og ÖSE. Slíkt samstarf er brýnast ef í óefni stefnir, hefur Tarschys ítrekað að undanförnu, hlutverk ÖSE sé friðargæsla, Evrópuráðið vinni til lengri tíma að löggjöf sem byggist á sameiginlegum hugsjónum. Tony Blair, forsætisráðherra Breta, tók þetta leiðbeingarhlutverk Evrópuráðsins upp í ræðu sinni og sagði ráðið nú gegna tilgangi sínum. Það hefði mikið að gefa Austur-Evrópuríkjum og ætti sinn þátt í að draga úr spennu milli þjóða og þjóðarbrota.
Um mannréttindin sagði Blair að Bretar myndu gera Evrópusáttmálann um þau að landslögum, en það er þegar orðið í flestum öðrum ríkjum vestan til í álfunni. Nánast allir leiðtogarnir fögnuðu aukinni áherslu á mannréttindamál með nýjum dómstól í Strassborg á næsta ári. Barátta gegn kúgun minnihlutahópa og kynþáttafordómum var oft nefnd og mannréttindi andspænis nýrri tækni sömuleiðis. Helmut Kohl nefndi klónun sérstaklega og þau siðferðislegu gildi sem Þjóðverjum væru mikilvæg í ljósi grimmdarverka nasista.
Stuðningur Bandaríkjanna og ESB við Evrópuráðið
Í bréfi sem Bill Clinton Bandaríkjaforseti sendi Jacques Chirac forseta Frakklands í gær er milljón bandaríkjadala lofað til stuðnings við Mannréttindanefnd Bosníu. Nefndin var sett á fót með Dayton- samkomulaginu en hefur ekki getað starfað vegna fjárskorts. Hana skipa sérfræðingar frá Evrópuráðinu en fyrir eru í Bosníu stríðsglæpadómstóll og umboðsmaður mannréttinda.
Jacques Santer, forseti frkamkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ESB, lýsti jafnframt fjárstuðningi við nokkrar áætlanir Evrópuráðsins í ræðu sem hann hélt í lok fundar gærdagsins. Santer sagði ESB fagna þeim aðgerðum sem leiðtogarnir ýta af stað í Strassborg í dag, einkum í félagsmálum: atvinnusköpun og barnavernd. Hann sagði vilja til að samræma vinnubrögð og koma í veg fyrir tvíverknað. Vegna fyrirhugaðrar fjölgunar aðildarríkja ESB legði sambandið mikið upp úr eftirliti Evrópuráðsins með því að aðildarríki þess standi við skuldbindingar og þeirri aðstoð sem ráðið veitir nýjum ríkjum á leið til lýðræðis.
Reuters BORIS Jeltsín Rússlandsforseti og Eduard Shevardnadze, forseti Georgíu, faðmast er leiðtogar hinna 44 aðildarríkja Evrópuráðsins stilla sér upp til hópmyndatöku.
DAVÍÐ Oddsson ávarpar leiðtogafundinn.