Prodi tekur dræmt í
tilboð kommúnista
Strassborg, Róm. Reuters.
ROMANO Prodi, fráfarandi forsætisráðherra Ítalíu, tók í gær dræmlega í tilboð kommúnista um að
mynda samsteypustjórn með þeim er sæti í eitt ár. Kvaðst hann ekki myndu leiða slíka stjórn en neitaði þó tilboðinu ekki, sagði að ræða yrði það af alvöru og ekki í fjölmiðlum. Prodi baðst á fimmtudag lausnar eftir að stjórn hans hafði mistekist að fá þingmenn Kommúnískrar endurreisnar til að samþykkja fjárlagafrumvarp minnihlutastjórnar hans. Lagði hann í gær áherslu á að fall stjórnar hans þýddi ekki að möguleikar Ítalíu á þáttöku í Efnahags- og myntbandalagi Evrópu væru fyrir bí.
Prodi, sem var í gær viðstaddur setningu leiðtogafundar Evrópuráðsins í Strassborg, sagðist ekki reiðubúinn að ræða tilboð kommúnista svo fremi sem það byggðist enn á andstöðu við fjárlagafrumvarpið. Reyndi hann ekki að dylja reiði sína er hann hreytti út úr sér að "svona krísa hefði ekki verið nauðsynleg". Talsmenn flokks Prodis, Lýðræðislega vinstriflokksins, ítrekuðu orð Prodis og sögðu flokkinn reiðubúinn til viðræðna ef kommúnistar létu af andstöðu sinni en gagnrýndu þá jafnframt fyrir að leggja fram tilboðið degi eftir að þeir hefðu fellt stjórnina.
Fausto Bertinotti, leiðtogi kommúnista, sagði tilboð þeirra, sem kom flestum í opna skjöldu, ekki þýða að Kommúnísk endurreisn hefði fallið frá fyrri kröfum sínum um að fellt yrði út ákvæði úr fjárlagafrumvarpinu um lækkun lífeyrisgreiðslna. Ný stjórn yrði að bregðast við "þeim atriðum sem við vöktum athygli á", sagði Bertinotti en þau voru m.a. kröfur um styttri vinnuviku, að fjölgað yrði störfum og að ekki yrði hróflað við lífeyrisgreiðslum.
Oscar Luigi Scalfaro, forseti Ítalíu, mun funda með leiðtogum stjórnmálaflokkanna fram á mánudag en þá er búist við því að hann ákveði hvort ástæða sé til að fela einhverjum þeirra umboð til stjórnarmyndunar eða boða til kosninga, hinna þriðju á sex árum.
Hópur stofnaðildarríkja/??