Ákveðin skilaboð
til þeirra yngri
"Gömlu refirnir" Hlynur Stefánsson, fyrirliði ÍBV,
og Ólafur Þórðarson, fyrirliði ÍA, eru leikmenn Íslandsmótsins í knattspyrnu í sumar að mati íþróttafréttamanna Morgunblaðsins; urðu efstir og jafnir í einkunnagjöf blaðsins. Valur B. Jónatansson settist niður með þeim félögum og ræddi um sumarið. Þeir voru sammála um að liðin gætu enn bætt knattspyrnuna og að agaleysi væri ríkjandi hjá mörgum leikmönnum deildarinnar.
Ólafur Þórðarson er nú efstur í einkunnagjöf Morgunblaðsins í annað sinn. Hann og Hlynur Stefánsson hlutu báðir 21 M í 18 leikjum, sem er 1,6 M að meðaltali í leik. Markakóngur Íslandsmótsins, Eyjamaðurinn Tryggvi Guðmundsson, kom næstur með 20 M. Hlynur er 33 ára og Ólafur 32 ára og eiga þeir það sameiginlegt að vera elstu og leikreyndustu leikmenn liða sinna sumir segja "gömlu refirnir" í deildinni þó að þeir vilji ekki samþykkja að þeir séu orðnir gamlir. "Erum við ekki bestir, Morgunblaðið segir það . . ." Þeir hafa einnig báðir leikið með félagsliðum á Norðurlöndunum, Ólafur í Noregi og Hlynur í Svíþjóð og Noregi. Þeir sögðu það heiður að hljóta þessa viðurkenningu sem Morgunblaðið veitti þeim í gær fyrir efsta sætið í einkunnagjöf blaðsins.
Þekkja sín takmörk
Þegar þeir voru spurðir að því hvort þeir hefðu verið bestu leikmenn deildarinnar í sumar eins og íþróttafréttamenn Morgunblaðsins telja, sögðu þeir að það væri erfitt fyrir þá að svara því. "Annaðhvort er það dómgreindarleysi blaðamanna eða þá að við erum einfaldlega bestir," sagði Hlynur og bætti við að aðrir yrðu að dæma um það. Ólafur sagði að ef þeir væru bestir væru það ákveðin skilaboð til yngri leikmanna í deildinni.
"Það sem við höfum kannski fram yfir aðra er að við höfum báðir fengið smjörþefinn af atvinnumennsku. Við þekkjum okkar takmörk og vitum hvað við getum og erum ekki að rembast við að gera það sem við ráðum illa við. Á sama tíma eru yngri leikmenn að reyna of mikið að gera það sem þeir ráða ekki við og flækja leikinn óþarflega mikið. Við höfum því meiri stöðugleika í leikjunum en aðrir," sagði Hlynur. Ólafur sagðist rétt ætla að vona að leikreynsla þeirra skilaði einhverju. "Það kitlar "egóið" hjá leikmönnum að fá góða og jákvæða umfjöllun í blöðum. Hlynur tók undir það og sagði: "Ég er ekki að segja að það sé það fyrsta sem maður gerir þegar blaðið kemur inn um bréfalúguna að skoða einkunnagjöfina, en auðvitað kíkir maður á hana. Ég veit það best sjálfur hvort ég er að leika vel eða illa."
Betra eða verra
Þegar rætt var um gæði knattspyrnunnar í sumar sagði Ólafur að hún hefði verið mun slakari en oft áður. "Það var ekkert lið sem sýndi eins góða knattspyrnu og Skagaliðið gerði til dæmis árið 1993. Eyjamenn voru reyndar með besta liðið en önnur lið voru slakari en áður." Hlynur sagðist ekki vera sammála þessu enda hefði ÍBV verið með yfirburðalið í sumar. "Leikurinn sem við sýndum gegn Stuttgart á Laugardalsvelli er einn besti leikur sem íslenskt félagslið hefur sýnt í fjölda ára. Þar sýndi Eyjaliðið rétta styrkinn." Ólafur var ekki tilbúinn að kyngja þessu: "Við skulum ekki gleyma leiknum sem við unnum 1:0 á móti Feyenoord á sama velli árið 1993."
Ef og hefði
"Það segir sína sögu að þó svo að við færum ekki að spila fótbolta fyrr en um mitt mót vorum við eina liðið sem ógnaði ÍBV í sumar. Við vorum búnir að vinna fimm ár í röð og það þarf mikið til að kveikja þennan sigurneista sem þarf. Þjálfaraskiptin fóru líka illa í okkur og undirbúningurinn fyrir tímabilið var ekki eins og hann átti að vera. Við fórum ekki að æfa að neinu gagni fyrr en í lok febrúar og margir leikmenn höfðu ekki verið undir neinni stjórn frá því mótið kláraðist í fyrra. Það var því varla hægt að búast við miklu af okkur, en ég er sannfærður um að við hefðum orðið meistarar ef Logi [Ólafsson, sem tók við af Ivan Golac í sumar] hefði verið með okkur allt tímabilið," sagði Ólafur. "Já, það er þetta stóra ef," sagði Hlynur. "Við hefðum líka orðið bikarmeistarar ef ég hefði ekki misnotað vítaspyrnuna."
Níu sekúndur að skora
Hlynur sagði að það byggi enn meira í Eyjaliðinu en það hefði sýnt í sumar. "Mér finnst eins og við getum miklu meira. Liðið á mikið inni. Það eru ákveðnir gallar í liðinu sem við getum lagað. Við vorum oft á tíðum að vinna leiki þar sem við vorum ekki að spila okkar besta fótbolta við gerðum þá aðeins það sem þurfti til að sigra. Þegar við spiluðum heima í Eyjum reyndum við að stjórna leikjunum og liðin sem heimsóttu okkur voru varkárari. Á útivöllum lögðum við meiri áherslu á að leika aftar á vellinum og vildum fá andstæðingana framar til að geta notað þessa fljótu stráka í liðinu. Sem dæmi um hve fljótir þeir eru, vorum við aðeins níu sekúndur að fara úr vörn í sókn og skora á móti Skagamönnum."
Agaleysi
Þeim varð tíðrætt um agaleysi meðal íslenskra knattspyrnumanna og tóku KR-inga sem dæmi: "Mér finnst það grátlegt hvernig að málum var staðið hjá KR í sumar. KR er allt of stórt félag til að vera í svona rugli," sagði Ólafur. Hlynur tók undir það og sagði: "Við vitum að KR er með hörkugóða einstaklinga en það verður að vera vinnufriður innan félagsins ef árangur á að nást. Allir verða að leggjast á eitt og vinna saman, leikmenn, þjálfari og stjórnin. Pílurnar verða allar að vísa í sömu átt." Ólafur sagði að það væri ekki nóg ef leikmenn hefðu ekki þann sjálfsaga sem til þarf. "Það þýðir ekki að rífa kjaft við þjálfarann og gera það sem manni dettur í hug. Þetta er vandamál sem við uppi á Skaga höfum aldrei þurft að glíma við. Skoðum bara hvaða lið það eru sem eru að ná bestum árangri? Það eru liðin sem eru með flesta heimamenn innanborðs."
Þurfa að hafa stolt
Hlynur sagði þetta agavandamál ekki eins mikið hjá liðunum utan Reykjavíkur. "Ástæðan er líklega sú að í litlum bæjum þurfa leikmenn að lifa við það alla vikuna að svara fyrir sig eftir slæman leik. Fólkið horfir framan í okkur og segir: "Hvað voru þið eiginlega að gera?" Í Reykjavík hverfa menn inn í fjöldann og það er léttara að fela sig og ýta vandamálinu eitthvað annað." Ólafur var sammála og bætti við: "Það eru líklega ekki nema um fimm prósent leikmanna sem hafa þann sjálfsaga sem þarf til að reka sig áfram, restin þarf aðhald þarf einhvern harðstjóra með svipu. Það þarf að breyta hugsunarhætti leikmanna. Þeir þurfa að skilja það sjálfir að það þarf að hafa fyrir hlutunum. Þeir þurfa að hafa stolt til að gera enn betur."
Morgunblaðið/Árni Sæberg Bestir! HLYNUR Stefánsson, fyrirliði Íslandsmeistara ÍBV, og Ólafur Þórðarson, fyrirliði Skagamanna, voru efstir í einkunnagjöf Morgunblaðsins. Þeir voru heiðraðir í tilefni þess í gær.