Selfossi-Í sumar var undirritaður samstarfssamningur á milli atvinnu- og markaðsnefndar Hveragerðis og Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands. Samstarfið felst í stefnumótun í atvinnumálum og markaðssetningu Hveragerðis sem ferðamannabæjar. Að sögn Óla Rúnars Ástþórssonar, framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands, hefur verkefnið farið vel af stað.
Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands og Hveragerðisbær

Samstarfssamningur um atvinnu- og ferðamál

Selfossi - Í sumar var undirritaður samstarfssamningur á milli atvinnu- og markaðsnefndar Hveragerðis og Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands. Samstarfið felst í stefnumótun í atvinnumálum og markaðssetningu Hveragerðis sem ferðamannabæjar. Að sögn Óla Rúnars Ástþórssonar, framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands, hefur verkefnið farið vel af stað. Óli segir að verkefnið sé til tveggja ára og markmiðið með því sé að móta framtíðarstefnu Hveragerðisbæjar í atvinnu- og ferðamálum. Menn séu almennt jákvæðir fyrir þessu framtaki. "Ráðist hefur verið í umfangsmikla viðhorfskönnun innlendra sem erlendra ferðamanna í bænum með það fyrir augum að afla aukinnar þekkingar á gestunum svo að unnt sé að uppfylla þarfir þeirra," sagði Óli Rúnar Ástþórsson. Samstaða og einhugur

Olaf Forberg, athafnamaður frá Hveragerði, hefur verið ráðinn verkefnisstjóri í 35% starf og leggst verkefnið vel í hann. "Við ætlum okkur að kynna bæinn á jákvæðan hátt, nýta okkur fjölmiðla og einnig munum við nýta okkur reynslu fólks hér á svæðinu. Myndaðir verða samstarfshópar um sérstök verkefni, þannig að samstaða og einhugur myndist um að bæta atvinnu- og ferðamál í Hveragerði." Olaf segir að séstök áhersla verði lögð á ferðaþjónustuna og vill hann minna á að Hveragerði hefur um langt árabil verið einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Gufan, vistvænn orkugjafi

Olaf er menntaður líffræðingur og hann segir að það megi nýta gufuna betur. "Gufan er vistvænn orkugjafi sem eykur möguleika okkar á að laða hingað fyrirtæki msem hafa vistvæn markmið." Olaf er sannfærður um að þetta samstarf Atvinnuþróunarsjóðs og Hveragerðisbæjar eigi eftir að skila sér í fjölbreyttara atvinnulífi og markvissari markaðssetningu á "blómabænum". Morgunblaðið/Sig. Fannar. OLAF Forberg, verkefnisstjóri.