KRISTNIBOÐ Á OKKAR TÍMUM? Þankar að loknu þingi Lútherska heimssambandsins í Hong Kong í sumar Þær eru nokkrar syndirnar sem guðfræðingur þarf að svara fyrir.

KRISTNI-

BOÐ Á OKKAR

TÍMUM?

Þankar að loknu þingi Lútherska heimssambandsins í Hong Kong í sumar

Þær eru nokkrar syndirnar sem guð fræðingur þarf að svara fyrir. Í sögubókum er greint frá yfirgangi Evrópubúa í garð annarra þjóða og þá í beinu framhaldi er trúboðar komu í kjölfar landkönnuða, hermanna og verslunarmanna og reistu evrópska hugmyndafræði á rústum þess sem fyrir hafði verið. Þessi söguskoðun er varla nema hálfrar aldar gömul, sem getur vart talist mikið, ef miðað er við þann tíma sem kristin kirkja hefur verið við lýði. Ekki eru margir áratugir síðan eldhugar héldu út á trúboðsakurinn, fullir sjálfstrausts og dyggilega studdir af kirkju og almenningi heimafyrir. Boðskapur þeirra var sá sami og Vesturlönd eru grundvölluð á. Þeir boðuðu ekki einungis trúarbrögð, heldur fylgdu menning okkar og lífsviðhorf þar með í einhverjum mæli.

Nú: liðin tíð?

Síðan þá hefur margt gerst sem slegið hefur á fullvissuna um ágæti þeirrar menningar sem við tilheyrum. Tvær heimsstyrjaldir rekja upptök sín til Evrópu. Heimsveldi álfunnar hafa verið leyst upp og er nýlendustefnan nú af flestum álitin svartur blettur á sögu Evrópu. Okkur hefur skolað að landi eftir þrautargöngu aldarinnar full efasemda um stöðu okkar í samfélagi þjóðanna og full tortryggni í garð þeirra sem vilja sveigja hug annarra í átt að okkar. Á okkar dögum þarf guðfræðingur að svara fyrir gagnrýni á trúboðshugsjón kirkjunnar. Fæsta skiptir máli í þessu sambandi hversu ágætur boðskapurinn er. Að mati gagnrýnenda ber að halda honum frá þeim sem leitað hafa annað að sannleika og lífsfyllingu. Fátt veldur meiri óvild en sú viðleitni að "troða" sannfæringu sinni upp á aðra. Skoðanir eru helgar og einkamál hvers og eins, svo fremi sem aðrir fá að vera í friði fyrir þeim og að ekki sé litið svo á að þær gildi fyrir alla. Hver á að hafa sína trú, eða trúleysi, í friði. Þessi afstaða hefur verið kennd við "póst- módernisma". Póst-módern merkir orðrétt "eftir- nútímann" og má einnig orða með þversögninni "nú: liðin tíð". Nútíminn er að baki og að mati margra hefur kristindómurinn farið sömu leið. Við hefur tekið millibilsástand eða hálfkák, þar sem straumar og stefnur hafa ruglað menn svo rækilega í ríminu að þeir bera ekki meira traust til eigin skoðana en svo að þær eigi einungis erindi til þeirra sjálfra, andstæð afstaða geti hentað öðrum. Umburðarlyndi og skoðanafrelsi er oftar en ekki ruglað saman við þá einkennilegu afstöðu að menn megi ekki, í friði og kærleika, miðla öðrum af sannfæringu sinni. Á markaðstorgi hugmyndanna er valið úr tilboðum og gildir þar einu hvað aðrir setja í sínar körfur.

Illu heilli hefur póstmódernismans orðið vart innan kirkjunnar í Evrópu sem kemur einna skýrast fram í afstöðunni til kristniboðs. Í viðmóti sínu til annarra trúarbragða hefur kirkjan undanfarið fremur leitast við að halda boðskap sínum í bakgrunni. Líknarstörf hafa þar verið fyrirferðarmest en einnig má nefna samræður við önnur trúfélög, þar sem kirkjan hefur leitað eftir fordæmum til eftirbreytni um leið og hún hefur miðlað viðmælandanum af reynslu sinni og þekkingu. Í hvorugu tilvikinu er reynt að hafa bein hugmyndafræðileg áhrif. Kristniboð fer vitanlega fram og hefur víða verið unnið þrekvirki á þeim vettvangi, en því fer hins vegar fjarri að það njóti stuðnings innan lútherskra kirkna í Evrópu og oftar en ekki er það drifið áfram af leikmannasamtökum.

Á þingi Lútherska heimssambandsins, sem haldið var í Hong Kong dagana 8. - 16. júlí, mátti heyra athyglisverða umræðu út frá þessari afstöðu. Ræðumenn frá söfnuðum utan álfunnar kvörtuðu undan því hversu erfitt væri að sækja hugmyndafræðilegan stuðning til Evrópu núorðið. Það var fróðlegt að heyra hvert álit fulltrúar annarra menningarsvæða hafa á póstmódernisma álfunnar okkar.

Kirkjur af ólíkum kynslóðum

Yfirskrift þings Lútherska heimssambandsins að þessu sinni var "Kölluð til vitnisburðar um Krist". Þingið sótti á annað þúsund manns og var þetta fyrsta alþjóðlega ráðstefnan sem haldin var í borginni eftir sameininguna við Kína. Umræðan átti einkum að beinast að sameiginlegri yfirlýsingu lútherskrar og rómverskrar kirkju um réttlætingu af trú, en áhugi viðstaddra beindist þó fremur að öðru viðfangsefni. Fulltrúum ungra safnaða lútherskra kirkna, aðallega í löndum Asíu og Afríku, varð tíðrætt um tregðu trúbræðra sinna í Evrópu til að boða trúna í öðrum álfum. Bent var á að kristnar hjálparstofnanir væru jafnan reiðubúnar til að veita aðstoð á sviði heilbrigðis og menntamála, en þegar kæmi að því að reisa kirkju eða ráða kristniboða væru jafnan ljón á veginum.

Greinilegt var á þessari umræðu að andrúmsloftið sem ríkir innan kirkjunnar í Evrópu er mjög ólíkt því sem er við lýði innan ungu safnaðanna. Þeir eru gróskumiklir og fara stækkandi ár frá ári, en á sama tíma eiga kirkjur á Vesturlöndum í varnarbaráttu, bæði hvað varðar fjölda meðlima og eins hvað áhrærir ítök í samfélaginu. Í minnihlutahópum myndast oft sterkari samkennd og þar þurfa meðlimirnir að vera reiðubúnir að standa skil á sannfæringu sinni fyrir ókunnugum eða jafnvel að gjalda fyrir. Sú guðfræði sem þróast innan slíks ramma verður tíðum virkari, hún staðnar síður sem fjarlæg kenning, er sjaldan þarf að standast prófraunir lífsins. Þar sem kirkjan er fjöldahreyfing eins og hér er raunin er henni hætt við að verða eins og hver önnur þjónustustofnun sem er ekki í anda þess hlutverks sem henni var upphaflega ætlað að sinna. Einnig má nefna að helgihald í söfnuðum þessum miðar að því að gera boðskapinn áheyrilegan og aðlaðandi fremur en að fylgt sé eftir reglum hefðar og venju eins og oft vill verða í aldagömlum kirkjum Evrópu. Hitt hefur ekki síður áhrif að hugarfar í ungum söfnuðum er ekki bundið á klafa þessarar niðurbrjótandi söguskoðunar sem fyrr er nefnt. Tímabil stöðnunar er blessunarlega ekki runnið upp því kirkjur þessar eru enn í algleymi vaxtar og endurnýjunar. Hér þurfa menn hvorki að svara fyrir óþægileg tengsl við nýlenduherra, né þurfa þeir að sæta ásökunum af ráðvilltum samfélögum um hugmyndafræðilegt ofbeldi. Aðstæður þær sem kirkjur þessar eru í blása meðlimum þeirra í brjóst sjálfstrausti og metnaði. Samfara gagnrýni á lútherskar kirkjur Vesturlanda komu fram hugmyndir þess efnis að tímabært væri að ungu söfnuðirnir skenktu þeim gömlu af þeirri andagift sem þeir eiga svo gnótt af. Spurningin er hvort rétt væri að miðla fagnaðarerindinu aftur til þeirra sem upphaflega dreifðu því um heimsbyggðina. Þurfa kirkjur Evrópu nú á kristniboðum að halda?

Þrífst kirkjan best sem minnihluti?

Sá veruleiki sem kirkjan í Evrópu horfir fram á er um margt ekki gæfulegur. Hún hefur tapað ýmsum áhrifum sínum heimavið og forystu sinni gagnvart kirkjum í öðrum löndum. Hún horfir upp á sértrúarsöfnuði sópa að sér fylgi þrátt fyrir oft á tíðum rýra guðfræði og einhæfa biblíutúlkun. En er ekki raunin sú að hópar þessir koma til móts við þörf mannsins fyrir tilgang og bæta upp það sem á vantar í fræðilegum efnum með innlifun og sannfæringarkrafti? Í löndum Austur Evrópu skipti kirkjan snarlega um hlutverk og færðist frá því að vera minnihluti í trúlausum samfélögum yfir í sess þjóðkirkju. Í kjölfarið jókst kirkjusókn og trúarlegt starf til að byrja með, en ekki leið á löngu þar til því tók að hnigna á nýjan leik. Áhugi almennings fyrir kirkjunni er nú lítill í þessum löndum, að sögn kunnugra, á sama tíma og hvert trúfélagið á fætur öðru sprettur upp.

Kirkjan í Evrópu er ef til vill farin að upplifa það sem veruleika sem hefur til þessa einkum mátt finna í predikunum hennar og sálmum. Hún er farin að líkjast æ meir smælingjanum sem er fátækur í anda og nýtur lítillar virðingar, en er engu að síður elskaður af Guði. Sigur hins þjáða og máttur hins auðmýkta eru gegnumgangandi stef í boðun kirkjunnar en hafa oft verið í hálfgerðri mótsögn við þann myndugleika sem kirkjan hefur löngum haft. Fjarlægð hefur skapast milli prestanna og safnaðarmeðlimanna þar sem burgeislegt embættismannafasið hefur torveldað þeim fyrrnefndu að sinna köllun sinni sem skyldi. Hugsanlega er einn vænlegasti valkostur kirkjunnar á okkar dögum sá að færa sig í þann þrönga stakk sem samtíminn hefur skorið henni og iðka þá líðandi þjónustu sem ritningin ætlar henni. Auðmýktin er þó vitanlega ekki markmið í sjálfu sér. Sá sem hana hefur viðurkennir þörf sína fyrir hjálp þar sem hennar er mest þörf. Kirkjunni fer betur að skoða sig sem minnihluta og þiggja aðstoð og andagift frá þeim söfnuðum sem alla tíða hafa mótast við slíkar kringumstæður.

Kristniboð á nýjan leik

Í upphafi var vísað til gagnrýni á kristniboð Evrópumanna og var sá varnagli sleginn að hún væri ekki alls kostar sanngjörn. Í mörgum tilvikum varð þáttur kristniboðanna í framsókn evrópskrar menningar til þess að draga úr því tjóni sem víða var unnið á þeirri menningu sem fyrir var. Kristniboðar komu til að mynda á fót sjúkrahúsum og skólum og áunnu sér víða góðan orðstýr, jafnvel hjá þeim sem ekki létu snúast. Kristin trú hefur vitanlega geysimargt fram að færa. Í sundruðum ríkjum þriðja heimsins þar sem ægir saman ólíkum þjóðflokkum með ólíka menningu er kristindómurinn og sú siðfræði sem af honum sprettur ákjósanlegur grunnur að nýjum samfélögum. Kristin trú er þess eðlis að hún verður auðveldlega löguð að þeim siðum og venjum sem fyrir eru, því menningarlegt umburðarlyndi er einn af hornsteinnum kristinnar kenningar og er vegur þess mikill í flestum lútherskum kirkjum.

Marteinn Lúther leit svo á að kirkjan væri lifandi líkami, sem þyrfti sífellt að endurmeta og bæta ef kostur er. Andstætt þeim sem litu svo á að kirkjan væri í eðli sínu stofnun, er kalli á stöðugleika og festu hélt Lúther á lofti dýnamískum kirkjuskilningi. Kirkjan var að mati hans veruleiki, sem umléki hvern og einn kristin mann og þyrfti sem slík að aðlagast breyttum aðstæðum. Á okkar dögum felst endurbót kirkjunnar í nýju viðmóti til þess umhverfis sem hún starfar í og hefur breyst svo óskaplega á undanförnum tímum. Í okkar heimshluta þarf hún að læra að skilgreina sig sem hluta af því fjölbreytta litrófi trúarbragða og hugmyndafræði sem einkennir samtímann fremur en að ríghalda í menningarlega sérstöðu sína gagnvart öðrum trúfélögum. Til þess þarf hún að rækta með sér þá auðmýkt að skilgreina sig sem hluta af þessari flóru. Þá er henni hægar um vik að sinna því sem ætíð hefur verið mikilvægasta hlutverk hennar, að breiða út fagnaðarerindið. Sá jafnréttisgrundvöllur sem kirkjan starfar á er þá sýnilegri og ótti manna við að verið sé að þvinga menn til þess að skipta um trú ætti að minnka. Samfara því sem kirkjunni ber að sækja út á við og haga starfsemi sinni á þann veg að andlag þess verði jafnan kristniboð þarf hún að þiggja af reynslu og þekkingu safnaða úr öðrum heimshornum. Setji kirkjan sér slík markmið hefur hún færst nær sínu upprunalega og eiginlega hlutverki. Innviðir hennar og eðli einkennast þá af lítillæti og hógværð en hið ytra verður hún framsækin og öflug.

Höfundur er aðstoðarprestur á Ísafirði.