Íslandsmeistarar KA taka á móti Granitas Kaunas frá Litháen klukkan 16 á morgun, en um er að ræða seinni leik liðanna í 1. umferð Evrópukeppni meistaraliða í handknattleik. KA tapaði fyrri leiknum, 27:23, en Atli Hilmarsson, þjálfari norðanmanna, sagði við Morgunblaðið í gærkvöldi að til að komast áfram yrði liðið að eiga toppleik auk þess sem áhorfendur gætu gert gæfumuninn.
HANDKNATTLEIKUR Seinni Evrópuleikir KA og Aftureldingar í 1. umferð um helgina

KA treystir

á góðan stuðn-

ing áhorfenda

Íslandsmeistarar KA taka á móti Granitas Kaunas frá Litháen klukkan 16 á morgun, en um er að ræða seinni leik liðanna í 1. umferð Evrópukeppni meistaraliða í handknattleik. KA tapaði fyrri leiknum, 27:23, en Atli Hilmarsson, þjálfari norðanmanna, sagði við Morgunblaðið í gærkvöldi að til að komast áfram yrði liðið að eiga toppleik auk þess sem áhorfendur gætu gert gæfumuninn.

"Við vorum góðir að sleppa með fjögurra marka tap því útlitið var ekki gott á tímabili þegar munurinn var átta mörk en þá vorum við svo sannarlega í vondum málum," sagði hann um fyrri leikinn. "Ég met stöðuna þannig að 60% líkur eru á að þeir sigri en von okkar felst í því að þeir eru slakir á útivelli. Miðað við hvernig þeir léku í fyrri leiknum hentar þeim ekki að hanga á boltanum. Þeir voru á fullu allan tímann, spiluðu mjög hratt og gerðu það vel. Þeir voru sífellt að leysa inn á línu, eru með tvær mjög góðar skyttur og frábæran markmann. Landsliðsmaðurinn í vinstra horninu er sérstaklega góður í vörn og við áttum í miklum erfiðleikum með 3­3 varnarleik liðsins."

KA lék mjög góðan varnarleik á móti Fram í vikunni og sagði Atli að mikilvægt væri að halda uppteknum hætti. "Undir lokin í Litháen náðum við góðum varnarleik og gerðum enn betur á móti Fram. Við þurfum að halda áfram á sömu braut en þetta verður erfitt og ég vara við bjartsýni því það er miklu meira en að segja það að vinna upp fjögur mörk. Hins vegar geta áhorfendur gert gæfumuninn og vonandi fáum við fullt hús. Mótherjarnir þekkja ekki stemmningu eins og hér er best ­ til dæmis voru aðeins um 400 manns í fyrri leiknum ­ og því geta áhorfendur hreinlega tekið þá á taugum og sett þá út af laginu."

Gott veganesti

Afturelding vann austurríska liðið Stockerau, 35:28, í fyrri leik liðanna í 1. umferð Borgakeppni Evrópu og stendur því vel að vígi fyrir seinni leikinn ytra í dag.

"Mér líst ágætlega á þetta," sagði Skúli Gunnsteinsson, þjálfari og línumaður Aftureldingar, við Morgunblaðið eftir æfingu liðsins í höllinni ytra í gærkvöldi. "Í fyrsta sinn á tímabilinu eru allir leikmennirnir heilir en forskotið er minna en margur heldur. Við getum ekki leyft okkur að vanmeta mótherjana og verðum að eiga mjög góðan leik til að halda fengnum hlut. Austurríska liðið er þekkt fyrir að leika hraðan sóknarleik og því verðum við að leggja áherslu á að spila langar sóknir og leika góða vörn því þá verður markvarslan í lagi."

Afturelding tapaði óvænt fyrir HK í deildinni sl. miðvikudagskvöld en Skúli sagðist vona að tapið vekti menn til umhugsunar. "Ég ætla rétt að vona að það dragi okkur ekki niður heldur verði okkur þörf áminning og menn taki sig saman í andlitinu. Við verðum að mæta grimmir til leiks og ætlum okkur það."

JÓHANN G. Jóhannsson og samherjar í KA eiga erfiðan leik við Granitas Kaunas í Evrópukeppninni fyrir höndum.