Ítalir segjast ennþá
fremri á flestum sviðum
Eftir sigurinn á Englendingum á
Wembley í febrúar töldu margir Ítalir aðeins formsatriði að ljúka riðla keppninni. Annað hefur komið á daginn, tvö jafntefli á útivelli hafa sett Ítali í þá stöðu að þurfa að vinna Englendinga í Róm í dag. Hversu illa sem ítölskum knattspyrnuáhugamönnum kann að líka að vera í þessari stöðu eru þeir almennt sigurvissir, telja lið sitt mun sterkara en Englendinga.
Virðing Ítala fyrir enskri knattspyrnu hefur þó aukist til muna á því hálfa ári sem síðan er liðið, og er kannski aðalástæðan sú að Ítalir hafa gefið enskri knattspyrnu stóraukinn gaum eftir að fjöldi ítalskra leikmanna hóf að leika á Englandi, áður var umfjöllun um enska boltann nánast engin. Þeir álíta Englendinga hættulega andstæðinga. "Þeir hafa tekið stórstígum framförum í tækni og leikskipulagi," segir Gianfranco Zola, leikmaður Chelsea. "Gleymum gamla Englandi, bæði landsliðið og félagslið hafa náð góðum árangri á erfiðum útivöllum þar sem menn verða að halda haus."
"Það eru allir að tala um að við ítölsku leikmennirnir höfum bætt ensku deildina. Það er ekki rétt, Englendingar hafa séð um það sjálfir," segir Attillo Lombardo, leikmaður Crystal Palace. Sumir ítalir álíta þó þessa kappa ekki þora að segja allan sannleikann, þar sem þeir þurfi jú að standa andspænis ensku pressunni á hverjum degi. "Að mörgu leyti er ensk knattspyrna áratugum á eftir í þróun og það er oft ótrúlega auðvelt að brjóta upp leik Englendinga" segir Fabio Capello, þjálfari AC Milan. "En Glenn Hoddle er að gera góða hluti, enda var hann sem leikmaður langt á undan sinni samtíð í Englandi og veit manna best hvaða fornaldarhugsunarhátt er við að glíma."
Englendingar eru brattir og sigur Manchester United á Juventus í Meistaradeildinni hefur gefið þeim byr undir báða vængi. Ítölsku leikmennirnir telja þann leik þó ekki hafa mikið að segja og benda á að Ítölsk lið hafi sigrað ensk í 6 af síðustu 8 viðureignum auk þess sem ensk lið önnur en United hafi nú ekki sýnt mikið í fyrstu umferð Evrópukeppninnar. "Það er út í hött að draga djúpar ályktanir af sigri Manchester United," segir framherjinn Christian Vieri. "Juve fór alltof varnarlega sinnað í þann leik, nú verðum við á heimavelli og leikum maður á mann í vörnini, sem Juve gerði ekki, en slík leikaðferð hefur ævinlega reynst Englendingum erfið eins og sást best á Wembley í febrúar. Gleymum ekki að áhorfendur verða á okkar bandi og troðfullur Ólympíuleikvangurinn skýtur hraustustu mönnum skelk í bringu," segir Rómverjinn Angelo Di Livio sem leikur með Juventus.
Ítalska pressan telur að Englendingar komi ekki til með að standast álagið en að ákaflega heimskulegt væri að leyfa þeim að pakka í vörn. "Það verður að lokka þá fram á völlinn og nýta það hve mikið fljótari ítölsku framherjarnir eru en ensku varnarmennirnir," segir La Gazetta dello Sport. "Við komum til með að sækja, ég lofa ykkur því," segir landsliðsþjálfarinn Cesare Maldini en neitar þó að gefa upp hvaða sóknarmenn hann ætlar að nota. Jafnvel er talið að hann ætli að koma mikið á óvart með liðsuppstillingu sinni, nota Di Livio og Lombardo á sitt hvorum kantinum og láta Christian Vieri um að klást við hina hávöxnu ensku varnarmenn. Öruggt er að Gianfranco Zola verður fyrir aftan hann og Dino Baggio og Albertini á miðjunni. Hugsanlega verður Diego Fuser á miðjunni, hann er mun meira varnarlega sinnaður en Lombardo og Di Livio og þótt það sé ólíklegt, gæti Di Francesco, leikmaður AS Roma, fengið eldskírn sína en hann hefur leikið frábærlega undanfarið.
Uppstilling varnarinnar veltur mikið á því hvort Ciro Ferrara verður heill, en Parma leikmaðurinn Bennarivo kemur annars í hans stað og leikur við hlið félaga síns Cannavaro og Milan tvíeykisins Costacurta og Maldini. "Lið okkar á kost á mun fjölbreytilegri uppstillingu en hið enska. Við erum með fljóta og reynda leikmenn og við förum síst af öllu að fara á taugum þótt ekki takist að brjóta ísinn snemma leiks. Hér verða engin 80.000 manns að hrópa England-England eins og síðast og ekki kiknuðum við undan því. Við ættum að þola þetta," sagði Cesare Maldini landsliðsþjálfari við fréttamenn í æfingabúðum landsliðsins í Flórens og sagðist ekkert meira hafa að segja. Ítalir myndu tala á leikvellinum.
Einar Logi
Vignisson
skrifar