Vestmannaeyjum-Slökkvilið Vestmannaeyja var tvívegis kallað út á fimmtudag en afar sjaldgæft er að liðið sé kallað út tvisvar sama daginn. Um klukkan tvö eftir hádegi var Slökkviliðið kallað að húsinu við Skólaveg 31 en þar var þá mikill reykur á neðri hæð.

Tvö útköll

sama dag

hjá slökkvi-

liðinu í Eyjum Vestmannaeyjum - Slökkvilið Vestmannaeyja var tvívegis kallað út á fimmtudag en afar sjaldgæft er að liðið sé kallað út tvisvar sama daginn. Um klukkan tvö eftir hádegi var Slökkviliðið kallað að húsinu við Skólaveg 31 en þar var þá mikill reykur á neðri hæð. Ragnar Baldvinsson varaslökkviliðsstjóri sagði að mikinn reyk hefði lagt frá íbúðinni er liðið kom á staðinn en engan eld var að sjá. Við athugun kom í ljós að verið var að standsetja íbúðina og var olíukyntur blásari notaður til að kynda upp. Reykurinn í íbúðinni stafaði frá bilun í blásaranum og urðu engar skemmdir á húsnæðinu. Klukkan fimm síðdegis var slökkviliðið kallað út aftur. Mikinn reyk lagði þá frá trollbátnum Baldri sem lá í Friðarhöfn. Að sögn Ragnars var brúin læst og varð að brjótast inn í hana til að kanna aðstæður. Enginn hiti var í bátnum, einungis mikill reykur og sviðalykt, og við athugun kom í ljós að díóðubretti í vélarrúmi hafði brunnið og rafmagnskaplar sviðnað og bráðnað. Tjón var óverulegt. Ragnar sagði að mjög óvenjulegt væri að tvö útköll kæmu á sama degi því yfirleitt liðu vikur og jafnvel mánuðir á milli útkalla. Til dæmis hefðu verið komnir nokkrir mánuðir frá síðasta útkalli þegar fyrra útkallið á fimmtudaginn kom. Hann sagði að margir slökkviliðsmenn hefðu því verið allt að því vantrúaðir á að það væri aftur útkall þegar seinna útkallið kom. "Þetta var þó bara lítið í báðum tilfellum, sem betur fer, og vonandi líða einhverjir mánuðir áður en við verðum kallaðir út næst," sagði Ragnar. Morgunblaðið/Sigurgeir Jónasson SLÖKKVILIÐSMENN við störf um borð í Baldri VE í Friðarhöfn í Eyjum.