Kiwanismenn gáfu tölvur
í grunnskólana í Eyjum
Vestmannaeyjum - Kiwanisklúbburinn
Helgafell í Vestmannaeyjum færði grunnskólunum í Eyjum veglega gjöf fyrir skömmu. Afhending gjafarinnar fór fram í tölvuveri Hamarsskólans að viðstöddum fulltrúum Kiwanisklúbbsins og grunnskólanna.
Guðmundur Jóhannsson, forseti Helgafells, flutti stutt ávarp og afhenti gjöfina. Hann sagði að í tilefni 30 ára afmælis klúbbsins hefði verið ákveðið að gefa tíu tölvur með tilheyrandi búnaði í grunnskólana í Vestmannaeyjum, fimm í Hamarsskóla og fimm í barnaskólann. Hann sagði að einkunnarorð þeirra Kiwanismanna undanfarið hefði verið Börnin fyrst og fremst, og því hafi þeim þótt vel við hæfi að gera eitthvað fyrir börnin nú á þessu afmælisári klúbbsins. Tölvurnar sem gefnar voru eru allar af Hyundai-gerð, pentíum-vélar með öllum nauðsynlegum fylgibúnaði og forritum og er verðmæti gjafarinnar 1,6 milljónir króna.
Guðmundur sagði að fé til kaupa á þessum tækjum hefði fyrst og fremst verið aflað með sölu sælgætis fyrir jólin. Hann sagði að bæjarbúar tækju alltaf vel á móti Kiwanismönnum þegar þeir seldu sælgætið og það væri því öflugur stuðningur bæjarbúa sem gerði þeim Kiwanismönnum kleift að gefa þessa gjöf.
Að loknu ávarpinu afhenti Guðmundur fulltrúum barnaskólans og Hamarsskóla gjafabréf til staðfestingar á gjöfinni.
Halldóra Magnúsdóttir, skólastjóri Hamarsskóla, þakkaði Kiwanismönnum glæsilega gjöf og sagði að með henni væri nýtt og stórt skref stigið fram á við í tölvumálum skólanna. Þessi gjöf opnaði möguleikann á að fara að koma tölvu fyrir í hverri kennslustofu, en að því væri stefnt.
Jóna Ólafsdóttir, yfirkennari í barnaskólanum, tók undir orð Halldóru og þakkaði fyrir hönd barnaskólans en að því loknu flutti Sigurður Símonarson, skólamálafulltrúi, ávarp og þakkaði gjöfina og framtak Kiwanismanna. Hann sagði að ljóst væri að framtak þeirra væri lofsvert og bæri vott um það að þeir ynnu eftir kjörorði sínu: Börnin fyrst og fremst.
Morgunblaðið/Sigurgeir Jónasson Guðmundur Jóhannsson, forseti Helgafells, afhendir Jónu og Halldóru gjafabréf til staðfestingar tölvugjöfinni.