Ekki forsenda fyrir
að nýta forkaupsrétt
ÚRSKURÐAÐ hefur verið af landbúnaðarráðuneytinu að hreppsnefnd Eyjafjarðarsveitar hafi ekki
verið heimilt að neyta forkaupsréttar á jörðinni Möðrufelli í Eyjafjarðarsveit. Forkaupsrétturinn hefur því verið numinn úr gildi. Flest bendir því til að upphaflegur samningur um kaup á jörðinni standi.
Mál þetta er þannig til komið að Matthías Eiðsson, hrossabóndi á Brún við Akureyri, gerði kaupsamning við eiganda Möðrufells. Meirihluti hreppsnefndar Eyjafjarðarsveitar samþykkti að neyta forkaupsréttar og ganga inn í kauptilboðið. Í framhaldi af því seldi hún Valdimari Jónssyni jörðina. Hreppsnefndin færði þau rök fyrir afstöðu sinni að með þessu væri hún að tryggja að áfram yrði stundaður kúabúskapur á jörðinni, en Matthías áformaði að selja mjólkurkvótann og hefja hrossabúskap á jörðinni.
Áður en hreppsnefndin gekk inn í tilboðið hafði Matthías selt jörð sína, Brún við Akureyri, í trausti þess að hann gæti flutt hross sín að Möðrufelli. Matthías taldi á sér brotið og kærði málið til landbúnaðarráðuneytisins sem hefur nú fellt þann úrskurð að ekki hafi löglega verið staðið að málum af hálfu hreppsnefndar.
Guðmundur Bjarnason landbúnaðarráðherra segir að þau skilyrði, sem jarðalög setja fyrir því að hreppsnefnd megi neyta forkaupsréttar, hafi ekki verið fyrir hendi í málinu. Efnislega séu þau um að forkaupsréttar megi aðeins neyta ef horfur séu á að landbúnaður leggist af á jörðinni eða að byggð leggist af á henni. Þessu hafi ekki verið til að dreifa í þessu máli.
Birgir Þórðarson, oddviti Eyjafjarðarsveitar, segir að hreppsnefndin komi saman til fundar mjög fljótlega og ekkert sé hægt að segja um viðbrögð hennar við úrskurðinum fyrr en eftir fundinn.