Kveikt í
skúr við
Hverfisgötu
GRUNUR leikur á að kveikt hafi
verið í geymsluskúr á baklóð á Hverfisgötu 89 á sjöunda tímanum í gærkvöldi og í bílageymsluhúsi við Vitatorg nokkru síðar.
Í skúrnum var timburdrasl en engin teljandi verðmæti, að sögn Friðriks Þorsteinssonar, varðstjóra hjá Slökkviliðinu í Reykjavík. Var skúrinn rifinn og fjarlægður af staðnum í gærkvöldi, með samþykki eiganda.
Jafnframt var borinn eldur að öðrum skúr á lóðinni en hann náði ekki að breiðast út.
Þá var slökkviliði tilkynnt um eld í bílageymsluhúsinu við Vitatorg rétt fyrir kl. hálfníu. Viðvörunar- og vatnsúðunarkerfi höfðu farið í gang og slökkt að mestu í bílnum sem kveikt var í, gömlum blæjubíl, sem hafði staðið þar um nokkurt skeið í geymslu. Bíllinn er talinn ónýtur og tveir aðrir bílar sem stóðu næstir honum eru nokkuð skemmdir. Mikill reykur var í bílageymslunni þegar að var komið og þurfti slökkvilið að reykræsta húsið.
Málin eru bæði í rannsókn en sterkur grunur er um íkveikju.
Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson