Mætti reyna auð-
lindagjald á norsk-
íslensku síldina
EINAR Oddur Kristjánsson alþingismaður sagði á Alþingi að ef menn
tryðu því að auðlindaskattur gæti verið góður í hagfræðilegu tilliti væri kannski rétt að prófa hann í veiðum á norsk-íslenska síldarstofninum.
Í umræðum um veiðileyfagjald á Alþingi á fimmtudag sagði Einar Oddur að þar sem íslenskur sjávarútvegur væri ef til vill að ná árangri í auknum fiskveiðiarði hvað varðar veiðar uppsjávarfiska, sem ekki sé um að ræða í þorskveiðum, komi e.t.v. til greina að gera tilraun með það hvort auðlindagjaldskerfi virkaði í tilfelli norsk-íslenska síldarstofnsins.
Einar sagðist enga fullvissu hafa um að þetta væri rétt skref en hann teldi réttara að gera tilraunina en standa í eilífu karpi og þá í veiðum þar sem fiskveiðistjórnunarkerfið hefði náð árangri.
"Auðlindagjald byggist á þeirri hagfræðikenningu að sé fiskveiðunum stjórnað á réttan hátt verði til fiskveiðiarður umfram það sem ella hefði orðið til og þess vegna sé eitthvað til skiptanna. Sem meginregla held ég þó að það komi best út fyrir samfélagið að þessi arður verði eftir hjá viðkomandi útgerðarfélögum. Þannig treystum við efnahagslífið best. Það er alls ekki verið að taka af útgerðinni heldur verður eitthvað til skiptanna og það er grundvöllur fyrir tiltölulega hlutlausa skattlagningu. Það er það sem þetta snýst um. Þetta snýst um hagkvæmni en ekki einhverjar upphrópanir eins og Morgunblaðið er með um eitthvert eilífðarréttlæti," sagði Einar Oddur ennfremur.
Umdeilt/12