KARL Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir að sú borg önnur hljóti að vera vandfundin sem geti hýst tíunda hluta þjóðar við drykkju og skemmtan í einu, auk þess sem afar óvenjulegt sé að flestir staðirnir séu á svo litlu svæði. Því sé ekki hægt að miða við borgir, t.d. í Bandaríkjunum eða Skandinavíu, þar sem miðborgirnar séu ekki örsmáar eins og hér.
Aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík

Þurfum að tryggja

öryggi allra

KARL Steinar Valsson, aðstoðar yfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir að sú borg önnur hljóti að vera vandfundin sem geti hýst tíunda hluta þjóðar við drykkju og skemmtan í einu, auk þess sem afar óvenjulegt sé að flestir staðirnir séu á svo litlu svæði. Því sé ekki hægt að miða við borgir, t.d. í Bandaríkjunum eða Skandinavíu, þar sem miðborgirnar séu ekki örsmáar eins og hér.

Um helgar safnast 1-5 þúsund manns saman í miðbænum eftir að skemmtistaðir loka. "Fjöldinn er mismikill og fer eftir veðri. Þá er fjölmennast um mánaðamót og þegar nýtt tímabil greiðslukorta hefst," segir Karl Steinar. "Lögreglan þarf að tryggja öryggi allra, bæði íbúa og gesta. Um 50 lögreglumenn eru á vakt um helgar og þar af eru að minnsta kosti 15 í miðbænum."

Karl Steinar segir að það sé umhugsunarefni hvernig borgin sé kynnt. "Við sölu á ferðum til Reykjavíkur er beinlínis gert út á næturlífið og erlendir fjölmiðlar fjalla sérstaklega um mannsöfnuð og drykkju í miðbænum. Ég veit ekki hvort íbúar borgarinnar eru almennt ánægðir með þessa ímynd, en lögreglan hefur áhyggjur af þessari þróun."

Lögreglan var með gönguhópa í miðbænum. "Það orkaði tvímælis, því sumir æstust upp við að sjá lögregluna. Við hopuðum því, en samt þarf að gæta þess að lögregla sé sýnileg. Nú reynum við að fylgjast vel með og kippa þeim sem eru til vandræða strax úr umferð."

Karl Steinar segir að öryggismyndavélar séu góð leið til að auðvelda lögreglu að grípa í taumana. "Ef við fáum vélar getum við bæði fylgt leiðbeiningum stjórnstöðvar og farið strax á staðinn, eða nýtt upptökur til að þekkja sökudólga eftir á, takist ekki að ná þeim strax."

Sá hópur fólks í miðbænum, sem veldur Karli Steinari mestum áhyggjum, eru 16-19 ára unglingar. "Lögreglu, Íþrótta- og tómstundaráði og Félagsmálastofnun tókst að snúa við þeirri þróun að yngra fólk væri á ferli í miðbænum á nóttunni, með því að flytja það í athvörf og láta foreldra sækja það. Hins vegar leita 16-19 ára unglingar í miðbæinn, því borgaryfirvöld hafa ekki fundið önnur úrræði fyrir þá. Þetta mál verður að skoða í samráði við foreldra. Finnst þeim eðlilegt að unglingar sæki skemmtun sína í götur miðbæjarins?"

Karl Steinar segir því fara fjarri að unglingarnir séu þeir einu sem valdi vanda. "Eldra fólk kemur ekki síður við sögu og allt tengist þetta nær undantekningalaust áfengisneyslu. Það fólk, sem kastar af sér þvagi undir næsta húsvegg og fremur skemmdarverk, er ölvað. Vandamálið liggur m.a. í því, að engin takmörk hafa verið sett við fjölda veitingastaða. Menn hafa getað farið í framkvæmdir og sótt um vínveitingaleyfið eftir á. Borgin hefur ekki staðið við að hafa blandaða byggð í miðbænum. Íbúar þar hljóta hins vegar að eiga sama rétt og aðrir íbúar borgarinnar."

Karl Steinar segir umhugsunarefni hver sé skynsamlegur afgreiðslutími veitingastaða. "Ef hann er of stuttur flyst drykkjan inn á heimilin. Ef tíminn væri frjáls myndi kannski ekki myndast þessi mikla umferð frá miðnætti, þegar fólk fer að tínast á staðina, og fram á morgun."