ÆVINTÝRIÐ um Galdrakarlinn í Oz er meðal frægustu barnabóka heims. Sagan er skrifuð um aldamótin og er eftir Lyman Frank Baum. Árið 1939 var sagan kvikmynduð með barnastjörnunni Judy Garland, sem þá var 16 ára,
SSÖNGLEIKURINN GALDRAKARLINN Í OZ Á STÓRA SVIÐI BORGARLEIKHÚSSINS "ÉG HEF Á TILFINNINGUNNI AÐ
VIÐ SÉUM EKKI LENGUR Í KANSAS"
Leikfélag Reykjavíkur frumsýnir barnasöngleikinn Galdrakarlinn í Oz á morgun, 12. október. Sagan af Dóróteu sem ferðast til landsins handan við regnbogann er eitt þekktasta ævintýrið í bandarískum barnabókmenntum en Evrópubúum síður kunnugt. HULDA STEFÁNSDÓTTIR talaði við Ástrósu Gunnarsdóttur, aðstoðarmann leikstjóra, og Sóleyju Elíasdóttur, sem fer með hlutverk Dóróteu.
ÆVINTÝRIÐ um Galdrakarlinn í Oz er meðal frægustu barnabóka heims. Sagan er skrifuð um aldamótin og er eftir Lyman Frank Baum. Árið 1939 var sagan kvik mynduð með barnastjörnunni Judy Garland, sem þá var 16 ára, í aðalhlutverki. Kvikmyndin, sem var ein sú fyrsta í lit, jók enn á vinsældir sögunnar og aðalsöguhetjan Dórótea er eflaust í hugum flestra tengd andliti Hollywood-stjörnunnar. Söngleikurinn um Galdrakarlinn í Oz var áður sýndur í Þjóðleikhúsinu 1967 í þýðingu Huldu Valtýsdóttur og með söngtextum Kristjáns frá Djúpalæk. Karl Ágúst Úlfsson hefur þýtt verkið fyrir uppfærslu Leikfélags Reykjavíkur.
Danshöfundur og leikstjóri er Kenn Oldfield og aðstoðarmaður leikstjóra er Ástrós Gunnarsdóttir. Tónlistin og söngtextarnir eru úr kvikmyndinni eftir Harold Arlen og E.Y. Harburg og leikgerðin er byggð á handriti kvikmyndarinnar eftir John Kane. Tónlistarstjóri er Sigurður Rúnar Jónsson. Leikmynd er eftir Finn Arnar Arnarson og búningar eftir Elínu Eddu Árnadóttur. Sóley Elíasdóttir fer með hlutverk Dóróteu en aðrir leikarar í sýningunni eru Ari Matthíasson, Björn Ingi Hilmarsson, Ellert A. Ingimundarson, Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir, Kjartan Guðjónsson, Margrét Helga Jóhannsdóttir og Theodór Júlíusson. Fjöldi barna og dansara taka einnig þátt í sýningunni.
Sögusvið verksins er bær í Kansas-fylki í Bandaríkjunum um aldamótin. Þar býr Dórótea með hundinum sínum, Tótó, hjá frændfólki sínu, Emmu og Hinriki, ásamt vinnumönnum. Við dagleg störf fólksins á bænum finnst Dóróteu hún vera afskipt og hana dreymir um stað þar sem alltaf er gaman, stað þar sem hún "lendir ekki í vandræðum". Hvar skyldi hann vera? spyr Dórótea. Þegar hún er á flótta undan herfunni henni fröken Albínu Gölts, sem hótar tryggum vini hennar, Tótó, öllu illu, skellur á mikið óveður og fyrr en varir er Dórótea ekki lengur í Kansas heldur á einhverjum allt öðrum stað. Og nú þráir hún ekkert meira en að komast aftur heim. Henni er sagt að aðeins galdrakarlinn í Oz geti hjálpað henni. Á leið sinni þangað eftir steinlögðu gulu götunni hittir hún svo hvert á fætur öðru fuglahræðuna, tinkarlinn og ljónið. Þau slást í för með henni til Galdrakarlsins í Oz í von um að hann geti einnig hjálpað þeim; fuglahræðan ætlar að biðja hann um heila, tinkarlinn segist vera ófær um að elska því hann hafi ekki hjarta og ljónið skortir sárlega hugrekki. Vonda Vestan-nornin er á hælum þeirra og fjórmenningarnir lenda í miklum ævintýrum á leið sinni og leit að lausn síns vanda. Við sögu koma einnig smándar, vinkar og góða nornin Glinda og það er hún sem bendir Dóróteu að lokum á að hún hafi getað komist heim allan tímann, því hún stjórni sjálf örlögum sínum. Fuglahræðan reynist búa yfir miklum gáfum og það er ekki hugleysið sem ræður ákvörðunum ljónsins heldur skynsemin. Tinkarlinn kemst að því að hjartalag er ekki dæmt eftir því hversu mikið þú elskar aðra heldur hversu mikið aðrir elska þig.
Ástrós Gunnarsdóttir hefur áður starfað sem danshöfundur og aðstoðarmaður leikstjóra hjá Þjóðleikhúsinu og Loftkastalanum. Hún tók þátt í uppsetningu á barnaleikritinu Skilaboðaskjóðan eftir Þorvald Þorsteinsson og aðstoðaði Kenn Oldfield við uppfærslu West Side Story í Þjóðleikhúsinu fyrir nokkrum árum. Kenn, sem er Breti, hefur einnig leikstýrt hér á landi söngleiknum Chicago og samið dansa við fjölda sýninga, nú síðast í verki Benónýs Ægissonar, Hinu ljúfa lífi, sem verið er að sýna í Borgarleikhúsinu. Þá hefur hann langa reynslu af leikhúsvinnu í heimalandi sínu. Ástrós segir að tónlistin skipi stóran sess í þessari uppfærslu á Galdrakarlinum í Oz og mikið sé því um dans og söng.
Eins og í öllum sönnum ævintýrum fjallar verkið um baráttu góðs og ills. "Dórótea er svo hugrökk," segir Sóley. "Eftir að hún hefur gert sér grein fyrir að hún vill bara komast heim, þá er það kjarkur hennar sem drífur fjórmenningana áfram í för sinni til Galdrakarlsins." Ástrós tekur undir með Sóleyju og segir að Dórótea boði fólki bjartsýni og sjálfstraust. Í upphafi finnst Dóróteu fullorðna fólkið í fyrsta sinn hafa brugðist sér og hún gerir sér grein fyrir að fullorðna fólkið er ekki fullkomið og að það geta komið upp aðstæður sem þau ráða ekki við frekar en börnin. Henni finnst lífið andstyggilegt og flýr inn í draumaveröld þar sem allt virðist gott í fyrstu. "Boðskapur verksins er "heima er best" og að þú þurfir ekki að leita langt yfir skammt til þess að finna hamingju," segir Sóley. "Það sem skiptir mestu máli er að vera með þeim sem manni þykir vænst um."
Morgunblaðið/Ásdís DÓRÓTEA (Sóley Elíasdóttir) og vinir hennar fuglahræðan (Ellert A. Ingimundarson), tinkarlinn (Björn Ingi Hilmarsson) og ljónið (Kjartan Guðjónsson). Leiðin til Galdrakarlsins í Oz er þyrnum stráð.
VESTAN-NORNIN (Margrét Helga Jóhannsdóttir) ásælist töfraskó Dóróteu og er staðráðin í að ná þeim af henni.
VINIRNIR sitja ráðþrota á tröppum hallarinnar í Oz eftir að þeim hefur verið meinaður aðgangur.