MEÐLIMUM í heimsbókmenntaklúbbi Máls og menningar gefst nú kostur á því að fá fyrstir allra nýjustu skáldsögu eins þekktasta höfundar samtímans, Milans Kundera, því útgáfan í heimsbókmenntaklúbbnum er sú fyrsta í heiminum.

ÍSLENSK HEIMSFRUMÚTGÁFA

Á NÝRRI SKÁLDSÖGU KUNDERA

MEÐLIMUM í heimsbókmenntaklúbbi Máls og menningar gefst nú kostur á því að fá fyrstir allra nýjustu skáldsögu eins þekktasta höfundar samtímans, Milans Kundera, því útgáfan í heimsbókmenntaklúbbnum er sú fyrsta í heiminum. Bókin heitir Óljós mörk og kemur fyrst út í íslenskri þýðingu Friðriks Rafnssonar, hún kemur bráðlega út á Ítalíu, Ungverjalandi, Japan og í fleiri löndum en á frummálinu, sem er franska, kemur hún ekki fyrr en í janúar en það er Gallimard sem gefur hana út í Frakklandi.

Óljós mörk fjallar um þau Chantal og Jean-Marc sem búsett eru í París. Þau eru komin á fimmtugsaldur, hafa verið í ástríkri sambúð í nokkur ár og telja sig þekkja hvort annað út og inn. Hann hefur fengist við ýmislegt í gegnum tíðina, hún vinnur á auglýsingastofu. Dag nokkurn skreppur hún ein í stutta gönguferð í smábæ við strönd Normandíhéraðs í Norður-Frakklandi. Þá fær hún skyndilega á tilfinninguna að aðdráttarafl hennar fari þverrandi, að karlmenn séu hættir að snúa sér við úti á götu og horfa á eftir henni. Hún tekur með öðrum orðum eftir því að hún er komin á breytingaskeiðið. Þar með hefst æsileg atburðarás sem verður því undarlegri, hraðari og óhugnanlegri sem lengra líður á söguna.

Í sögunni tekst Kundera á við spurningar eins og þá hvað það sé sem greini eina manneskju frá annarri og hvar mörk ímyndunar og veruleika liggi.

Friðrik Rafnsson hefur þýtt margar bækur Kundera á íslensku en nýverið var hann tilnefndur til Evrópsku bókmenntaverðlaunanna fyrir þýðingu sína á skáldsögunni Jakob forlagasinni og meistari hans eftir Denis Diderot.

Skáldsögunni Óljós mörk verður dreift í heimsbókmenntaklúbbnum í næstu viku en fer á almennan markað í lok mánaðarins.

Ljósmynd/Aron Manheimer Milan Kundera