SEÐILL, SKÍÐI, SKÍÐGARÐ-
UR OG SKITSÓFRENÍA
EFTIR SÖLVA SVEINSSON
SEÐILL er oftast notaður í
merkingunni peningar, peningaseðill , en orðið þýðir líka pappírssnepill, miði . Seðill á danskt heimilisfang, seddel , en Danir lærðu að segja svo suður í Þýskalandi, sedele er til í gamalli þýsku. Þetta rek ur sig suður til Ítalíu, til Rómar. Cedula var til í seinni tíma latínu, en það er búið til úr schedula og er smækkunarorð úr scheda sem Rómverjar notuðu í merkingunni papýrusræma, (klofið) tréspjald . Orðið er bergmál af grísku sögninni skitsein sem þýðir að kljúfa. Skíði eru auðvitað ekkert annað en klofinn viður sem er höggvinn og sveigður á tiltekinn hátt! Í fornum sögum er getið um skíðgarða , en það eru háar trégirðingar umhverfis hús þar sem borð, klofin úr trjástofni, eru lögð hlið við hlið upp á endann.
Enska orðið schedule er af þessu dregið, merkir meðal annars áætlaður tími brottfarar eða komu. Lestir og flugvélar hafa schedule, enda er búið að kljúfa stundirnar niður í mínútur og setja á skilti, spjald og þó einkum tölvuskjá í nútímabiðsölum.
Af grísku sögninni skitsein er sjúkdómsheitið skitsófrenía leitt, enda er hugur hins sjúka klofinn; geðklofi er sjúkdómurinn kallaður á íslensku.
Höfundurinn er cand. mag. í íslensku.