MÉR líður eins og manni sem þröngvað hefur verið fram á bjargbrún og sagt að slappa af," segir David Freeman við ljósmyndara Morgunblaðsins sem stillt hefur honum upp til myndatöku á sviði Íslensku óperunnar. Sennilega er þessum ástralska leikhúsmanni vel lýst með þessum orðum hann kann best við sig að tjaldabaki, fjarri skarkala sviðsljóssins.
HEIMS-VÆÐING LISTARINNAR
Í Íslensku óperunni er það mál manna að ferskir vindar leiki um húsið í kjölfar komu Davids Freemans, leikstjóra Mozart-óperunnar Cosi fan tutte, sem frumsýnd var í gærkvöldi. ORRI PÁLL ORMARSSON fór að finna þennan ástralska leikhúsmann sem talar enga tæpitungu þegar listin er annars vegar. MÉR líður eins og manni sem þröngvað hefur verið fram á bjargbrún og sagt að slappa af," segir David Freeman við ljósmyndara Morgunblaðsins sem stillt hefur hon um upp til myndatöku á sviði Íslensku óperunnar. Sennilega er þessum ástralska leikhúsmanni vel lýst með þessum orðum hann kann best við sig að tjaldabaki, fjarri skarkala sviðsljóssins. Þar lætur hann á hinn bóginn til sín taka, svo um munar, eins og starfsfólk Íslensku óperunnar hefur orðið vitni að undanfarið og gestir hússins eiga eftir að kynnast á næstu vikum.
Freeman er sigldur maður. Hann stofnaði og stýrði Opera Factory í Sydney árin 197376, áður en hann flutti sig um set til Evrópu. Setti hann samnefnt fyrirtæki á laggirnar í Zürich í Sviss árið 1976 og í Lundúnum sex árum síðar. Hefur hann leikstýrt á fimmta tug verka, óperum og leikritum, undir merkjum fyrirtækjanna, víðsvegar um Evrópu. Þá hefur hann fært fjölda verka upp í Ensku þjóðaróperunni, þar sem Otello eftir Giuseppe Verdi verður næsta verkefni hans, og fleiri kunnum húsum í Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi.
Fyrir fáeinum árum leikstýrði Freeman verki Prokofievs, The Fiery Angel, við Kirovleikhúsið í Pétursborg og hefur sú sýning einnig verið sýnd í Covent Garden í Lundúnum, Metropolitan í New York og víðar. Síðasta verkefni Freemans var að leikstýra The Winters Tale, öðru tveggja verka sem frumsýnd voru við opnun The Globe í Lundúnum. Vakti sú sýning heimsathygli.
En hvað varð til þess að leikstjórinn ákvað að taka að sér verkefni hjá Íslensku óperunni? "Mig hafði alltaf langað að koma til Íslands, sennilega fyrir þær sakir að Ástralir geta vart hugsað sér framandlegra land. Og þegar Garðar Cortes óperustjóri hafði samband við mig í sumar, daginn eftir að hætt hafði verið við fyrsta verkefni mitt á þessu hausti í Bretlandi, varð mér ljóst að örlögin höfðu gripið í taumana! Síðan er Garðar náttúrulega ákaflega heillandi og sannfærandi maður."
Góður andi í Íslensku óperunni
Freeman segir að Íslenska óperan hafi svo sannarlega ekki valdið sér vonbrigðum. "Húsið er vissulega smátt í sniðum og sviðið býður ekki upp á marga möguleika. Andinn í Íslensku óperunni er aftur á móti góður og það skiptir ekki svo litlu máli. Síðan er það gömul saga og ný að listrænn metnaður fólks getur flutt fjöll og það dylst engum að Garðar Cortes og hans fólk hefur lyft grettistaki í óperumálum Íslendinga; það er afrek að halda úti jafn öflugri óperu í ekki stærra samfélagi."
Freeman hælir Íslensku óperunni jafnframt fyrir víðsýni. "Þar á bæ eru menn bersýnilega óragir við að brydda upp á nýjungum kanna ný lönd, eins og ráðning erlends leikstjóra gefur til kynna. Hvað mig varðar fólst áskorunin fyrst og fremst í því að vinna með nýju fólki fólki sem er staðráðið í að standa sig. Að starfa með slíku fólki getur einungis gert manni gott gildir þá einu hvort húsið heitir Covent Garden eða Íslenska óperan!"
Og Freeman getur ekki setið á sér að lofsyngja söngvarana sex sem taka þátt í Cosi fan tutte, Sólrúnu Bragadóttur, Bergþór Pálsson, Ingveldi Ýr Jónsdóttur, Loft Erlingson, Þóru Einarsdóttur og Björn Jónsson. "Maður getur ekki annað en dáðst að hæfni og metnaði þessa fólks, því þegar öllu er á botninn hvolft búa ekki nema 270 þúsund manns á Íslandi. Úrvalið er mun minna hjá mörgum þjóðum sem eru margfalt stærri."
Söngvurunum varð tíðrætt um óhefðbundnar vinnuaðferðir Freemans í viðtali í síðustu Lesbók Morgunblaðsins. Hvað hefur leikstjórinn um þær að segja? "Staðreyndin sem liggur til grundvallar mínum vinnubrögðum er sú að í öllum uppfærslum geta gæðin verið misjöfn milli sýninga stundum tekst leikurunum vel upp, stundum ekki. Sýningin getur verið frábær eitt kvöld, afleit það næsta. Þetta hefur ekkert með hreyfingar, textaflutning eða söng að gera heldur spuna. Þess vegna hefst æfingaferlið hjá mér alltaf á spuna á að virkja sköpunarþrótt leikaranna. Textinn kemur síðar, alveg eins og hjá höfundinum. Hann fær jú hugmyndina fyrst síðan byrjar hann að skrifa.
Að sögn Freemans hangir líkamsræktin saman við þetta en söngvararnir sex höfðu á orði í fyrrnefnu viðtali að hún hefði verið stíft stunduð á æfingatímanum. "Þetta er mjög líkamlega erfið sýning og það segir sig því sjálft að menn þurfa að vera vel á sig komnir til að komast skammlaust í gegnum hana. Svona hraðar sýningar eru tiltölulega nýjar af nálinni í óperuheiminum og þegar ég setti fyrst upp sýningu af þessu tagi í Ensku þjóðaróperunni árið 1981 virtist enginn hafa gert nokkuð þessu líkt áður. Enda varð fjandinn laus. Nú er öldin önnur enda er fólk almennt orðið sér miklu betur meðvitandi um mikilvægi þess að hreyfa sig."
Dæmalaust gamaldags í hugsun
Því fer fjarri að Freeman sé að koma að Cosi fan tutte í fyrsta sinn, þótt hann hafi ekki í annan tíma sett óperuna upp fyrir aðra en Opera Factory. Fyrst leikstýrði hann Cosi í Sviss fyrir hálfum öðrum áratug og síðar í Lundúnum, þar sem sýningin gekk svo árum skipti og var að lokum kvikmynduð fyrir sjónvarp. "Fyrir sex árum setti ég Cosi hins vegar til hliðar og hafði ekkert frekar hugsað mér að koma nálægt verkinu aftur. En svona geta hlutirnir æxlast."
Það orð fer af útgáfu Freemans á Cosi fan tutte að hún sé nýstárleg og eflaust hefur einhverjum frumsýningargestinum brugðið í brún í gærkvöldi að sjá Fiordiligi og hinar söguhetjurnar spóka sig á baðfötum. "Sumum þykir ég draga upp róttæka og nútímalega mynd af Cosi og því verður ekki mælt í mót að fyrri uppfærslur mínar á verkinu hafa verið umdeildar. Þetta þýðir aftur á móti ekki að við hjá Opera Factory séum einhverjir framúrstefnumenn þvert á móti erum við dæmalaust gamaldags í hugsun; að okkar mati snýst leikhúsið um samvinnu fólks og sköpun. Við leggjum með öðrum orðum höfuðáherslu á innihaldið en ekki umbúðirnar. Því er hins vegar ekki að leyna að það er ekkert í handriti Cosi sem múlbindur verkið við ofanverða átjándu öldina og hvers vegna í ósköpunum ættum við ekki að færa okkur það í nyt?"
Að áliti Freemans er engin óperuuppfærsla hnökralaus. Hann kveðst hins vegar hæstánægður með árangurinn í Íslensku óperunni enda hafi vinnuskilyrðin verið til fyrirmyndar. "Það eina sem ég hefði viljað breyta er tungumálið ég hefði kosið að óperan yrði sungin á íslensku en ekki ítölsku. Fram á sjöunda áratug þessarar aldar voru óperur yfirleitt sungnar á móðurmáli þjóðanna sem settu þær á svið en eftir að hljóðritanir færðust í vöxt hefur frummálið tekið völdin. Þegar stórstjörnur taka þátt í óperusýningu í stóru húsi hafa þær hljóðritanir, geislaplötur, alltaf í huga og kjósa því frummálið til að höfða til breiðari hóps. Þetta viðhorf hefur smitað út frá sér enda er, eins og gefur að skilja, lítill markaður fyrir upptökur af ítölskum óperum ef þær eru sungnar á þýsku. Frá sjónarhóli markaðarins er þetta því skiljanlegt, en hvað með áhorfendur, eiga þeir ekki heimtingu á að skilja hvað söngvurunum fer á milli á sviðinu og þá á ég ekki við texta sem varpað er upp á skjá?"
Efnishyggjan baggi á listinni
Freeman tekur meira að segja svo djúpt í árinni að halda því fram að efnishyggjan sé orðin baggi á listinni. "Fólk hefur meiri áhuga á að kaupa list en skapa hana nú á dögum. "Því meira fé sem ég legg í verkefnið, þeim mun áhugaverðara og betra hlýtur það að verða!" Þetta er vitaskuld fásinna."
Næsta verkefni Freemans er að leikstýra eigin leikgerð á And the Snake Sheds its Skin eftir Gilgamesh á vegum Opera Factory með dægurtónlist eftir afrískt tónskáld. "Sú staðreynd að nútímaleikhúsið hunsar nær undantekningarlaust dægurtónlist færir okkur heim sanninn um það hve aftarlega það er orðið á merinni enda hefur leikhúsið ekki í annan tíma virt dægurtónlist síns tíma að vettugi. Þessu er mál að breyta og ástæðan fyrir því að ég leita til Afríku er sú að dægurtónlist stendur óvíða í meiri blóma en í löndum á borð við Senegal og Malí."
Freeman fullyrðir að And the Snake Sheds its Skin verði hugsanlega síðasta verkefni Opera Factory í Englandi um sinn að minnsta kosti. "Ég er búinn að reka þetta fyrirtæki í fimmtán ár og róðurinn verður sífellt þyngri. Bresk stjórnvöld sýna starfsemi af þessu tagi einfaldlega ekki skilning. Þess vegna hef ég unnið svona mikið í stærri húsum til að draga fram lífið."
Engu að síður óttast Freeman ekki um framtíð frjálsra leikhópa og fyrirtækja í leiklist, þar sem aðlögunarhæfni þeirra sé meiri en stóru ríkisreknu leikhúsanna. "Leikhúsið, sérstaklega óperan, verður að laga sig að breyttum aðstæðum. Hún má ekki festast í þeirri trú að öll sköpun hafi dáið með Puccini eða Britten. Og þótt fyrirtæki eins og Opera Factory hafi hugsanlega verið ótímabær tilraun til að lífga óperuna við mun koma að því að hún stígur skrefið til fulls inn í nútímann og jafnvel framtíðina! Óperan verður að halda áfram að þróast annars býður hennar það ömurlega hlutskipti að verða að "safnmenningu"."
Foreldrarnir óstöðvandi
Freeman er einnig þess sinnis að hin vestræna ópera verði að líta í kringum sig til annarra heimsálfa. Ekki síst þar sem menningarlegt frumkvæði hins vestræna heims sé liðin tíð og því fyrr sem við opnum dyrnar fyrir framandi straumum og stefnum, þeim mun betra. "Heimurinn hefur tekið stakkaskiptum á mjög skömmum tíma. Afturhaldssemi og einangrunarstefna eru úrelt hugmyndafræði sem fólk sættir sig ekki við lengur og fyrir vikið verða listmenn, sem aðrir, að temja sér víðsýni annars heltast þeir úr lestinni. Foreldrar mínir voru um sextugt þegar þeir fóru í sína fyrstu utanlandsferð á sínum tíma, sem þótti ekkert afbrigðilegt í Ástralíu á sínum tíma. Hvar er ég nú? Að leikstýra á Íslandi og foreldrum mínum halda engin bönd, þótt þeir séu komnir á níræðisaldurinn!"
Heimsvæðing listarinnar mætti kalla þennan draum. En þróunin er ekki eins hröð og Freeman hefði kosið. "Gróskan á hinum ýmsu sviðum samfélagsins er gríðarleg. Listin er á hinn bóginn ekki þar með talin, því miður, og ég sem hélt að hún ætti að vera í fararbroddi vísa öðrum veginn. Í dag eru bílaframleiðendur á borð við Volvo öflugri brautryðjendur en flest leikhús og óperur, svo dæmi sé tekið. Hugmyndaflug þeirra er auðugra. Guð sé oss næstur!"
Morgunblaðið/Árni Sæberg "LEIKHÚSIÐ, sérstaklega óperan, verður að laga sig að breyttum aðstæðum. Hún má ekki festast í þeirri trú að öll sköpun hafi dáið með Puccini eða Britten," segir David Freeman.