STEFNU VEGNA
GUÐLASTS HAFNAÐ
Melbourne. Reuter.
DÓMSTÓLL á Ástralíu hefur komist að þeirri
niðurstöðu að ekki beri að banna listasafni að sýna fræga ljósmynd eftir Andres Serrano, sem sýnir líkneski af krossfestingu Krists á kafi í þvagi. Litið er á þennan úrskurð sem sigur fyrir Serrano, sem einnig hefur verið stefnt fyrir ósiðsemi í Bandaríkjunum og Hollandi.
Katólska kirkjan í Melbourne á Ástralíu reyndi í þessari viku að fá dómstóla til að banna "Hlandkrist" eftir Serrano, en verk þetta er vel þekkt og hefur verið notað á Bandaríkjaþingi til að færa rök að því að ríkið eigi ekki að styðja listir með fjárveitingum.
Sagði kirkjan að ljósmyndin væri bæði dónaleg og guðlast og því ætti hún ekki að vera meðal verka á sýningu, sem nefnist "Saga Andres Serranos" og hefst í dag í Viktoríu-listasafninu í Melbourne.
Sýningin hefur verið sögð "sláandi og ögrandi" og safnið hefur fallist á að setja upp viðvörunarskilti. Börnum verður meinaður aðgangur.
David Harper, dómari í hæstarétti Viktoríuríkis, sagði þegar hann hafnaði stefnu katólsku kirkjunnar á fimmtudag að dómstólar ættu ekki að fást við hluti á borð við guðlast.
"Þjóðfélagi á borð við Ástralíu okkar daga farnast best ef meiðyrðamál vegna guðlasts íþyngja ekki dómskerfinu," sagði hann. "Gagnkvæm virðing trúarbragða og menningarheima er slík og getan til að taka gagnrýni og jafnvel háðsglósum það mikil að menn þurfa ekki að móðgast, enda ekki ætlunin að móðga."
LJÓSMYND Serranos sem verður ekki bannað að sýna.