ERNESTO Zedillo, forseti Mexíkó, snéri heim í gær vegna náttúruhamfara er orðið hafa að minnsta kosti 143 að bana í suðurhluta landsins. Zedillo var í opinberri heimsókn í Þýskalandi, en frestaði henni síðdegis í gær. Fellibylurinn Pálína hefur valdið mannskæðum náttúruhamförum í ríkjunum Guerrero og Oaxaca á Kyrrahafsströnd Mexíkó. Fregnir hermdu í gær að hundraða manna væri enn saknað.
Fellibylurinn Pálínaverður 143 að bana
Bonn, Acapulco. Reuters.
ERNESTO Zedillo, forseti Mexíkó, snéri heim í gær vegna náttúruhamfara er orðið hafa að minnsta kosti 143 að bana í suðurhluta landsins. Zedillo var í opinberri heimsókn í Þýskalandi, en frestaði henni síðdegis í gær. Fellibylurinn Pálína hefur valdið mannskæðum náttúruhamförum í ríkjunum Guerrero og Oaxaca á Kyrrahafsströnd Mexíkó. Fregnir hermdu í gær að hundraða manna væri enn saknað.
Veðrið varð hvað verst í borginni Acapulco síðla á fimmtudag (í fyrrinótt að íslenskum tíma), en borgin er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Í gær höfðu fundist yfir 100 lík, en margra manna var saknað. Mexíkóskir fjölmiðlar greindu frá því, að um tíu þúsund manns væru heimilislausir og nær ekkert drykkjarvatn væri að hafa í Acapulco. Um ein milljón manna býr í borginni.
Veðurfræðingar sögðu á fimmtudagskvöld að vindstyrkur Pálínu hefði minnkað og væri hún nú skilgreind sem hitabeltisstormur. Sögðu veðurfræðingar að búast mætti við að Pálína bærist aftur út yfir sjó og myndi eflast aftur í fellibyl.
Reuters ÍBÚI í Acapulco tekur mynd af eyðileggingunni á bílastæði símafyrirtækis þar í borg. Gífurlegar skemmdir urðu og mikið manntjón er fellibylurinn Pálína gekk yfir Mexíkó.