Valborg Hjálmarsdóttir
Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins
degi, hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist
eigi, og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.
(Ingibj. Sig.) Elsku amma.
Hugurinn reikar til baka til allra
ánægjustundanna sem við áttum saman. Það var alltaf gott að hafa þig hjá sér og er okkur minnisstætt er þú dvaldir hjá okkur á Daufá er við vorum litlar. Þú stjórnaðir búi er foreldrar okkar fóru í bændaför til Kanada. Þá fann maður hve þú unnir sveitinni og hafðir ánægju af því að vera í búskapnum með okkur. Þá var tíminn fljótur að líða og alltaf áttir þú auðvelt með að sjá spaugilegu hliðarnar á hlutunum til að gleðja aðra. Sveitin var þér ætíð svo hugleikin að allt fram á síðasta dag spurðir þú ávallt "hvernig gengur í sveitinni".
Það var alltaf svo gott að koma til þín á Skólastíginn. Gestrisni þín var einstök. Alltaf var borðið hlaðið af kaffibrauði og helst átti að smakka á öllu og minnumst við sérstaklega þinna einstöku ástarpunga sem enginn gerði betur en þú.
Önnur okkar varð þeirrar gæfu aðnjótandi að dvelja hjá þér er við vorum við nám í fjölbrautaskólanum. Þá sýndir þú hve annt þér var um velferð okkar. Þú baðst til Guðs í bænum þínum að okkur gengi vel er við vorum í prófum og sást til þess að okkur liði sem best. Þú varst okkur líka svo mikil stoð og styrkur er faðir okkar lést rétt fyrir jólin 1981. Það var okkur mjög erfiður tími en þú fékkst okkur til að sjá ljósið og halda áfram. Enda þekktir þú af eigin raun að missa föður ung að aldri og þá miklu erfiðleika sem í þá daga voru er fjölskyldum var splundrað og börnunum komið fyrir í sveitunum. En alltaf þakkaðir þú, þrátt fyrir mikla erfiðleika, fyrir að geta verið hjá móður þinni. Þú varst alltaf svo ákveðin og sterk þrátt fyrir brekkur lífsins.
Elsku amma, það er af svo mörgu að taka. Þú hafðir alveg einstaklega gaman af að spila félagsvist og oft var slegið í borðið er spilið var sett út og spennan var mikil. Já, mikið er búið að spila og hlæja á dvalarheimilinu og var spilað og spilað og ekkert gefið eftir. Það þýddi ekkert að vera að spila og hugsa um eitthvað annað. Nei, allt sem þú gerðir, gerðir þú vel og af heilum hug. Minninguna um þig, elsku amma, munum við geyma í hjarta okkar um alla ókomna framtíð.
Amma kær, ert horfin okkur hér
en hlýjar bjartar minningar streyma
um hjörtu þau, er heitast unnu þér,
og hafa mest að þakka, muna og geyma.
Þú varst amma yndisleg og góð,
og allt hið mesta gafst þú hverju sinni.
Þinn traustur faðmur okkur opinn stóð,
og ungar sálir vafðir elsku þinni.
Þú gættir okkar, glöð við undum hjá,
þær góðu stundir blessun, amma kæra,
nú hinstu kveðju hjörtu okkar tjá,
í hljóðri sorg, og ástarþakkir færa.
(Ingibj. Sig.) Far þú í friði og hafðu þökk fyrir allt og allt.
Þínar sonardætur,
Efemía og Sigríður Valgeirsdætur.