Valborg Hjálmarsdóttir Með fáeinum línum langar mig að minnast elskulegrar ömmu minnar, Valborgar Hjálmarsdóttur frá Tunguhálsi í Lýtingsstaðahreppi. Á kveðjustund leitar hugurinn til baka þegar ég sit og hugsa og allar góðu minningarnar koma upp í hugann. Mér hlýnar um hjartaræturnar þegar ég hugsa um hversu vel þú reyndist öllum, bæði mönnum og dýrum. Ég var aðeins nokkurra ára þegar ég var send í sveitina til þín er afi kom í kaupstaðarferð til Akureyrar og ég fór með honum til baka og sumrin á Tunguhálsi urðu fleiri og fleiri og ég hlakkaði alltaf jafn mikið til að koma til þín. Amma mín, ég man alltaf hvað þér þótti vænt um dýrin þín öll, kýrnar, hestana Blesa, Rauð, Litla Rauð og Grána og svo hundana og hænurnar. Þetta voru allt eins og góðir vinir þínir og ef farga þurfi einhverjum skepnum baðst þú þeim Guðs blessunar. Í eldhúsinu dvaldir þú oftast við matargerð og bakstur og í búrinu var alltaf tunna með slátri sem gott var að komast í og fá sér mysu þegar heitt var í veðri og við vorum úti á túni að hamast í heyskapnum. Á sumrin var gestagangur mikill á Tunguhálsi og þú tókst á móti öllum af rausnarskap og hlýju og lagðir þig fram um að allt það besta væri borið fram. Á haustin þegar göngur nálguðust varst þú í nokkra daga að útbúa nesti handa gangnamönnunum, baka og sjóða og allt var sett í töskur sem settar voru á hestbak og smalahundunum gleymdir þú ekki, þeir fengu sérstakt nesti.

Amma giftist Guðjóni Jónssyni bónda og bjuggu þau rausnarbúi á Tunguhálsi og þótti þeim báðum mjög vænt um jörðina sína. Því voru það þung spor er þau í sameiningu tóku þá ákvörðun að flytja á Sauðárkrók og eftirláta sonum sínum tveim jörðina, en amma bar sínar sorgir í hljóði. Amma og afi voru mjög samtaka með allar sínar ætlanir og þótti mjög vænt hvort um annað og var hann burt kallaður frá henni allt of snemma en nú hefur hún hitt hann að nýju því amma trúði því að annað líf biði okkar og við myndum hittast á öðrum slóðum.

Þegar ég hitti þig í síðasta skipti nú á haustdögum varst þú orðin mjög máttfarin og sagðir mér að hún færi nú að styttast hjá þér þessi jarðvist. Ég sagði þá við þig að það yrði tekið vel á móti þér er þú kæmir yfir móðuna miklu og þú hlóst og mér fannst eins og þú kviðir því ekki, þú varst tilbúin.

Elsku amma, ég vil að lokum þakka þér fyrir allt sem þú kenndir mér og allar skemmtilegu stundirnar sem við áttum saman. Ég sendi börnum hennar og þeirra fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.



Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.) Valborg María Stefánsdóttir.