Kristófer Sigvaldi
Snæbjörnsson
Við sem skrifum þessar línur þekktum Kristófer á mismunandi hátt, annars vegar sem kæran frænda og fjölskylduvin frá barnæsku, og hins vegar sem traustan og góðan vin síðar á lífleiðinni. Kristófer var aðeins fimm ára þegar hann missti móður sína. Fjölskyldan bjó í Ólafsvík og var í þann veginn að flytjast til Hellissands, þegar móðirin dó. Kristófer fluttist með föður sínum til Hellissands og ólst upp hjá honum, en hin systkinin voru send í fóstur. Fyrir ferminguna gekk Kristófer til spurninga í Ólafsvík og hélt þá til hjá móðurbróður sínum Guðbrandi Vigfússyni og Elínu Snæbjörnsdóttur konu hans, sem þá höfðu nýlega stofnað heimili. Var mjög kært með þeim frændum og bundust þau Elín sérstökum vináttuböndum. Hefur móðurmissirinn ef til vill átt sinn þátt í því. Var síðan alltaf mjög náið samband á milli fjölskyldnanna eftir að Krisófer stofnaði heimili, sem haldist hefur óslitið síðan. Steinunn dóttir þeirra dvaldist á barnsaldri oft hjá Guðbrandi og Elínu í Ólafsvík, var m.a. hjá þeim í tvo vetur þegar hún gekk þar í skóla. Hefur hún reynst þeim sem önnur dóttir. Eftir að Elín dó 1993 hefur verið nær daglegt samband á milli Kristófers og Guðbrands, þannig að Kristófer hringdi á morgnana, en Guðbrandur á kvöldin, áður en hann fór að sofa.
Eitt af aðaláhugamálum Kristófers var veiðiskapur, laxveiði og silungsveiði. Leitaði hann uppi veiðivötn og ár hingað og þangað á landinu og dvöldust þau hjónin þá oft í sumarbústað í námunda við góðan veiðistað. Eftir að þau fluttust til Reykjavíkur notaði hann flestar stundir sem gáfust til að fara upp í Elliðavatn eða Reynisvatn og gerði síðan að veiðinni af mikilli snyrtimennsku og vandvirkni, þegar heim kom. Kom hann oft til okkar í Eikjuvoginn, færandi hendi með silung eða lax tilbúinn í pottinn eða reyktan í neytendaumbúðum. Ef enginn var heima þegar hann kom, skildi hann pokann eftir við útidyrnar. Í þessum heimsóknum sínum var Kristófer oftast á hraðferð og mátti sjaldnast vera að því að stansa. Það var þá helst að hann gæfi sér tíma til að tína nokkra ánamaðka í garðinum fyrir veiðiferð næsta dags. Eftir að þau hjónin fluttust suður, fór Kristófer að stunda golf, pútt, á Hrafnistu og náði þar góðum árangri. Vann hann til margra verðlauna í þeirri grein, enda var hann mikill keppnismaður.
Svanhildur og Kristófer bjuggu lengst af á Hellu á Hellissandi og stundaði Kristófer vörubílaakstur. Hann var mikill áhugamaður um bíla og vildi ekki aka nema góðum og traustum bíl. Þau fluttust til Reykjavík haustið 1992 og bjuggu síðan í íbúð Hrafnistu við Jökulgrunn. Kristófer var fremur alvörugefinn og vildi lítið láta á sér bera, en hafði þó fastar og ákveðnar skoðanir. Hann var kappsamur og harðduglegur, vandvirkur við allt sem hann gerði, tryggur, traustur, örlátur og hjálpsamur, en fyrst og fremst var honum mjög annt um fjölskyldu sína. Er það einkenni marga í móðurætt hans.
Kristófer varð bráðkvaddur á heimili sínu að kvöldi 1. okt. sl. á áttugasta aldursári. Hann hafði fyrr um daginn verið uppi í vatni að veiða og lauk við að gera að aflanum eins og venjulega. Eftir kvöldmatinn settust þau hjónin fyrir framan sjónvarpið og þar sofnaði hann. Fréttin um lát hans kom skyndilega og á óvart, enda þótt hann hefði kennt nokkurs lasleika að undanförnu og legið á Vífilsstöðum nokkra daga í síðasta mánuði.
Við kveðjum Kristófer Snæbjörnsson með söknuði og flytjum honum sérstakar þakkir frá Guðbrandi móðurbróður hans fyrir langvarandi vináttu. Svanhildi, börnum þeirra, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum vottum við innilega samúð.
Guðrún Guðbrandsdóttir og Guttormur Þormar.