Guðbjörg Runólfsdóttir Elsku amma.

Okkur langar til að kveðja þig með nokkrum orðum. Okkur eru í fersku minni stundirnar sem við eyddum hjá þér og afa í sveitinni. Móttökurnar voru hlýjar og alltaf var slegið upp veislu til að bjóða okkur velkomin. Það var hátíð að fá heitar pönnukökur og heimatilbúna ísinn þinn. Það gerði þetta enginn eins vel og þú. Við erum enn í dag að reyna að ná fram sömu bragðgæðum en það er ekki hægt.

Aldrei var lognmolla í kringum þig, alltaf eitthvað sem þurfti að gera, fara í fjósið, gefa hænsnunum, reyta arfann, vökva garðinn eða baka kökurnar þínar. Samt gafstu þér tíma til að prjóna á okkur. Við hlýjum okkur enn á vettlingunum og ullarsokkunum svo við minnumst ekki á lopapeysurnar ykkar afa. Aðdáunarvert var hversu vel þér fórst þetta allt úr hendi.

Gaman var að fylgjast með þér dútla við grænmetið í garðinum. Alltaf að gróðursetja nýjar tegundir sem oft urðu illa úti þegar við slógum garðinn. Það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir þig að geta ekki sinnt þínum daglegu störfum vegna veikinda síðustu ár. Við kveðjum þig með söknuði en við vitum að þér líður betur þar sem þú ert nú.

Takk fyrir allt.

Barnabörnin.