Jónas Geir Jónsson
Við vorum ekki ýkja háir í lofti
sumir, sem laust fyrir miðjan 4. áratuginn hófum leikfimi í fyrsta sinn í litla sal samkomuhússins á Húsavík, sem lokið var byggingu á 1928. Salurinn litli var 6×12 metrar að gólffleti og lofthæð 3 m. Engin sturta eða bað var í húsinu, engir snagar fyrir ytri föt, aðeins flekar á búkkum þar sem fötum var dembt í hrúgu með afleiðingum sem mæður okkar voru lítt hrifnar af þegar heim kom. En við þóttumst sannarlega menn með mönnum í leikfimibuxum sem náðu niður á hné og klæddumst margvíslegum skyrtum, ýmist með ermum eða ermalausum. Hverju máli skipti líka þótt okkur klæjaði smávegis í skrokkinn undan óboðnum gestum eða gætum ekki farið í bað til að hreinsa af okkur svitann þegar við komumust í kynni við jakahlaup, höfðabolta og steinahlaup í salnum litla undir stjórn ungs íþróttakennara sem komið hafði frá Akureyri til Húsavíkur 1933, þá nýútskrifaður frá íþróttaskólanum á Laugarvatni. Þessi nýi kennari var ráðinn til að kenna leikfimi við barnaskólann á Húsavík svo og íþróttir hjá Íþróttafélaginu Völsungi.
Þegar hann kynnti sig húsráðanda sem hann leigði hjá á Húsavík og kvaðst heita Jónas Jónsson svaraði húsráðandi að það dygði skammt hér um slóðir að bera slíkt nafn því að í vitund Þingeyinga væri aðeins einn maður með því nafni. Kvaðst íþróttakennarinn þá einnig heita Geir. "Jónas Geir, látum það duga," sagði húsráðandi. Og undir því nafni gekk hann eða Jónas G. á Húsavík til hinstu stundar.
Það varð okkur mörgum tilhlökkunarefni að sækja leikfimitímana hjá Jónasi næstu árin, ekki síst þegar ný tæki bættust við til kennslu í litla salinn, rimlar, kista, stökkrár, hestur og dýna þar sem hægt var að iðka kollstökk, kraftstökk, svifstökk, heljarstökk og flikk-flakk. Hvert tæki sem bættist við vakti gleði og fögnuð þeirra sem ekki höfðu áður þekkt annað betra. Og rýmið var nóg til að gleðjast í. Svo afstætt er það sem við köllum gott og vont.
Nýi kennarinn flutti með sér hressandi blæ í íþróttalíf þorpsins þar sem íbúar voru þá um 900. Smám saman færði hann út kvíarnar, stofnaði fimleikaflokka, tók þátt í skíðaiðkun og renndi sér ásamt félögum sínum niður Húsavíkurfjall beinustu leið, gengið var á Krubbsfjall og upp á Gyðuhnjúk og lögð leið á skíðum austur í Kelduhverfi og víðar. Þá stuðlaði íþróttakennarinn að því að leiðbeinandi var fenginn, kunnur skíðagarpur, til að kenna ungum Húsvíkingum svig. En það sem lengst mun halda á lofti nafni kennarans á íþróttasviðinu var starf hans við iðkun handbolta meðal stúlkna þar sem lið undir hans stjórn og þjálfun gerðu garðinn frægan á sinni tíð. Sú grein íþrótta var iðkuð á sumrum úti á Höfða, íþróttasvæði Völsungs um langa hríð. Þar voru löngum glaðir hópar íþróttaiðkenda og þar fjölmenntu Húsvíkingar til að hvetja keppendur eða tóku þátt í hátíðahöldum sem þar fóru fram.
Árið 1936 gafst Jónasi Geir kostur á ásamt fleiri íþróttakennurum íslenskum að sækja Ólmympíuleikana sem það ár voru haldnir í Berlín. Sú ferð varð Jónasi óþrotleg uppspretta næstu árin til að miðla nemendum sínum fróðleik frá þessum miklu leikum. Sú frásögn varð lifandi í munni Jónasar, studd myndum úr blöðum og blaðaúrklippum, sem hann hafði safnað saman, og geymt var í möppu, sem gekk milli borða í bekknum eftir því sem sögunni vatt fram og nemendur hlustuðu á bergnumdir. Og ekki man undirritaður annað betur úr heilsufræðitímum hjá Jónasi en þessar frásagnir hans. Og mun svo vera um fleiri.
Um 20 ára skeið lét Jónas að sér kveða sem íþróttakennari en þá tók hann að draga sig í hlé á þeim vettvangi en jók bóklega kennslu sína við barna- og unglingaskólann. Varð hann síðar fastur kennari við Gagnfræðaskóla Húsavíkur og kenndi þar til ársins 1977 er hann lét af starfi sökum aldurs. Hafi þá kennt yfir 40 ár við skólana á Húsavík. Almennt kennarapróf hafði hann tekið 1942.
Við Gagnfræðaskóla Húsavíkur kenndi Jónas stærðfræði um árabil og á orði var haft hve kennsla hans þar var ljós og greinargóð. Annaðist einnig kennslu í náttúrufræði þar sem fjallað var aðallega um dýr og plöntur. Sú kennsla lét Jónasi vel. Íslensk náttúra var honum hugleikin svo og ræktunarstörf. Hann hafði komið upp við hús sitt fallegum blóma- og trjágarði sem hann annaðist með mikilli prýði og hlaut viðurkenningu fyrir eitt sinn. Var vel að sér í íslenskri grasagræði. Á ferðum sínum með Ferðafélagi Húsavíkur, þar sem hann var virkur um skeið, hafði margt borið fyrir augu og eyru vökuls ferðalangs. Jónas átti lítinn bát í félagi við aðra og skrapp stundum á sjó þar sem kynnast mátti ýmsum skepnum. Á haustin stundaði hann rjúpnaveiði. Allt það sem hér hefir verið nefnt auðveldaði Jónasi að lífga náttúrufræðikennsluna með því sem hann sjálfur hafði reynt. Honum var létt um að segja sögur og gera þær lifandi með fínu skopi sem hann óf inn í frásögn sína hvort sem var í mæltu máli eða rituðu, skopi sem engan særði en kryddaði mál hans.
Ungur kynntist ég Jónasi í leikfimitímum í litlasal samkomuhússins, síðan sem nemandi hans í bóklegum fræðum í barna- og unglingaskóla og á sumrum unnum við saman í síldarverksmiðju á Raufarhöfn. Að lokum urðum við samstarfsmenn við Gagnfræðaskóla Húsavíkur frá 19571977. Þegar ég setti skólann í fyrsta sinn, þá ungur maður, fór um mig notaleg tilfinning þegar Jónas, minn gamli kennari, stóð upp, bauð mig velkominn, minntist fyrri kynna og árnaði mér heilla í starfi. Ávallt fór vel á með okkur frá fyrstu tíð og til loka og á ég honum margt að þakka á þeirri leið.
Við Gagnfræðaskólann kenndi Jónas teikningu um árabil og auðvitað var áhugi nemenda þar misjafn eins og í öðrum greinum. Jónas tók upp á því að lesa fyrir nemendur stund og stund í tímanum og notaði lengi sem framhaldssögu Milljónamæringur í atvinnuleit eftir Ernest Blitz. Sú saga varð mörgum eftirminnileg og þegar nemendur, sem ekki sátu samtímis í skólanum, hittust síðar og rifjuðu upp skólaárin, áttu þeir a.m.k. eina sameiginlega minningu þaðan, að hafa hlýtt á upplestur Jónasar Geirs á sögunni Milljónamæringur í atvinnuleit eftir Ernest Blitz.
Svipaða sögu má vafalítið segja úr starfi annarra kennara.
Óðum þynnist sú fylking Húsvíkinga sem forðum átti ófá sporin út á Höfða til leikja á 4. og 5. áratug þessarar aldar. Einn af öðrum eru þeir lagðir til hvílu ofar og hærra í Höfðann þaðan sem sér yfir svæðið þar sem æska Húsavíkur átti margar gleðistundir. Nú er þar fátt sem minnir á þá liðnu tíð. Þar blasa við verkstæði af ýmsum toga svo og hús þar sem þurrkaðir eru trjábolir, um langan veg til landsins fluttir. Tákn um nýja tíma. Og komin til önnur svæði og önnur hús þar sem húsvísk æska leitar til leika eins og forðum.
Á afmælishátíð Völsungs 1947 þegar minnst var 20 ára afmælis félagsins hélt Jónas ræðu þar sem hann sagði frá því er hann kom sem ungur maður til Húsavíkur, óráðinn hve lengi hann myndi þar starfa. Gat hann þess í ræðu sinni að hvergi hefði sér liðið betur, orðinn inngróinn Húsvíkingur, og þaðan myndi hann ekki hverfa.
Nú þegar hann er allur, horfinn af sjónvarsviðinu og lagður til hvíldar í Höfðann, leiftra í minningunni stundir frá gamla vellinum, iðandi af mannlífi, þar sem Jónas Geir fór fyrir um skeið.
Blessuð sé minning Jónasar Geirs Jónssonar.
Sigurjón Jóhannesson.