Jónas Geir Jónsson
Elsku afi á Húsavík. Nú hefur
þú kvatt þennan heim en ég veit að þú munt fá hlýjar móttökur hjá ömmu sem við vitum að þú hefur saknað sárt. Eftir skilur þú stórt skarð í lífi okkar en allar yndislegu minningarnar munu vel fylla það bil.
Alltaf var hlýtt og gott að koma til þín og ömmu á Hólnum og hverrar heimsóknar var beðið með mikilli eftirvæntingu. Svo mikil var tilhlökkunin að við systkinin kepptumst um að sjá í fyrstu þök bæjarins og ávallt voruð þið komin í dyragættina á móti okkur með ilmamdi kleinulykt.
Þú áttir svo sannarlega farsæla ævi sem ungur metnaðarfullur piltur, ástríkur eiginmaður, tryggur faðir og yndislegur afi. Þú hafðir svo gaman að krökkum enda geymdirðu svo vel barnið í þér. Ávallt varstu kominn á fjóra fætur í hálfgerða afaglímu við okkur, sem þú að sjálfsögðu vannst og ekki veit ég hvort við krakkarnir eða þú vorum hættulegri í fótbolta hvað varðaði rúðurnar fyrir vestan hús. Þú varst svo fyndinn enda var stríðnin ekki langt undan en öllu gamni fylgdi þó einhver alvara og þú hvattir okkur alltaf til að gera okkar besta í skólanum.
Ég sé þig fyrir mér, niðri í kjallara steikjandi þínar frægu lummur, dottandi í gamla góða ruggustólnum fyrir framan ensku knattspyrnuna, og reykjandi pípuna þína inni í eldhúsi við austurgluggann. Sú hlýja sem þú sýndir okkur öllum mun ávallt fylgja okkur.
Ég hugsa að við barnabörnin höfum öll tekið okkar fyrsta buslugang í gosbrunninum þínum, mæðrum okkartil ómældrar ánægju. Tjörnin eins og við kölluðum hann kemur þó víðar við. Manstu eftir fiskeldi okkar krakkanna? Við fórum upp að Botnsvatni og veiddum heilu ósköpin af hornsílum sem var svo sleppt í Tjörnina. Eitthvað hurftu þau þó fljótt vegna kattanna í hverfinu sem héldu hálfgerða veislu í garðinum.
Ég gleymi aldrei árinu sem amma dó. Þú varst svo sterkur og gafst ekki upp enda sást þú nánast um sjálfan þig alveg fram undir það síðasta. Þú varst alltaf svo ungur í anda að ég gleymi stundum að þú varst núna orðinn 87 ára. Eftir lát ömmu komst þú með okkur til Mallorca þar sem þú stóðst eins og stytta. Eitt er mér þó minnisstæðast. Þú kenndir mér að synda og eftir það var ég alla dagana á bólakafi og ekki varst þú langt undan.
Mér eru minnisstæðar vísurnar sem þú og amma sömduð til okkar á jólum og afmælum þar sem væntumþykjan skein í gegn.
Sex ára hún orðin er,
og ötul við að hjóla.
Með skólatösku á baki ber,
hún bráðum fer í skóla.
Elsku afi. Mig langar að þakka þér fyrir allar samverustundirnar því þær hafa kennt mér svo mikið. Skilaðu saknaðarkveðju til ömmu sem bíður spennt eftir að verða samferða þér á ný.
Guð geymi þig, þín afastelpa,
Friðný.