Haukur Hreggviðsson
Pabbi minn.
Í dag mun ég fylgja þér áleiðis
í þína hinstu ferð og langar því að skrifa þér þessar línur.
Nú er að baki erfiður tími veikinda þinna og þjáninga og eftir sitjum við og veltum fyrir okkur tilgangi lífsins. Af hverju þú fékkst ekki lengri tíma hér í þessu lífi? Eða er ef til vill ekkert fengið með því? Ber lífið kannski tilganginn í sjálfu sér, án tillits til tíma eða árafjölda.
Ég hef, pabbi minn, allaf frá því að ég var lítil verið svo hrædd við dauðann; að hann væri svo hræðilegur og ekkert verra gæti gerst en að einhver mér kær eða þá að ég sjálf dæi.
Nú hefur þú sýnt mér og kennt að dauðinn er ekki slæmur, að hann er hluti af lífinu. Ég hef upplifað hringrás lífsins sem hefst er við fæðumst í þennan heim. Það finnst okkur eðlilegt. Nú skil ég að dauðinn er hinn hlutinn og að hann er líka eðlilegur.
Hins vegar er sárt að þú sért farinn. Ýmsar minningar leita á hugann og sú sem er mér kærust er minningin um litlu stelpuna sem læddist á dimmum nóttum upp í til pabba og sofnaði í hlýjunni og örygginu sem faðmur hans veitti. Þetta gafst þú mér.
Að lokum kveð ég þig með þessum orðum: Í dag skein sólin inn um gluggann, sendi hlýjan geisla, birtu, á andlit þitt og ég sá það í nýju ljósi, sólarljósi.
Þín dóttir,
Ása.