Steingrímur Benediktsson
Við lát Steina frænda vakna
margar minningar sem ég get ekki látið hjá líða að festa á blað.
Fyrstu kynni okkar tengjast veru minni á Hliði á Álftanesi þegar ég dvaldi hjá þeim móðurbræðrum mínum, Steina og Þóri, veturinn 1945-6 að aflokinni langri vist á Landspítalanum.
Þau hjónin, Steini og Jóhanna, höfðu þá nýlega stofnað heimili og Unnur, dóttir þeirra, var á fyrsta ári. Sérstaklega minnist ég jólanna á Hliði en þá sá ég í fyrsta skipti grenijólatré fagurlega skreytt með alls kyns glerkúlum. Gleðin varð þó skammvinn því að um kvöldið kviknaði í jólatrénu út frá kertunum og tókst Steina með snarræði að kasta því á dyr og koma í veg fyrir að kviknaði í húsinu, en allar fallegu glerkúlurnar hennar Jóhönnu fóru í mask.
Vorið 1946 var svo haldið á ný heim í Bárðardal og kynni okkar Steina voru ekki mikil þar til við bjuggum hlið við hlið á Laugateigi í Reykjavík 19641966. Þá var gjarna leitað til fjölskyldunnar ef við Sigrún þurftum að fá pössun fyrir börnin okkar sem þá voru orðin tvö.
Allt frá þeim tíma hefur sambandið milli Steina, Jóhönnu og barna þeirra og fjölskyldu minnar verið mjög náið, enda þótt fundir væru færri þann tíma sem ég bjó á Húsavík.
Sumarið 1982 varð ég fyrir því óláni að fótbrjóta mig við að mála húsið mitt í Fjarðarási. Meðan ég var að ná mér eftir slysið bauðst Steina sólarlandaferð fyrir tvo til Sikileyjar. Það varð úr að við Steini fórum saman í þessa ferð. Á Sikiley tókst með okkur trúnaðarvinátta sem stóð allt til síðasta dags. Í hugann kemur ferð til Sýrakúsa þar sem Steini varð viðskila við ferðahópinn en eftir nokkra leit tókst okkur að hafa uppi á honum. Þá minnist ég hljómleika í hálfhrundu hringleikahúsi í Taormina þar sem við sáum sýningu á Sögu hermannsins eftir Stravinsky og hlustuðum á strengjasveit frá Ankara í Tyrklandi flytja tónlist. Á þeim tónleikum urðu okkur þó minnisstæðastir einleikur kornungrar stúlku á fiðlu og ótrúlegur hljómburður í þessu ævaforna hringleikahúsi, en að baki gnæfði eldfjallið Etna við himin yfir skörðótta veggina.
Þá var það ekki lítið ævintýri að ferðast til Rómaborgar. Mér kemur þá meðal annars í hug gönguferð um gömlu borgarrústirnar í Pompei og myndirnar sem ég tók þar af Steina með Vesúvíus í bakgrunni. Ekki má heldur gleyma kvöldstund á Feneyjatorginu í Róm þar sem við heilluðumst af harmónikuleik 10 ára stráks, sem samkvæmt spjaldi sem hann hafði við hlið sér var munaðarlaus. Við gátum ekki stillt okkur um að taka af honum myndir og gefa honum rausnarlega í peningabaukinn. Seinna um kvöldið sáum við hann svo á öðrum stað á torginu, greinilega með fjölskyldu sinni, sem einnig lék á ýmis hljóðfæri. Þá gátum við ekki annað en tekið fleiri myndir og dáðst að klókindum fjölskyldunnar við að auglýsa drenginn sem munaðarlausan.
Já, minningarnar hrannast upp frá þessari ferð okkar og öllu sem við sáum á Ítalíu. En þær minningar sem eru mér dýrmætastar eru samt sem áður kvöldin þegar við ræddum saman um alla heima og geima. Þá kynntumst við innri manni hvor annars og ég fann glöggt hve honum var enn sár harmur í huga vegna missis Bjarkar, dóttur sinnar, og eiginkonunnar. Seinna hef ég sjálfur kynnst því hve missir barna skilur eftir djúp sár.
Undanfarin sumur hefur Steini dvalið um tíma hjá frændfólkinu í Svartárkoti og unað sér vel. Ég minnist ferða minna með þau systkinin, móður mína og hann, á æskustöðvarnar í Stóraási og upp í Suðurárbotna. Í þeim ferðum gafst mér glögg innsýn í lífsbaráttuna á heiðinni, en jafnframt kom greinilega fram að kærleikurinn til æskustöðvanna var þeim ofar í huga en kröpp kjör á heiðarbýlinu.
Um árabil hef ég tekið Steina með á þorrablót í Lionsklúbbnum Víðarri, ásamt Benna syni hans, Hilmari Þórissyni og Tryggva Kristjánssyni. Sá fagnaður hefst um hádegi á laugardegi og stendur fram undir kvöldmat. Sú venja skapaðist hjá okkur að fara þá heim til mín og spila brids alla nóttina. Ekki fann ég að Steini entist verr þessar spilanætur en við yngri mennirnir, hann var hrókur alls fagnaðar allt til morguns.
Nú eru ævidagar Steina frænda allir. Hann mun ekki framar setja öngul í stóra urriðann á Brotinu í Svartá. Það er þó trúa mín að hann muni frá núverandi vistarveru fylgjast með tilburðum mínum og annarra við að reyna að ná þessum draumasilungi, sem forðum sleit sig af færi hjá honum og kannske kíma ef sá stóri fer með sigur af hólmi.
Um leið og ég kveð Steina frænda hinstu kveðju og óska honum alls hins besta í nýrri vist vottum við, fjölskyldurnar frá Svartárkoti, börnum Steina og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð.
Haukur Harðarson frá Svartárkoti.