Elín Þórólfsdóttir "Húmar að kveldi hljóðnar dagsins ys."

Þegar mér barst sú frétt að kveldi 1. okt. sl. að hún: "Ella hans pabba", eins og við hálfsystur nefndum hana ætíð okkar á milli, væri farin og ekki lengur hér á jörð hljóðnaði og húmaði í huga mér og hjarta nokkra stund. Ég kynntist Ellu fyrir u.þ.b. 36 árum, þegar hún Ella frá Hraunkoti og hann Kalli frá Húsabakka, sem er fósturfaðir minn og hefur gengið mér í föðurstað og ég ætíð nefnt "pabba" rugluðu saman reytunum og hófu búskap á Húsavík. Þau komu með unglingana sína með sér í búskapinn, Ella hann Ingólf og pabbi hana Öddu. Fljótlega eignuðust þau svo sína litlu Ingibjörgu Maríu svo heimilið var stórt í byrjun og ég var sannarlega talin ein af fjölskyldunni og Ella tók ætíð sveitakonunni mér með opnum örmum hvort sem ég kom ein eða með bónda og börn meðferðis. En við vorum ekki einu gestirnir þar á bæ. Þar var harla gestkvæmt, frændgarðurinn stór og vinirnir úr sveitinni margir og man ég oft stundir í hópi margra og góðra gesta við matar- og kaffiborð Ellu. Það er ekki kúnst að setja nóg af diskum og bollum á borð en það er meiri kúnst að hafa mat til að setja á þá alla og metta fjölda manns. Oft datt mér í hug að hún hlyti að eiga einhverja hókus-pókus aðferð í pokahorninu til að bregða fyrir sig, þegar margir komu óviðbúið.

Ella var einstök húsmóðir, hagsýn með afbrigðum, svo lagin og velvirk, gat gert svo mikið úr litlu, hvort það var matargerð, prjóna- eða saumaskapur, að stundum stóð maður dolfallinn og hugsaði "hvernig er þetta hægt?". Það var sama hvert augað leit, alls staðar blasti við röð og regla, natni lögð í allt og engin fljótaskrift á neinu, nógur tími fyrir allt, ekki bara til að vinna verkin, heldur líka til að sinna gestum, spjalla af glettni og léttleika og hjartahlýju. Þau pabbi reistu sér fljótlega stórt og fallegt hús við Fossvelli á Húsavík, þar sem þau bjuggu lengst af. Ella lét ekki sitt eftir liggja við að koma upp heimili þar og gera það þannig að öllum, heimafólki og gestum, leið þar ætíð vel og fundu sig velkomna hvort sem um stuttan eða langan tíma var að ræða. Sjálfsagt var að rétta hönd og skjóta skjólshúsi yfir gest ef með þurfti, vikutíma eða meir. Mig langaði stundum að spyrja Ellu hvort hún væri á sérsamningi um að hennar sólarhringur væri lengri en annarra, slíku kom hún í verk, fannst mér, að með ólíkindum var. Þó var hún alls ekki heilsuhraust, en um það talaði hún aldrei, í mesta lagi að hún væri með gigtarsting, ef maður spurði. Við eigum líklega flest þá ósk okkur sjálfum og öðrum til handa að lifa vel og lengi og trúlega er lífið aldrei of langt ef heilsa er fyrir hendi. En við hljótum líka að óska þeim sem þjást friðar, að þrautum linni og verði aflétt. Fyrir mörgum árum kenndi Ella þess sjúkdóms er nú sigraði að lokum. Hún barðist þá og bar hærri hlut og hún barðist nú "en eigi má sköpum renna". Megi guðs kærleikur umvefja hana. Hún lifði vel, sönn og sterk alla ævi og þannig trúi ég að hún hafi lagt upp í ferðina til fyrirheitna landsins ­ lands ljóss og friðar. Að leiðarlokum þakka ég fyrir allt, sem hún gaf mér og mínum, sérstaklega þó hve góð hún var pabba ætíð. Hann lifir hana nú, háaldraður. Ég bið guð að gefa þeim pabba, Ingibjörgu og Ingólfi og fjölskyldum þeirra styrk og kærleik á erfiðum tíma. Guð geymi ykkur nú og ætíð.

Ragnhild Hansen.