Elín Þórólfsdóttir
Ferjan hefur festar losað
farþegi er einn um borð
mér er ljúft af mætti veikum
mæla nokkur kveðjuorð.
Þakkir fyrir hlýjan huga,
handtak þétt og gleðibrag,
þakkir fyrir þúsund hlátra,
þakkir fyrir liðinn dag -
(J. Har.) Okkur langar að kveðja þig, elsku
amma, með örfáum orðum, þótt við vitum að þú munt alltaf vera með okkur. Margt rifjast upp þegar við leiðum hugann að liðnum árum. Við minnumst allra góðu stundanna sem við frændsystkinin áttum með þér, eins og þegar okkur líkaði ekki maturinn heima laumuðumst við stundum í mat til ykkar við misjafna ánægju foreldra okkar. Oft sagðir þú okkur sögur og ævintýri frá gömlum tímum, t.d. eins og þegar þú og systkini þín voruð að alast upp í Hraunkoti. Þrátt fyrir öll þín veikindi vantaði aldrei kímnigáfuna og aldrei kvartaðir þú þó að við vissum að þér liði illa.
Við, barnabörnin, kveðjum þig með miklum söknuði en við vitum að þér líður vel núna.
Á stundu sem þessari minnumst við orða Kahlils Gibrans: ,Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn og þú munt sjá að þú grætur vegna þess sem var gleði þín." Elsku amma, við viljum þakka þér allar góðu stundirnar sem við áttum með þér.
Guð blessi minningu þína.
Því skal ei með hryggð í huga
horfa eftir sigldri skeið.
Allra bíður efsti dagur,
enginn kýs sér far né leið.
Trú á þann, sem tendrar lífið,
tryggir sátt og frið í deyð.
(J. Har.) Þráinn, Jón, Berglind, Erla, Hafsteinn og Björgvin.