Hjörleifur Sveinsson
Hann vinur okkar Hjörleifur er
fallinn frá, sáttur við guð og menn og saddur lífdaga á 97. aldursári. Það hafa verið okkar forréttindi að eiga Hjörleif að sem góðan vin í meira en 30 ár, en á þeim tíma lærðist okkur að meta hver annan, þannig að allir gátu vel við unað og þá ekki síst við, því það mátti öðlast hafsjó af fróðleik um sveitina hans Hjörleifs, sem var undir Eyjafjöllum, þar sem hann ólst upp, sem og sögur frá Vestmannaeyjum þar sem hann bjó lengst ævinnar ásamt Þóru eiginkonu sinni og börnum. Það var ósjaldan sem við sátum saman og ræddum um menn og málefni, bæði innan fjölskyldu og utan, og var það þá alltaf áberandi hversu ljúfur og þolinmæður hann var í garð allra, nema ef rætt var um pólitík, þá gat hann fengið málið svo um munaði. Þó svo að Hjörleifur væri alltaf mjög skapstilltur, þá brá hann fyrir sig glettni og gamansemi í góðra vina hópi og var þá ávallt hrókur alls fagnaðar.
Um leið og við vitum að þú varst sáttur við að hverfa nú á fund almættis, kveðjum við þig með söknuði.
Megi allt hið góða greiða götu þína handan móðunnar miklu.
Jón og Kristinn.