Hjörleifur Sveinsson
Deyr fé,
deyja frændr,
deyr sjalfr it sama,
en orðstírr
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getr.
Þessi vísuorð úr Hávamálum
komu mér í hug, þegar Friðrik Ágúst Hjörleifsson kom til mín að morgni 29. september sl. og tilkynnti mér, að faðir hans hefði látist um nóttina. Það á ekki að þurfa að koma á óvart, þegar 96 ára öldungur kveður þetta líf, en samt snertir það viðkvæman streng í hjartanu, þegar í hlut á kær móðurbróðir, sem allt sitt líf hafði verið heilsuhraustur, lengst af, að því er ég best veit. Síðast þegar ég hitti Hjörleif, fyrir ári, að Hraunbúðum, þar sem hann dvaldi síðustu árin, var lítinn bilbug á honum að sjá. Þá var hann, að morgni sunnudags í þjóðhátíð, búinn að raka sig og snurfusa og var að binda á sig hálsbindi, þegar mig bar að garði. Eins og vant var þegar við hittumst, var brugðið á glens og ég spurði, hvort það væri bara verið að búa sig á þjóðhátíðina í Dalnum. Hann hló við, eins og honum var eiginlegt, en sagðist nú líklega vera orðinn of gamall til þess að sækja slík mót, þó væri aldrei að vita nema hann kíkti aðeins á staðinn. Þá var ekki að sjá, að þar færi hálftíræður öldungur. En elli kerling lætur ekki að sér hæða og þar kemur, að hún nær undirtökum og sigrar að lokum í síðustu glímunni.
Hjörleifur Sveinsson var ekki, frekar en flest ungmenni í byrjun þessarar aldar, fæddur með silfurskeið í munninum. Hann varð því snemma að taka til hendinni og vinna fátæku heimili. Hann missir föður sinn nokkrum dögum fyrir 19 ára afmæli sitt og einu ári síðar er hann kominn í verið til Vestmannaeyja, í þeim tilgangi að létta undir með móður sinni við rekstur heimilisins. Þar stundar hann sjómennsku allt til ársins 1940. Á þessum árum aflaði hann sér réttinda sem skipstjóri. Árið 1922 stofnar hann til útgerðar með frænda sínum Jóni Ólafssyni á Hólmi í Vestmannaeyjum, en Jón á Hólmi var mikill athafnamaður á sinni tíð, sem hafði trú á ungum duglegum mönnum og studdi þá í þeirra atvinnuuppbyggingu. Fóru þeir Selkotsbræður ekki varhluta af því og hvatti hann þá til þátttöku í útgerð, sem og þrír þeirra gerðu. Hjörleifur og Jón keyptu saman vélbátinn Ófeig, sem þeir gerðu út til ársins 1938, er Hjörleifur seldi Jóni sinn hlut.
Er Hjörleifur lét af sjómennsku árið 1940, hóf hann störf hjá öðrum frænda sínum, Guðjóni Jónssyni frá Seljavöllum, í Vélsmiðjunni Magna, þar sem hann starfaði til ársins 1950. Þar hafa nýst honum eðlislægu eiginleikarnir, sem hann tók í arf frá föður sínum og forfeðrum, sem allir voru völundar á tré og járn, mann fram af manni. Á árunum 1950 til 1955 starfar Hjörleifur síðan við vélaviðhald í Fiskiðjunni hf. í Vestmannaeyjum, en þá verða þáttaskil, því þá hafði Sveinn sonur hans stofnað til útgerðar vélbátsins Kristbjargar VE 70 og tók Hjörleifur þá að sér allt veiðarfæraviðhald, sem hann hafði á hendi allt fram að eldgosinu í Heimaey 1973, en þá flutti hann til Reykjavíkur og þar með lauk hans farsælu starfsævi. Hvar sem Hjörleifur starfaði, hvort sem hann var til sjós eða lands, naut hann fyllsta trausts, bæði vinnuveitenda og samstarfsmanna, fyrir trúmennsku, ósérhlífni, iðjusemi, en síðast og ekki síst fyrir sitt ljúfa skap og glaðlyndi. Ég hygg að vandfundinn sé sá maður á jarðríki, sem séð hefur Hjörleif Sveinsson skipta skapi og reiðast. Hann átti sitt skap, en hann kunni að stilla það. Það er stór kostur. Sá góði orðstír, sem Hjörleifur Sveinsson gat sér í þessu lífi, mun aldrei deyja.
Eftir að Hjörleifur missti hús sitt, Skálholt við Landagötu, undir hraun í jarðeldunum í Heimaey, flutti hann til Reykjavíkur, þar sem hann átti heimili hjá syni sínum, Friðrik Ágústi og hans góðu konu Önnu, þar sem hann naut góðrar umönnunar í 19 ár, eða allt þar til hann fluttist aftur til Eyja og bjó í Hraunbúðum þar til yfir lauk.
Ég vil að leiðarlokum þakka Hjörleifi fyrir allt það góða, sem ég naut frá hans hendi á þeim árum, sem ég átti heima í Eyjum og síðar á lífsleiðinni. Ég minnist allra heimsóknanna í Skálholt, hvort sem það var til þess að sækja mjólkina á morgnana, en með vinnu sinni rak Hjörleifur smábúskap, var með eina eða tvær kýr og nokkrar kindur, eða um var að ræða kurteisisheimsóknir. Alltaf tóku þau Þóra á móti mér með hlýju og velvild. Ég minnist sumardaganna, þegar verið var í heyskap og ég fyrirferðarmikill strákpeyinn, fékk að velta mér í görðunum, sem búið var að raka saman, án þess að amast væri við, þó ef til vill hefði verið ástæða til. Þá minnist ég allra ferðanna í Elliðaey, þegar farið var með féð í sumarhagann, en þeir Hjörleifur og Guðjón, bróðir hans og fósturfaðir minn, voru báðir með kindur sínar í hagagöngu þar. Allt eru þetta ógleymanlegar minningar, sem ég vil nú þakka fyrir.
Fjölskyldu Hjörleifs allri sendum við Ólöf og fjölskylda okkar hjartanlegustu samúðarkveðjur.
Guð blessi minningu Hjörleifs Sveinssonar.
Hilmar E. Guðjónsson.